Heimferðin af Ströndum

Ég ætla að loka Strandaferðinni okkar um daginn í stuttu máli.  Eftir að gestirnir yfirgáfu okkur tókum við því bara rólega.  Brösuðum í kring um húsið og máluðum "lilla hús".  Ég sólbrann öðru megin við að mála myndir. Buðum svo Gústa frænda, Hönnu, Ester og börnunum Ríkharði, Gabríel og Sveinfríði Hönnu í mat. Gústi sagði að ég væri eins og rónarnir á Arnarhóli sólbrunnin öðru megin þar sem enginn kom til að snúa þeim.  Það er ekki leiðum að líkjast sagði ég.  Grilluðum læri og strákarnir urðu alveg kjaftstopp þegar ég stakk upp á að þeir kveiktu eld í kantsteinahleðslu á móti húsinu okkar.  Þeir urðu svo alsælir og viðuðu að sér efni.  Ekki leið á löngu þar til mamman og amman komu að athuga málið.  Þetta var í góðu lagi og það yljaði mér hve einlægir þeir voru frændur mínir í þessu verkefni öllu.  Við héldum svo heim á fimmtudeginum og ákváðum að kíkja í sumarbústað við Apavatn "í leiðinni" og kippa tengdó með heim.   Fórum við að athuga leiðina um Uxahryggi strax í Hólmavík og ók ég fyrir um uppsveitir Borgarfjarðar í nokkrar blindgötur en stöðvaði í Skorradalnum og tilkynnti Geir (vorum á tveim bílum) að nú þekkti hann sig betur og skyldi því taka forystuna.  Veit ég ekki fyrr en hann sveigir af leið og fer Dragháls yfir í Hvalfjörð og leist mér nú ekki á blikuna.  Ég var með batteríislausan síma og gat því illa gert annað en elta.  Svo við Ferstiklu (eða Botnskála man ekki hvort) stoppaði hann.  Við ákváðum þá að halda áfram og fara um Kjósarskarð á Þingvöll og Lyngdalsheiði.  Þvílík fegurð!  Kjósin er eitt ævintýri og ekki versnaði það við Þjóðgarðinn á Þingvöllum og síðan Lyngdalsheiðin.  Ég var að hlusta á Hlaupanótuna og þar var verið að spila lög eftir Burt Bacharac sem pössuðu svo vel inn í stemminguna að ég táraðist hreinlega.  Look of love, Close to you o.s.frv.  Nutum þess að teygja úr okkur í kaffisopa við Apavatn.  Síðan snæddum við í Þrastarlundi með tengdaforeldrum og komum heim eitthvað um áttaleitið ef ég man rétt.  Við vorum þreytt en alsæl þegar við tæmdum bílana hér heima og skelltum okkur í hvíld.  Ég við tölvuna en hann við sjónvarpið.Strandir 2007 037
Þarna er útsýnið á Djúpuvík í átt að Hótelinu og fossinum Eiðrofa.....

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ester Sveinbjarnardóttir

Skemmtileg ferðasaga, maðurinn minn er ættaður frá Veiðileysu, það var ættarmót haldið fyrir 2 eða 3 vikum.. tíminn flýgur..

Ester Sveinbjarnardóttir, 26.7.2007 kl. 21:57

2 Smámynd: Vilborg Traustadóttir

Ég var einmitt í Djúpuvík þegar það ættarmót var haldið.  Varst þú þar????

Vilborg Traustadóttir, 26.7.2007 kl. 22:17

3 Smámynd: Herdís Sigurjónsdóttir

Þetta var meiriháttar tími. Hvern varst þú annars að hugsa um þegar hún hlustaðir á "Close to you" og táraðist

Herdís Sigurjónsdóttir, 27.7.2007 kl. 11:04

4 Smámynd: Vilborg Traustadóttir

Bara samviskuspurningar !!! Nú fer ég að rifja upp......Hafði verið á ferðinni um hinar hrjóstrugu Strandir ekið yfir Tröllatunguheiði og um gróðursæla Dalina og Borgarfjörðinn kjarri vaxinn með Grábrókarhraunið ólýsanlega, síðan í sudda yfir Dragann og lenda svo inn í þeim ævintýraheimi sem Kjósin er, Þinvellir og Lyngdalsheiðin.....Þá kemur allt í einu í útvarpinu .... Why do stars fall down from the sky........og svo ...........just like me they long to be close to you..............Þetta var nóg, þá komu tár....er ég ekki að verða gjaldgeng í blúnduvinafélagið????

Vilborg Traustadóttir, 27.7.2007 kl. 12:54

5 Smámynd: Guðjón Ólafsson

Sæl þú hefur orðið að hleypa átthagadraugnum út eins og ég geri ég þarf að gera það helst lágmark einu sinni á ári en núna hefur mér ekki tekist það í  3 ár en það verður kannski bót á því eftir  17 águst þá er stefna tekin á Eyri við Ingólfsfjörð og þá verða komin ber í allar þúfur og hóla svo maður getur farið að velta einu og einu krækiberi og bláberi heim í hreppstjórahúsið á Eyri  :-) :-) :-)

Guðjón Ólafsson, 29.7.2007 kl. 14:08

6 Smámynd: Vilborg Traustadóttir

Já þú ert þaðan...hlaut að vera.  Gangi þér vel á Eyri hversu mikið erum við þá skyld.  Afi minn Jón á Seljanesi ver bróðir Guðjóns hreppstjóra á Eyri.  Þremenningar??????

Vilborg Traustadóttir, 29.7.2007 kl. 15:03

7 Smámynd: Guðjón Ólafsson

Sæl Frænka

Guðjón hreppstjóri  var langafi minn og afi minn er Ingólfur á Eyri og faðir minn er olafur sonur hans pabbi er alin upp hjá Guðjóni langafa.

ég heimsótti stórureyki sumarið 2004 hitti þær systur þar og Gústu .

Guðjón Ólafsson, 2.8.2007 kl. 22:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband