Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Er besti flokkurinn bestur?

Reykvíkingar hafa kosið.  Þeir kusu Besta Flokkinn og þeir kusu Sjálfstæðisflokkinn.  Aðrir flokkar fengu ærlega á baukinn.

Hvað gerir Besti Flokkurinn?  Hann snýr sér beint til Samfylkingar (lesist samspillingar) um samstarf.

Hvernig væri nú að grínarinn Jón Gnarr (Gunnar) tæki skilaboð kjósenda alvarlega og myndaði allra flokka stjórn í Reykjavík.  Sendi þannig skilaboð að hann væri verðugur traustsins.  Hann gæti í ljósi skoðanakannana, sem sýna  að flestir Reykvíkingar vilja Hönnu Birnu sem borgarstjóra ráðið hana í starfið þar sem henni virðist einkar lagið að kalla fram samstöðu um nálgun á þau mál sem skiptar skoðanir eru um í borginni.

Jón Gnarr yrði fínn forseti borgarstjórnar og má hreinlega ekki eyðileggja sjálfan sig sem listamann á þessu brölti. 


Ég ætlaði ekkert að blogga um þetta en.......

.........meðvirknin í samfélaginu er hreinlega yfirgengileg.  Hér liggur samfélagið á hliðinni eftir yfirreið einstakra manna sem tókst að ná höndum yfir innistæður og lífeyrissjóði landsmanna.  

Þeir reiknuðu sér milljónir á milljónir ofan í laun og reiknuðu það m.a. út frá því hve ábyrgð þeirra væri mikil.

Hvar var sú ábyrgð þegar á reyndi?

Þeir tóku út milljarða á milljarða ofan í arð vegna þess m.a. hve vel þeim tókst að auka verðmæti bréfa í bönkunum.

Hvert var það verðmæti þegar upp var staðið?

Nú stendur samfélagið í þeim sporum að vorkenna þessum mönnum fyrir það að þurfa að svara til saka. Samanber grein eftir Jakob Frímann Magnússon í Fréttablaðinu í dag.  Hvar hefur sá ágæti maður alið manninn undanfarið?  Að draga þjóðargjaldþrot upp sem annað Hafskipsmál, Jóns Ólafssonarmál eða Baugsmál er í hæsta máta óviðeigandi. Veit Jakob Frímann ekki að sérstakur saksóknari nýtur virðingar og trausts sem yfirvegaður og stefnufastur maður.  Við erum þar að auki í samvinnu við aðrar þjóðir m.a. Breta í þessu máli. 

Ég gleðst ekki (ólíkt forsætisráðherra) yfir óförum annarra, þvert á móti tekur mig sárt að sjá þegar menn missa flugið.

Ég (ólíkt fjármálaráðherra)  lít ekki á þessar aðgerðir sem friðþægingaraðgerðir til að sefa mestu reiðina í samfélaginu. 

Það er sárt að hugsa til þjáninga fjölskyldna þeirra manna sem nú eiga yfir höfði sér refsingu.  En það eru fleiri fjölskyldur í landinu.  Fjölskyldur sem eru að missa allt.  Sem hafa misst allt.  Sjá ekki fram á að geta framfleytt sér og sínum.

Fólk sem missir móðinn og gefst hreinlega upp.  Það er sárara en tárum taki.

Nei Jakob Frímann það eru þrátt fyrir allt lög í landinu.  Lög sem ber að virða. Það er engin afsökun þó mönnum hafi tekist að sveigja framhjá þeim og/eða brjóta þau í lengri eða skemmri tíma.

Nú er komið nóg. 


Litlir kassar - allir eins

Á sama tíma og allt er í kalda koli stendur Borgarstjórn Reykjavíkur í stórræðum.

Hún er að huga að skipulagsmálum í Laugarnesinu!

 Á sama tíma og auðar augntóftir og hálfbyggðar spilaborgir standa víðs vegar um borgina. Heil hverfi lúra eins og skeltimbraður útigangsmaður sem hefur lagt sig eftir fylletí og vaknar upp í útjaðri byggðarinnar.  

 Í Reykjavíkurborg búa margir einstaklingar og er ekki einmitt í því orði falið sérkenni hvers og eins.  Einstaklingur.  Einstakur maður. 

Hrafn Gunnlaugsson hefur lagt fram skemmtilegar og framsæknar tillögur að uppbyggingu borgarinnar. Hann er einstakur listamaður, skapandi og kraftmikill.

Til að eiga lifandi og skemmtilega borg eigum við að virkja sköpunargáfu og skemmtilegt ýmindunarafl borgarbúa.

Allir eru einstakir!  

Ég skora á Hönnu Birnu Kristjánsdóttur borgarstjóra að kalla nú Hrafn á sinn fund og hreinlega ráða hann í vinnu við að útfæra skemmtilega og lifandi borg. 

Borg sem þorir að taka mið af öllum íbúum sínum og gefa þeim svigrúm til að þrífast innan sinna marka.

Mikið væri nú leiðinlegt ef allir byggju í litlum kössum og öllum eins.

 

 

 

 


Smásálarháttur

Nú stendur íslenskt samfélag frammi fyrir því að stjórnmálamenn, hver af öðrum sjá sig knúna til að segja af sér og "taka sér leyfi" eða "fara í frí".   

Skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis hefur haft þessi áhrif og er það vel.  Það er raunar undarlegt að menn hafi kosið að bíða skýrslunnar með þessar ákvarðanir sínar.  Það eitt og sér undirstrikar þörfina fyrir þá viðamiklu og vönduðu rannsókn sem fram fór.

Það sem vekur ugg minn og óróa er að rannsóknin tekur ekki til starfsemi íslensku bankanna nú.  Afskriftir og endalausar eftirgjafir til þeirra aðila sem settu allt á hliðina hljóta að teljast varhugaverðar svo vægt sé til orða tekið.

Á sama tíma er gengið fram af fullri hörku gagnvart minni viðskiptavinum og þeim sem ekki voru, fyrir hrunið, í aðstöðu til að raka að sér fé úr sjóðum bankanna.  Viðskiptavinum sem með "gamaldags" hugsunarhætti stóðu í skilum á meðan þeir lifandi gátu. 

Yfirvöld láta snúa "litla gröfumanninn"niður með ægivaldi og rífa af honum bjargræðið sem hann reynir af framfleyta sér og sínum á.  Gröfuna.  Á meðan fá sjálfir bankaræningjarnir afskrifaðar þær skuldir sem steyptu okkur í glötun og óheftan aðgang að sjóðum ríkisbankanna.  

 Aftur og nýbúnir!

Hvar er réttlætið í þessum aðgerðum Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon?  Þið sem höfðuð uppi stór orð um réttlætið  ÁÐUR en þið komust til valda? 

Þegar ég hugsa betur um það er "litli gröfumaðurinn" ekkert svo lítill í þess orðs dýpstu merkingu.

Hinir sem skríða í duftinu og kyssa vöndinn eru aftur á móti eins og litlir ormar sem engjast í eigin vanmætti. Vanmætti til að sýna þá djörfung að segja hingað og ekki lengra 

Í þeim búa hinar eiginlegu smásálir. 

 


"Hvers vegna var Icesave tekið úr sáttaferlinu?"

Athyglisverð grein eftir Eirík Bergman, stjórnmálafræðing í Fréttablaðinu í dag.  Hann furðar sig á þeirri ákvörðun Steingríms J. Sigfússonar að taka málefni Icesave úr sáttafarvegi innan Evrópusambandsins með Brussel viðmiðunum svokölluðu, sem kváðu m.a. á um þverþjóðlega aðkomu fleiri Evrópuríkja að lausn málsins og taka þess í stað upp tvíhliða samninga við Breta og Hollendinga.  

Þessi sáttafarvegur gekk út á að leysa málið með aðkomu allra þjóða Evrópusambandsins enda snýst það um sameiginlegar reglur á Evrópska efnahagssvæðinu.

Ég tek undir þetta sjónarmið og skil ekki hvernig hægt var að splundra þessum farvegi í loft upp og setja Svavar Gestsson þess í stað í að leysa málið, nánast upp á eigin spýtur!

Hvet alla til að lesa þessa grein.  

Hún er á blaðsíðu 16.  Umræðan/Icesave


Gegnsæi í stjórnsýslu

Þegar Vinstri Grænir voru í kosningabaráttu boðuðu þeir aukið gegnsæi í stjórnsýslunni.  

Samfylkingin fór einnig mikinn í þeirri umræðu, einkum forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir.

Fólkið í landinu treysti því að svo yrði og veitti þeim brautargengi til að koma á umbótum í stjórnsýslunni allri sem myndi grundvallast af gegnsæi og heiðarleika.

Nú hafa fjölmiðlar farið fram á afrit af samtölum forsætisráðherra, fjármálaráðherra og utanríkisráðherra við breska og hollenska ráðamenn o.fl. vegna Icesave deilunnar eftir að forsetinn synjaði þeim lögum staðfestingar.

Það eina sem þarf til að fólkið í landinu sem kaus þau vegna m.a. loforða um algert gegnsæi fái að vita hvað fór þeirra í milli er samþykki ráðherranna.

Þeir sögðu NEI.

Er þetta gegnsæi í stjórnsýslu?

Þetta vekur upp spurningar um hvaða orð fóru á milli ráðamanna sem fólkið í landinu má ekki vita? 

 

 

 


Lýðveldispartý.

Við Nína frænka skelltum okkur í lýðveldispartý á laugardaginn að var.  Það dugði ekkert minna en það þegar við loksins ákáðum að skvera okkur út á lífið saman.

Eftir að við fundum loks heimili Stínu stuð sem hélt partýið smelltum við okkur í fögnuðinn.

Okkur var tekið með kostum og kynjum og nóg var að bíta og brenna.

Stína á heiður skilinn fyrir að opna heimili sitt fyrir lýðveldissinnum og hún var með opið hús í rúman sólarhring.

Fólk var að koma og fara meðan við stöldruðum við og fjörugar umræður mynduðust milli manna.

Ég hef verið dálítið hugsi síðan og það ekki að ástæðulausu.  Lýðveldi er eitthvað sem okkur finnst alveg sjálfsagður hlutur.  Svo sjálfsagður að ef við blindumst í augnabliksæðibunugangi getur það kostað okkur sjálfstæði okkar og hvar er þá lýðræðið statt?

Takk Stína fyrir móttökurnar og fjörið og ég mun svo sannarlega ekki sofna á verðinum.

Látum ekki blekkjast af þeim sem hagnast á að koma okkur undir járnhæl sinn.

Eins og Lárus Blöndal sagði: 

"Stöndum í lappirnar"! 

 


Notum tímann

Nú er lag að nota athyglina sem Ólafur Ragnar Grímsson beindi að okkur með því að synja lögum um Icesave staðfestingar og kynna málstað okkar kyrfilega fyrir umheiminum.

Ég er ekki að segja að við eigum ekki að taka á okkur hluta af skellinum en mér sýnist einboðið að Evrópubáknið eigi að taka á sig ábyrgð af eigin regluverki sem Eva Joly segir eftir viðtöl við þá sem sömdu reglurnar að þær miðist ekki við það þegar hrun verður á bankakerfi heillar þjóðar.

Né heldur þegar efnahagshrun verður í heiminum.

Það er furðulegt en eini maðurinn sem segir þetta er Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.  Aðrir, einkum ríkisstjórnin virðist vera of upptekin við að elta skottið á sjálfum sér.

Ég held að þjóðin eigi að gera þá lágmarkskröfu á og sjálfa sig og þingheim að steinhætta í flokkspólitískum skotgröfum en fara þess í stað að vinna saman sem ein samhent heild með hagsmuni sína að leiðarljósi.

Það er beinlínis hættulegt fólk sem stjórnar með hótunum um reiði annarra þjóða ef við skrifum ekki undir það sem bresk sveitarfélög og einstaklingar gömbluðu með.  Hver og ein einasta íslensk húsmóðir vissi að þetta var of gott til að vera satt og því ættu sveitarstjórnarmenn, skyldi maður ætla, að hafa haft hugsun á að fara varlega.

Hættulegt fólk segi ég því ákall til heimsins um refsivönd á okkur sýnir svo ekki verður um villst að forystumenn okkar munu ekki standa í vegi fyrir því að okkur verði látið blæða til síðasta blóðdropa.

Hvað höfum við þá að gera með sjálfstæði okkar eða lýðræði? 

 


Ónýt ríkisstjórn.

Alvarleg atriði varðandi það hvernig Ríkisstjórn Íslands heldur á málum eru að koma fram með æ skýrari hætti en mann hefði órað fyrir.

Í bréfi forsætisráðherra til forseta koma fram alvarlegar upplýsingar um meintar kúgunaraðferðir hinna Norðurlandanna og Evrópusamfélagsins alls sem samkvæmt bréfi Jóhönnu notar Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sem tæki til að kúga smáþjóð.

Nú benda þau á forsetann sem aðlalsökudólg í málefnum þjóðarinnar og kenna honum um eins og kom fram hjá viðskiptaráðherra að erlendir fjárfestar haldi nú að sér höndum.

Á sama tíma bíða aðilar sem vilja byggja gagnaver með ótal störfum, tækifærum og möguleikum ákvörðunar Ríkisstjórnarinnar með að fá að hefjast handa.

Hræðsluáróður virðist vera eina röksemd Ríkisstjórnar sem hefur ekki unnið að því sem hún var kosin til og þykist hafa efni á að halda fjárfestum sem vilja hasla sér völl hér á landi frá.

Það að Íslensk Ríkisstjórn láti það fara frá sér að Bretar og Hollendingar hafi framtíð okkar í hendi sér ef hinn umdeildi Icesae samningur verði borin undir þjóðina er auðvitað forkastanlegt og á ekki að líðast. 

Ég kalla eftir samræðum og samvinnu alls þingheims og krefst þess að skotgrafahernaður og átakapólitík verði gerð útlæg úr Íslenskum þingsal.

Ráðherrar sem ekki treysta sér til að leiða þá samvinnu en varpa þess í stað í sífellu sprengjum sem spilla fyrir samvinnu og tala síðan landið niður á vettvangi alþjóðasamfélagsins eiga frá að hverfa. 

  


Tími samvinnustjórnmála er kominn

Eiríkur Tómasson og Gunnar Helgi Kristinsson komu inn á það í viðtali við Boga Ágústsson að stjórnmálin á Íslandi væru í eðli sínu átakastjórnmál.  Við værum ólík öðrum þjóðum hvað það varðaði og þeir vonuðust eftir því að tími samvinnustjórnmála væri að renna upp hér á landi.  Eða þannig skildi ég þá ágætu herramenn.

Ég er svo innilega sammála þessu og hef ásamt fleirum undrast mjög þann málflutning sem Alþingi Íslendinga hefur boðið okkur upp á allt síðan það syrti verulega í álinn haustið 2008. 

Landið er á vonarvöl og þingmennirnir okkar FYRIR OG EFTIR kosningar hafa ekki sýnt þann þroska að reyna í sameiningu að vinna okkur upp á núllið á ný.  Eina viðleitnin í þá veru var afgreiðsla frumvarpsins um Icesave á sumarmánuðum en eftir að Hollendingar og Bretar höfnuðu fyrirvörunum hefur hver höndin verið upp á móti annarri á Alþing Íslendinga.  Ekki er undarlegt að aðrar þjóðir horfi til þess hve ósamstíga við erum og reyni að koma sínum málum áfram í skjóli þess.

Nú ríður á að við kynnum málstað okkar svo ekki verði um villst og fáum til þess reynda aðila sem kunna til verka.

Nú ríður á að þjóð og þing sameinist í afstöðu sinni og komi fram með raunhæfa lausn sem sýnir svo ekki leiki nokkur vafi á að við ætlum okkur að standa við skuldbindingar okkar.

Nú ríður á að við komum fram sem ábyrg þjóð og tölum einu máli um þá erfiðleika sem við okkur blasa og sýnum vilja til samvinnu án þess þó að láta kúga okkur. 

Það hvernig Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon komu fram strax eftir synjun forseta var ekki í þeim anda að skapa samstöðu meðal þjóðarinnar eða samstöðu annarra þjóða með okkur.

Þau verða að breyta um brag og virkja þingið með sér í samvinnu að lausn málsins.  

Þar geta þau tekið Hönnu Birnu Kristjánsdóttur borgarstjóra sér til fyrirmyndar en það er alveg einstakt hve vel henni hefur tekist að koma á samvinnu í borgarstjórn Reykjavikur. 

Staðan er þessi og við verðum að sýna þá ábyrgð að leysa úr henni saman. 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband