Færsluflokkur: Ferðalög

UZboja

Við hin heilaga þrenning sem dvelur hér á UZboja látum vel af okkur.  Ég varð auðvitað að kanna pólska heilbrigðiskerfið en Borys læknir sendi mig á bráðamóttöku til að láta fjarlægja mergtappa sem kom skyndilega eftir eina sundferðina.  Það var upplifun og ég gef pólska heilbrigðiskerfinu góða einkun. Við erum afar þakklátar fyrir hið góða atlæti sem við þrjár frá Íslandi njótum hér.  Setjum hér myndir af okkur í okkar yndislegu "Gullnu svítu" o.fl. m.a. af "slysó" í dag.

Slysó

Í tiltektinni

Litla og Stóra

Göngugatan á UZboja

kvöldsól

matsalurinn á UZboja

Jez Dabrowskie vatn


Pólland

Fer í fyrramálið til Póllands og verð þar næst tvær vikurnar.  

Hlakka til verð ævinlega þakklát Jónínu Ben fyrir að koma þessum ferðum á kortið hér á landi.

Ég er þó ekki að fara á hennar vegum að þessu sinni. 

Við förum þrjár saman.  Ég og Kristín vinkona mín sem hefur farið með mér áður og ein enn sem er að fara í fyrsta skipti í svona heilsudvöl í Póllandi. 

Það er allt klappað og klárt og við spenntar að heilsa vorinu í Póllandi.

Okkur finnst bara spennandi að spreyta okkur á þessu sjálfar núna.

Stórt og hlýtt knús til þín ef þú lest þetta Jónína. 

Ennfermur knús í allar áttir. 

 


Snjór og ófærð

Nú eru lægðirnar á færibandi að halast yfir landið.  Því er kannski ekki besta veðrið til ferðalaga um þessar mundir.  Ég fór að rifja upp þegar ég horfði á gríðarlegt fannfergi í Súðavíkurhlíðinni í fréttunum í gær hvernig veturnir voru þegar ég bjó norður í landi.  

Á barnaskólaaldri var ég í heimavistarskóla í Fljótunum.  Þá var ég viku í skólanum og næstu viku heima. Það var vegna þess að það var ein skólastofa á Ketilásnum og einn kennari. Nemendum var skipt í eldri og yngri deild.  

Ég var held ég níu ára þegar ég byrjaði í skólanum.  Var búin að læra að lesa og skrifa heima og reikna líka. Oft var vont veður og ófærð og stundum var eina leiðin að komast ferða sinna að elta ýtuna sem ruddi veginn því hann lokaðist jafnóðum aftur.  Þá tók ferðalagið langan tíma og eins gott að hafa þolinmæðina með sér í ferðalagið.  

Stundum félkk ég far með flutningabilunum eða öðrum sem leið áttu um. Ég man m.a.s. eftir a.m.k. einu skipti sem ég fékk að sitja í vegheflinum með honum Gísla í Þúfum þarna á milli.  

Það var líka oft sem þurfti að fara í Siglufjörð og stundum var klöngrast yfir snjóflóð sem fallið höfðu á veginn.  Það var glæfralegt svona eftir á að hyggja.  Ég mað að við horfðum áhyggjufull upp í gilin hvort meira væri á leiðinni og jafn áhyggjufull fram af brúninni þar sem dekkin á annarri hlið rússajeppans stóðu hálf fram af hengifluginu.

Það var nú meira hvað rússajeppinn gat komist í snjónum.  Ég held að það sé besti jeppi sem ég hef ekið í ófærð og þá meina ég í ÓFÆRÐ. 

Eins gott að fara varlega í ófærðinni og blindunni sem er víða um þessar mundir..... 


Lækning við MS leynist víða

Það er alveg merkilegt hvað lækning við MS sjúkdóminum getur leynst víða. Egypsku Pýramídarnir orðnir eitt af því. Maður talar nú ekki um að fá ungan og kraftmikinn mann í kaupbæti........
mbl.is Sonur bin Ladens vill dvalarleyfi á Englandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heilsubót

Ég hef verið að velta fyrir mér hve vel hefur tekist til í þeim tveim Póllandsferðum sem ég hef farið mér til heilsubótar.  Ég vona að ég komist aftur á næsta ári. Á heilsuhælinu sem við vorum á helst þetta allt í hendur.  Fyrst og fremst er matarræðið sem felst í grænmetis og ávaxtaföstu (600 hitaeiningar á dag).  Það gerir það að verkum að líkaminn fer í gang sjálfur að laga það sem aflaga hefur farið, losa og hreinsa uppsöfnuð úrgangsefni o.s.frv.  Svo er það ristilhreinsun sem manni er í sjálfsvald sett hvort maður fer í.   Læknarinir á heilsuhælinu mæla með henni vegna þess að sjúkur yfirfullur vestrænn ristinn hefur einfaldlega ekki getu eða bolmagn til að losa sig við það sem í hann hefur safnast.  Það eru pokar á ristlinum sem eru gjarnan "full of shit" auk þess sem harðir kögglar eða spörð geta velst um í ristlinum árum saman án þess að losast rétta leið út.  Yfirfullur ristill þrýstir auk þess á og skaðar önnur líffæri á ýmsan hátt.  Ristilhreinsunin er alls ekki óþægileg og ég fann mikinn létti eftir að hún hafði verið framkvæmd.  Fræðsla með fyrirlestrum er í boði en satt að segja fannst mér hún ekki svipur hjá sjón í þetta sinn.  Þó fengum við fyrirlestur hjá lækni á öðru hóteli en við sex íslenskar konur vorum á og bætti sá fyrirlestur upp "hraðspólun" hinna tveggja. Hreyfing er manni nokkuð í sjálfsvald sett.  Boðið er upp á sundleikfimi, boltaleikfimi, bakleikfimi og leikfimi úti í skógi.  Einnig er hvatt til gönguferða um nágrennið.  Nudd skipar stóran sess í meðferðinni og er það mjög losandi og gott. Næst þegar ég fer ætla ég þó að panta það fyrirfram svo það verði ekki stress hvort ég fái tíma í nuddi.   Snyrtifræðingur og hárgreiðslukona eru til staðar og gott er að fá snyrtingu í rólegu umhverfi hjá góðu fagfólki.  Í heildina er ég ánægð með dvölina þó nokkur atriði hefðu mátt betur fara.  Markmiðið var betri heilsa og léttari Vilborg og það náðist nokkuð vel.  Hér fylgir mynd frá U Zbója en fallegur gosbrunnur var við herbergið okkar (þó það hafi verið slökkt á honum þegar myndin er tekinBlush ).Pólland sept-okt 034

Heima á ný

Komin heim eftir vel heppnaða dvöl í Póllandi á U Zbója heilsuhótelinu í Golubie.  Fimm kílóum léttari og öll liprari og þrekmeiri.  Það er alveg ótrúlegt hvað þetta hjálpar mér og ég hlakka bara til að fara þangað aftur.  Við lentum þó í hálfgerðum hremmingum þarna framan af. Ég hafði pantað nudd hjá öðrum nuddaranum (þeim sem hefur e-mail) fyrir okkur vinkonurnar. Við höfðum pantað fyrir hádegi.  Þegar við svo mættum var okkur sagt að vissara væri að fara í röðina klukkan hálf sex á sunnudegi og bóka nuddið hjá þeim sjálfum.  Okkur var sagt að íslendingarnir hefðu forgang að pöntuninni.  Þegar við svo mættum tvær klukkan rúmlega fimm voru þrjár pólskar mættar og svo komum við tvær svo ein pólsk og önnur íslensk.  Þá kom heill haugur af þeim pólsku og þrjár íslenkar aftan við þær. Ég komst fyrst inn og reif eina íslenska framfyrir þær pólsku og þegar við Kristín höfðum bókað okkar tíma sem voru eins og um var samið fyrir hádegi (hvort sem það var tilviljun eða ekki, þeir skilja svo litla ensku).  Hófst nú mikið karp vegna þess að þeir höfðu ekki tíma fyrir allar hinar og við urðum að hvessa okkur og hóta að sleppa allar tímunum áður en þeir hringdu í auka nuddara sem tók þrjár þær síðustu að sér.  Þær pólsku urðu alveg brjálaðar þegar þær komust að því að engir tímar voru eftir og það var ekki gaman að fá illilegt augnaráð þeirra í bakið.  Þó ferðin byrjaði í þessu stressi rættist úr henni og við höfðum árangur sem erfiði.  Mikið er líka gaman að koma heim eftir vel heppnaða dvöl.
Pólland sept-okt 054
Þarna erum við að fá okkur grænt te í litla bænum.

Djúpavík ó Djúpavík

Strandir 2007 135Strandir 2007 110Það var gott að koma heim í gær eftir gott frí með fjölskyldu og vinum.  Tíminn líður bara allt of hratt og er alltaf of skammur þegar eitthvað skemmtilegt gerist.  Þá er gott að nýta hann vel og einnig gaman að rifja upp og skoða myndir.  Einnig plana næstu skemmtilegheit á Djúpuvík og víðar.  Guttarnir okkar voru alsælir og skemmtu sér vel saman og með okkur.  Það var smíðað, farið í fjöruna, lækinn, móann og um holtið, berjamó svo eitthvað sé nefnt.  Einnig var "innipúkahátíð" þar sem veðrið var ekkert spes fram á sunnudag.  Þeir ætluðð ekki að vilja fara enda skil ég það vel.  Þetta er algert frelsi að komast út þegar maður vill og geta dundað við nánast hvað sem er með okkur eða án okkar fullorðna fólksins.  Þegar afi og amma urðu svo eftir með kisurnar var alveg hræðilega tómlegt.  Þið getið ýmindað ykkur það eftir að hafa verið með fjóra svona duglega stráka hjá sér í nokkra daga.  Við fórum að bóna bátana og ganga frá skjólgirðingu fyrir trén okkar.  Þegar við svo fórum heim með tóma kerru lentum við í því að hún hristist öll í sundur og urðum við að snúa við eftir lokinu aftan af henni og tafði það okkur um þrjá klukkutíma.  Góðu fréttirnar eru þær að við fengum þá að smakka dýrðlegt heimabakað heilsubrauð hjá Önnu frænku í Djúpuvík.  Við urðum nefnilega að keyra alla leið aftur þangað eftir fjárans lokinu sem var í Kleifunum við Djúðpvík.  Á bakaleiðinnu tíndum við svo upp hornið af kerrunni sem hafði dottið af í leitarleiðangrinum.  Komum heim um níuleitið í gærkvöldi ánægð með gott frí.
------
Strandir 2007 238Smelltum af einni mynd af húsinu yfirgefnu á holtinu!

Djúpavík

Erum að lesta kerruna og pakka saman fyrir Strandaferð.  Förum á stórum Ford með langa kerru.  Cirkus Zoega á ferð Wink  eins og oft áður.  Það er mikið búið að flytja fram og aftur og sér ekki fyrir endann á því.  Það er alltaf eitthvað hægt að finna sér til dundurs. Nú munum við reyna að girða gróðurreitinn betur af en trén eru búin að sprengja litlu girðinguna af sér.  Við settum ásamt tengdaforeldrum nokkur tré niður við húsið fyrir 10 árum síðan.  Þau vaxa.  Þá vitum við að það er hægt að rækta tré á holtinu á Djúpuvík.  Það er nefnilega mikið rok þarna og sjávarsalt í loftinu.  Hreinlega særok stundum.  Vonandi verður gaman og strákarnir okkar Geir Fannar og Kristján Þór verða með okkur ásamt fjölskyldum sínum.  Við gömlu komum aftur í næstu viku.  Bloggvinir og aðrir hjartanlega velkomnir í heimsókn ef þið eruð á ferðinni um Strandir.Smile  

Djúpavík kallar

Í dag lögðu Kristján sonur minn og fjölskyldan hans af stað til Djúpuvíkur.  Þau fengu lánaðan bílinn minn og skildu fólksbílinn sinn eftir.  Þá er það ljóst að við hjónin verðum samferða að þessu sinni þegar við förum á miðvikudaginn.  Förum á stórum Dodge með kerru aftan í fulla af timbri í skjólgirðingu.  Þó að vegirnir séu orðnir góðir á Strandirnar er þægilegra að vera á aðeins hærri bílum sérstaklega ef þeir eru eitthvað lestaðir.  Það kom fyrir fólk á Volvo meðan við vorum þarna um daginn að það rak hann niður í Bjarnarfirðinum og gerði gat á pönnuna.  Ásbjörn á Djúpavík gat lagað það svo bíllinn komst suður aftur fyrir eigin vélarafli held ég.  Síðan eigum við von á Geir Fannari og fjölskyldu um helgina eða þegar hann kemur í smá frí af sjónum.  Þá verður fjör á Djúpuvík og mikið brallað. 
Reikna með að við komum aftur heim á mánudag. 

Heimferðin af Ströndum

Ég ætla að loka Strandaferðinni okkar um daginn í stuttu máli.  Eftir að gestirnir yfirgáfu okkur tókum við því bara rólega.  Brösuðum í kring um húsið og máluðum "lilla hús".  Ég sólbrann öðru megin við að mála myndir. Buðum svo Gústa frænda, Hönnu, Ester og börnunum Ríkharði, Gabríel og Sveinfríði Hönnu í mat. Gústi sagði að ég væri eins og rónarnir á Arnarhóli sólbrunnin öðru megin þar sem enginn kom til að snúa þeim.  Það er ekki leiðum að líkjast sagði ég.  Grilluðum læri og strákarnir urðu alveg kjaftstopp þegar ég stakk upp á að þeir kveiktu eld í kantsteinahleðslu á móti húsinu okkar.  Þeir urðu svo alsælir og viðuðu að sér efni.  Ekki leið á löngu þar til mamman og amman komu að athuga málið.  Þetta var í góðu lagi og það yljaði mér hve einlægir þeir voru frændur mínir í þessu verkefni öllu.  Við héldum svo heim á fimmtudeginum og ákváðum að kíkja í sumarbústað við Apavatn "í leiðinni" og kippa tengdó með heim.   Fórum við að athuga leiðina um Uxahryggi strax í Hólmavík og ók ég fyrir um uppsveitir Borgarfjarðar í nokkrar blindgötur en stöðvaði í Skorradalnum og tilkynnti Geir (vorum á tveim bílum) að nú þekkti hann sig betur og skyldi því taka forystuna.  Veit ég ekki fyrr en hann sveigir af leið og fer Dragháls yfir í Hvalfjörð og leist mér nú ekki á blikuna.  Ég var með batteríislausan síma og gat því illa gert annað en elta.  Svo við Ferstiklu (eða Botnskála man ekki hvort) stoppaði hann.  Við ákváðum þá að halda áfram og fara um Kjósarskarð á Þingvöll og Lyngdalsheiði.  Þvílík fegurð!  Kjósin er eitt ævintýri og ekki versnaði það við Þjóðgarðinn á Þingvöllum og síðan Lyngdalsheiðin.  Ég var að hlusta á Hlaupanótuna og þar var verið að spila lög eftir Burt Bacharac sem pössuðu svo vel inn í stemminguna að ég táraðist hreinlega.  Look of love, Close to you o.s.frv.  Nutum þess að teygja úr okkur í kaffisopa við Apavatn.  Síðan snæddum við í Þrastarlundi með tengdaforeldrum og komum heim eitthvað um áttaleitið ef ég man rétt.  Við vorum þreytt en alsæl þegar við tæmdum bílana hér heima og skelltum okkur í hvíld.  Ég við tölvuna en hann við sjónvarpið.Strandir 2007 037
Þarna er útsýnið á Djúpuvík í átt að Hótelinu og fossinum Eiðrofa.....

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband