Gafst upp að bíða

Fór með systur minni að hitta taugalækni í dag. Spurði hann í leiðinni hvað ég ætti að gera í sambandi við lyfið Tysabri sem ég er að bíða eftir að fá. Hann ráðlagði mér, þar sem ég er komin með mikið af gömlu MS-einkennunum aftur að leysa aftur út lyfið Interferon Beta Rebif sem ég var hætt á þar sem það er talið æskilegt að hvíla sig á því fyrir töku á Tysabri. Þvílíkt skipbrot fyrr mig. Heilbrigðisyfirvöld hafa ekki séð sóma sinn í að flýta afgreiðslu málsins þó leyfi sé fengið fyrir nýju og mun öflugra lyfi. Lyfi sem augljóslega skilar meiru, bæði heilsufarslega og fjárhagslega, og þar meina ég fyrir ríkið. Ég sagði við manninn minn og stend við það. Ég mun ekki kjósa Sjálfstæðisflokkin í næstu þingkosningum. Sjálfstæðismenn sem ég kaus í síðustu kosningum eru með málaflokkinn og ég hafði fulla trú á að þeir myndu taka mynduglega á málun en NEI þeir lyppast áfram í gamla farinu, ráðleysi og hrossakaupum innan hins að því er virðist ósigrandi smáríkjasambandi smákónga og drottninga heilbrigðisstofnana. Þátturinn "Já ráðherra" er enn við líði og blómstrar sem aldrei fyrr. Nú í heilbrigðismálum okkar íslendinga!

4 None Blondes

Heyrði þetta lag í útvarpinu í dag og táraðist.

http://www.youtube.com/watch?v=mXcQGsoDkDk


Mac

Það tekur smá tíma og heilaleikfimi að skipta um tölvu. Ég fékk nýja Mac í jólagjöf frá húsbandinu. Nú er ég að pikka á pínulítið þráðlaust lyklaborð sem er það smartasta í heimi og vona að Macinn taki færsluna til greina. Hún virðist ritskoða því í gær gat ég ekki sent inn færslu. Moggabloggið var annars í tómu tjóni í gær vegna árása var mér tjáð. Gæti líka verið ástæðan? Við höfum verið að flytja gögn inn á Macinn. Það hefur gengið en ég ætla að eiga hina tölvuna áfram þar sem mikið af gögnum er þar enn og ágætt að hafa back up. Það er sjálfsagt ágætt að leyfa huganum að starfa við þessar breytingar. Svona eins og að keyra ekki alltaf sömu leiðina í og úr vinnu. Það er bráðnauðsynlegt að breyta út af vananum og Mac er bara svo dásamlega einföld og þægileg þó allt sé öðruvísi en á PC og taki tíma að venjast nýju umhverfi. Það er rok hér í Reykjavík en "nota bene" ekki rigning í augnablikinu. Ágætt að venjast því líka svona í "aukabónus" að hafa ekki alltaf sama veðrið!

Árinu heilsað með Kim Larsen og Kjukken

Eftir mjög skemmtilegt Gamlárskvöld og magnaða flugelda tók við brjálað geim hér hjá okkur.  Flestir gestanna voru farnir en Geir skellti á Danmark 1 og viti menn, þáttur um hljómleikaferð Kim Larsen og Kjukken var í boði þar.   Solla systir var enn hér og við skemmtum okkur ekki lítið yfir þessu.  Síðan settum við á Danmark 1 +  og hlustuðum aftur.  Þá héldu okkur heldur engin bönd og við dönsuðum um íbúðina villtar í geiminu.  Því miður náðist bara mynd af okkur í byrjun enda hefðum við ekki tollað á myndinni eftir að dansinn hófst.  Svo rammt kvað að danstilburðum okkar að leikstjórarnir Quinten og Eli óku hjá í hummer limmo en bönkuðu þó ekki upp á í þetta sinn.  Við vorum alla vega vissar um að þetta væru þeir og færðumst allar í aukana við þessa augljósu (ímynduðu) athygli þeirra.

Solla og Ippa

Áramótaskaup Ippu

Árið hófst með glæsibrag hjá Ippu,  Eftir át og annað sem tilheyrir jólunum skellti ég mér til Póllands í detox með vinkonu minni.  Við fórum út 6. jan og vorum í tvær vikur.  Ég hélt upp á 50 ára afmæli mitt ytra.  Runnu 8,5 kg af mér á heilsuhælinu í þetta sinn.  Önnur eins lýsisbræðsla hefur vart verið fundin í seinni tíð en hópurinn sem samanstóð af 11 manneskjum missti sem svaraði heildarþyngd einnar manneskju.

 

Hélt afmælisveislu þegar heim var komið og keypti matinn á Grænum Kosti.  Það lagðist vel í boðsgesti og var eftirrétturinn líka frá þeim á Grænum.  "Það sem fertugur getur gerir fimmtugur betur!"

 

Dagamman Ippa stóð sína plikt og passaði yngsta guttann tvo daga vikunnar og aðra eftir þörfum.  Einstaklega skemmtilegt starf að vera dagamma, reyndar það allra skemmtilegasta hingað til.  Segi eins og kunningi okkar hann Stjáni Hauks.  "Ef ég hefði vitað hvað þetta yrði gaman með barnabörnin þá hefði ég bara skellt mér beint í þau."

 

Ættarmót hjá "Sauðanesveldinu" var haldið í júní, þann 22.-24.  Magga systir réð tímanum og setti það auðvitað á afmælið sitt sem er 24. þess mánaðar.  Við mamma launuðum henni með því að fara í "Stórar Stelpur" og kaupa afmælisgjöf handa henni þar.  Verst að við misstum okkur þar líka sjálfar svo við gátum ekkert verið að setja okkur á háan hest gagnvart henni!  Enda erum við allar stórar og myndarlegar stelpur, þó eitthvað séum við systurnar að fara fram úr mömmu....allavega á þverveginn.  Þrátt fyrir Póllandsferðir mínar.  Já þær urðu fleiri á árinu og fórum við vinkonurnar aftur 29. september.  Pöntuðum að vísu 15. september sem auglýst hafði verið en það gekk ekki eftir.  Missti 5,1 kg í þeirri ferð.

Fórum að sjálfsögðu til Djúpuvíkur þar sem er mjög skemmtilegt að vera og mannlífið kristallast á holtinu og í víkinni góðu við Rreykjarfjörð.  Þar sem áður var sindrandi mannlíf og síldarverksmiðja ásamt söltun er sem tíminn hafi numið staðar um nokkra áratugi.  Síðan fer hann að rúlla hægt og sígandi í átt að nútímanum, ferðamannaiðnaðinum, sportinu og því einu að vera til.  Það er hvergi eins gott að vera til og í Djúpuvík í faðmi fjölskyldunnar og frjáls.

Fór á þrjú myndlistarnámskeið á árinu.  Eitt á svölum norður á Akureyri þar sem systir tók mig í gegn ásamt Erni Inga.  Annað í Myndlistarskóla Arnar Inga en þetta voru helgarnámskeið.  Síðan fór ég á námskeið í Kvöldskóla Kópavogs sem lauk í byrjun desember. Afraksturinn m.m. fer á sýningu næsta sumar á Hótel Djúpavík ef allt fer sem áætlað er.

Fjölskyldan hefur blómstrað og allir ömmustrákarnir komnir á leikskólann.  "Amma í fullu starfi" hefur því minnkað við sig vinnuna og er í hlutastarfi......ja eiginlega hobby núna.

Jól og áramót eru að ganga yfir.  Allt er með kyrrum kjörum nema veðrið sem virðist ætla að stela senunni þessi áramót á þessum landshluta.  Hvað um það við stöndum þá bara með okkar stjörnublys á okkar svölum og njótum éljanna eða rigningarinnar og roksins. 

Gleðilegt ár og takk fyrir gamla.


Aftakaveður, óróleg kisa og Bee movie

Nú er skollið á aftakaveður hér í borginni.  Mímí, kisan okkar er afar óróleg vegna þessa.  Hún eigrar um íbúðina og mjálmar af og til sem er mjög óvenjulegt í hennar tilfelli.  Það er að segja að mjálma. Við höfðum lítinn næturgest síðustu nótt.  Geir Ægir fékk að gista eftir að hafa farið í bíó með ömmu og pabba sínum.  Ákveðið var að öll hersingin færi í bíó aftur í dag og héldum við í breiðfylkingu á Býflugumyndina, níu stykki.  Sem við þrjú fórum reyndar á í gær líka.  Mér fannst virkilega gaman að sjá myndina og ekkert síðra í annað skiptið.  Síðan komum við hingað heim og kláruðum restina af hangiketinu og hamborgarhryggnum frá jólunum. 
Fengum góða gesti sem að vísu hörfuðu heim í sína eigin afganga, þegar við buðum upp á okkar afganga!

Frost - gleraugu og minnisleysi

Fór út áðan að sækja nýju gleraugun mín.  Ekki í frásögu færandi ef þau væru ekki tvískipt.  Lagði nú ekki í að aka með þau á nefinu heim.  Hefði að öllum líkindum lent á ljósastaur.  Ég hefði ekki trúað að það væri svona erfitt að venjast þessu.  Nú sit ég og krossa putta að ég geri ekki of margar villur því ég sé með höppum og glöppum það sem ég er að skrifa.  Þetta venst á tveim dögum sagði sjóntækjafæðingurinn. Betra ef satt reynist.
Þvílíkt frost úti og kuldi.  Hafði loðhattinn og alles.  Það bjargaði miklu. 
Annars fékk ég heiftarlega pest á annann í jólum og hef legið nánast marflöt þar til í morgun.  Fór þó aðeins á stjá innandyra í gær.  Ég saknaði þess að komast ekki í jólaboðið hjá Helgu og Guðmundi á annan í jólum.  Fer í annað jólaboð á morgun ef heilsan leyfir sem mér sýnist nú allt stefna í.  Við verðum svo með kalkún hér á Gamlárskvöld.  
Mikið gaman og mikið grín.
Annars var ég að reyna að rifja upp matseðilinn í boðunum okkar á Gamlárskvöld á Sigló forðum.   
Ég hreinlega get ekki munað hvað var í aðalrétt.  Ég man þó eftir að einu sinni hafði ég "bananasplitt að hætti húsfreyjunnar" í eftirrétt.  Hvers vegna man ég það?  Jú sökum þess að seinna um kvöldið var stiginn dans og varð þá það óhapp að ég og fyrrverandi mágur minn runnum eitthvað til og duttum og hann lenti í splitt einhvern veginn yfir mig.  Þá sagi hann hátt og skýrt "þetta var bananasplitt að hætti húsfreyjunnar". W00t

Stjörnuspá - framhald

Ég!
STEINGEIT 22. desember - 19. janúar
Þér er mikið í mun að að gera það sem þú sagðist ætla að gera. Tilraunir leiða þig á rétta braut - ekki þykjast vita nú þegar hvað þú eigir að gera.
Maðurinn minn!
Hrútur: Þótt þú og fjölskyldan hafið upplifað það sama, sér hver reynsluna í sínu ljósi. Þannig er eðlilegt að hugsa: "Á hvað plánetu er ég staddur?"

ÞAR SEM VEGURINN ENDAR

Ég tók áskorun mannsins míns og las bók Hrafns Jökulssonsr "Þar sem vegurinn endar". Ég gaf honum hana í jólagjöf.
Bókin er listaverk og fjallar af beinskeittri næmni um samspil liðins tíma og nýs. Um líf Hrafns sjálfs og samferðamanna hans. Um aðlögunarhæfni mannsins, heimspekinga norðursins og lífið....og dauðann og eymdina og ástina. Í bókinni kristallast á einstaklega skemmtilegan hátt augnablik sem tengir jafn ólíka einstaklinga og stríðsherra Serba og niðursetning á Ströndum og um leið kemur í ljós að fasti punkturinn í lífi Hrafns var einmitt þetta heimili og heimilisfólk, já og dýrin, í henni Stóru Ávík í Árneshreppi norður á Ströndum. Stundum hágrét ég við lestur bókarinnar og skellihló á öðrum stöðum. Sums staðar gerði ég bæði. Eins var um manninn minn sem getur ekki byrjað á annarri bók alveg strax. Hann verður að melta þessa segir hann. Það er ekki einu orði ofaukið í þessari bók en samt segir hún allt.


HVÍT JÓL

Hvít jól í Reykjavík. Yndislegt að horfa út. Hæfilega þykk dúnmjúk snjóbreiða yfir öllu. Dálítið þungbúið yfir borginni. Enda snjókoma eins og hún gerist best. Hæglát en þétt hundslappadrífa. Óneitanlega hvíld frá regninu undanfarna mánuði. Aðfangadagur hjá okkur var mjög skemmtilegur. Höfðum möndlugrautinn að venju klukkan eitt. Þá eru venjulega fullar heimtur því allir vilja auka möguleika sína á að hreppa möndluverðlaunin. Sem að þessu sinni voru tveir m&m pokar. Sneisafullur pottur af graut hvarf eins og dögg fyrir sólu. Sjómaðurinn okkar Geir Fannar hreppti þau að þessu sinni og sýnir það enn og aftur að þeir "fiska sem róa". Hann er búinn að vera á síldarvertíð frá því í haust og hefut gengið vel í Grundarfirði og m.a.s.fengu þeir lóðs inn í Hvammsfjörð einn túrinn! Maðurinn minn fékk að velja möndluverðlaunin og hann valdi m&m -ið þar sem hann átti það í fórum sínum frá því í Fríhöfninni einhvern tíma. Klukkan sex mættu svo allir aftur í matinn. Geir Ægir einn sonarsonur okkar var hér með okkur allan daginn. Han var duglegur að hjálpa til og lagði m.a. á borðið með afa sínum og svo þegar afi fór að sækja fleiri gesti setti hann servíetturnar snyrtilega á hvern disk fyrir ömmu á meðan amma og Trausti Veigar lögðu lokahönd á eldamennskuna í eldhúsinu. Við vorum með hamborgarhrygg og mikið meðlæti. Heimatilbúin ís á eftir og gerði Guðrún tengdadóttir æðislega snikkers sósu með honum, hún átti einnig heiðurinn af Waldorf salatinu með matnum. Því næst óð Karen Nao tengdadóttir okkar í frágang ásamt fleirum. Þá var komið að pökkunum, var reyndar byrjað aðeins undir ísnum, því við vorum sein fyrir. Þeir litlu fengu að opna einn pakka hver meðan við snæddum ísinn. Einar Breki var þó svo upptekinn við ísinn að hann sýndi pökkunum engan áhuga fyrr en hann var búinn að innbyrða hann. Það var margt góðra gjafa í pökkunum hjá okkur öllum og við að vonum mjög ánægð með dagin og kvöldið. Hér sit ég m.a. og blogga á glænýjan Mac. Maðurinn minn tók daginn snemma og kláraði bókina "Þar sem vegurinn endar" eftir Hrafn Jökulsson sveitunga okkar í Árneshreppi. Í dag verður svo hangikjöt hér með laufabrauði frá Kristjáns bakaríi, heimabökuðum flatkökum og auðvitað uppstúf. Á morgun jólaboð hjá Helgu og Guðmundi. Gleðileg jól.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband