Færsluflokkur: Ferðalög

Öðruvísi dagar

Næsta áfanga Strandaferðar okkar má líkja við öðruvísi daga.  Minn góði vinur og "gullbrúðgumi" Buddi, pabbi Kristínar vinkonu varð hálf hvumsa þegar ég nefndi þetta við hann.  Fannst það kannski minna á "hinsegin dag"???  Ég sagði að þetta ætti ekkert skylt við Gay pride.  Það væri bara öðruvísi að vera öll svona saman á Djúpuvík. Við vorum sex fullorðin, tveir hundar og tveir kettir í 30 fm húsinu okkar. Aðrir fimm dvöldu í fellihýsi á hlaðinu.  Þetta gekk ótrúlega vel.  Ég tók þó fram að eftir að maður væri komin inn í eldhúskrókinn væri ekki ráðrúm til að skipta um skoðun þannig að fólk skyldi bara vita hvað það vildi þangað, klára málið og fara síðan á sinn stað.  Við skoðuðum okkur um.  Fórum á Kjörvog þangað sem Buddi á rætur sínar að rekja.  Auðvitað var svo farið í Krossneslaugina og handverkshúsið "Kört" í Árnesi. Það keypti Ásdís (gullbrúður) húfu með rún ægishjálms handa barnabarni búsettu í Bandaríkjunum.  Eitthvað misskildi Kristín vinkona þetta og fékk húfuna lánaða þegar hún fór út að pissa.  Hélt þetta væri hulinshjálmur.  Við sáum hana samt!!! Enda um Ægishjálm að ræða. Hér er mynd af okkur vinkonunum í fjörunni á Kjörvogi.
DSC01316
 Það var einnig snætt á Hótel Djúpavík á Gullbrúðkaupsdaginn.  Fallegt umhverfi og góður matur og þjónusta.  Við grilluðum við húsið okkar tvö kvöld og slógum upp partýi þar sem við tókum "Tvær úr Tungunum, Kattadúettinn" o.fl.  Kettirnir voru vel passaðir af Sædísi Erlu og bátarnir fengu að snerta hafflötinn með hina ýmsu aldrushópa innanborðs. Loks hélt Ásdís hákarlastöppuveislu á pallinum hjá okkur fyrir þá Djúpvíkinga sem vildu.  Vel heppnað og skemmtilegt uppátæki.  Okkar kæru vinir héldu síðan heim á sunnudaginn eftir mjög ánægjulegar samverustundir  hvað okkur áhrærði.  Það er alltaf tómlegt að verða eftir í sveitinni þegar gestir kveðja.  Þó það sé auðvitað líka gott-vont tilfinning.  Léttir eftir vel heppnaða samveru og tregi eftir meiri samveru.  Við Herdís bloggvinkona kvöddumst með orðinu "skjáumst"!!!Wink

Strandaferð

Ferðin hófst þann 10. júlí.  Við hjónin lögðum af stað á sitt hvorum bílnum með sitt hvorn bátinn í eftirdragi. Kettirnir voru með Geir í bíl.  Leiðin lá um Bröttu Brekku (sem er mjög brött) í Dalina og yfir Tröllatunguheiði og norður Strandir til Djúpuvíkur.  Á Bjarnarfjarðarhálsinum fór bíllinn minn að haga sér undarlega.  Það var eins og hann lyftist af og til að aftan og vaggaði til.  Bátakerran fór að höggva eins og hún væri að lenda.  Geir ók á undan þar sem bíllinn hans var með eitthvað bremsuvesen á leiðinni.  Svo ég sæi nú ef eitthvað bilaði en gsm síminn er stopull þarna. Nú ég stoppaði vegna áðurnefndra undarlegheita en fann ekkert athugavert.  Hélt því áfram en sömu einkennilegu tilburðir kerru og bíls hættu ekki.  Ég stöðvaði því aftur þegar niður kom til að athuga dekkin á kerrunni.  Hélt kannski að það hefði linast í þeim eða sprungið.  Svo var ekki.  Hélt svo áfram í kjölfar Geirs sem beið átekta niðri í Bjarnarfirði.  Gengum bæði úr skugga um að allt væri með felldu. Segir næst af ferðum okkar þegar við komum í Djúpuvík.  Nokkur mótvindur var og Ásbjörn frændi sagði við mig. "Þú varst eins og Discovery á leið inn til lendingar þegar þú komst hér inn fjörðinn"...Þar kom skýringin, ég hafði fengið vind í seglin sem voru vafin utan um Hafgamminn góða.  (Sjá mynd, ég var á aftari bílnum).
Strandir 2007 011
Ég hugsa að Geir hefði nú orðið um og ó ef ég hefði svifið fram úr honum í Bjarnarfirðinum!!!!Wink

Sekt

Fór á þriðjudaginn og borgaði sekt á lögreglustöðinni.  Þannig er mál með vexti að við systurnar og systurdóttir mín fengum okkur bíltúr upp í Borgarnes og Akranes.  Ég ók.  Í Hvalfjarðargöngunum fylgdum við umferðinni nokkuð vel eftir.  Allt í einu kom blossi!  Við veltum fyrir okkur hvað þetta hafi verið.  Ég var heppin að missa ekki stjórn á bílnum.  Þetta var svo rosalegur blossi.  Við komum okkur saman um að þetta hlyti að hafa verið hraðamyndavél.  Systurdóttir mín hrökk við.  Hún hafði verið að bora í nefið!Blush   LoL  Við létum þetta þó ekki skemma góða ferð.  Fengum hrossakjöt í Borgarnesi hjá Ingu og Kela og fórum svo í lambakjöt á Akranesi hjá Ödda (oddikennari) syni Sollu systir.  Svo kom bréf.  Ég hafði mælst á 82 km hraða (má vera á 70 km í göngunum).  Sekt allt að 20.000 kr.  Ég fór á lögreglustöðina og var spurð hvort ég hefði séð myndina. Ég sagði nei eins og satt var en ég hefði verið á bílnum.  Greiddi 7.500 kr sekt.   Hvers vegna er 70 km hámarkshraði þarna?  Ég hefði haldið að það væri meiri slysahætta að mynda langar raðir við og í göngunum heldur en að hafa 90 km hámarkshraða þar inni.  Eins og á öðrum vegum.  Það sem ég er hins vegar að velta fyrir mér núna er hver fær sektargreiðsluna?  Þetta er einkavegur!Cool

Kveikt á kerti

Ég kveiki af og til á kerti fyrir fólk sem ég bið fyrir. Það er gott fyrir sálina og maður öðlast ákveðna ró.  Þegar ekkert er hægt að gera annað gefur það manni frið.  Sonur minn og fjölskylda hans voru rænd öllu sem þau höfðu meðferðis í fríi sínu á Spáni á dögunum.  Það var brotist inn í íbúðina sem þau voru nýflutt í og allt tekið nema óhrein föt.  Feðatalva með persónulegum og atvinnutengdum gögnum, vegabréfin og allt. Þau höfðu brugðið sér út að borða með vinafólki.  Börnin voru með þeim.  Vegabréfin fundust svo ásamt einhverjum fötum í ferðatösku daginn eftir.  Þetta er daglegt brauð á Spáni og furðulegt að ferðamannaiðnaðurinn þrífist á svona stöðum þar sem litið er á eigur fólks sem sameiginlega auðlind þar sem þjófar og glæpamenn geta sótt sinn kvóta að vild.  Ég ákvað að fyrirgefa þessum þjófum þar sem ég get ekkert annað gert í stöðunni.  Það er vonandi að ljós fyrirgefningarinnar geti lýst þeim veginn á rétta braut. Það er hjóm eitt að hafa áhyggjur af dauðum hlutum.   Litla fjölskyldan mín þarna úti slapp öll heil frá þessu og enginn slasaðist. 
Ég vona og bið innilega að litla stúlkan sem fréttin fjallar um finnist heil á húfi. 

mbl.is Foreldrar Madeleine á ferð um Evrópu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Seinni vélin kom á undan

Gestur Fanndal sem Siglfirðingar þekkja sem verslunarmann og flugvallarstjóra á Siglufirði um árabil var frægur fyrir skjót tilsvör. Þegar hann var flugvallarstjóri gerðist það að ófært hafði verið með flugi til og frá Siglufirði í einhverja daga. Safnast hafði upp nokkur hópur sem þurfti að komast í flug.  Loks þegar útlit var fyrir flug dag einn var von á tveimur flugvélum.  Kom maður að máli við Gest og linnti ekki látum fyrr en Gestu hafði lofað honum fari með fyrri vélinni.  Maðurinn heyrði svo í flugvél og skildi ekkert í að Gestur var ekki búinn að hringja.  Hann stökk út í bílinn og brunaði fram á flugvöll.  Stóð það á endum að þegar maðurinn kom á flugvöllinn horfði hann á eftir flugvélinni í loftið.  Maðurinn hellti sér yfir Gest og sagði þú lofaðir mér fari með fyrri vélinni!

Gestur brá ekki svip og svaraði ofur rólega "ummmm seinni vélin kom á undan".

Sagan á það til að endurtaka sig.  Nokkur úr hópnum okkar (umboðsmenn Ísaga um allt land) sem var á Ísafirði um helgina átti pantað með flugvél kl. 13.20 þar á meðal við.  Aðrir átti pantað með vél upp úr kl. 15.00.  Þegar svo fyrri hópurinn var komin út í vélina sem lenti á Ísafirði tilkynnti flugmaðurinn töf vegna breyttra veðurskilyrða.  Leið og beið og svo kom seinni hópurinn við á flugvellinum á leið sinni til Þingeyrar þangað sem þeirra vél var beint vegna þessa.  Loks eftir fjögurra tíma bið, kók, prins póló og hamborgara á Ísafirði, komumst við svo í loftið.  Þegar við lentum í Reykjavík tók hluti "Þingeyrarhópsins" á móti okkur þar sem þau biðu eftir flugi til Egilsstaða.

 

Segja má með sanni að orð Gests heitins eigi vel við í dag því "seinni vélin kom á undan".


Ísafjörður á morgun

Við hjónin skellum okkur til Ísafjarðar á vit ævintyranna á morgun.  Munum m.a. snæða hádegisverð í Vigur á laugardag  (ef guð lofar) . Einnig er fyrirhugað að fara til Flateyrar og eitthvað um Vestfirðina í góðum hópi fólks.  Í austanátt er best að flýja vestur.  Það verður að vísu norðan og norðaustan á morgun.  Maður hefur bara úlpuna og föðurlandið með.  Það eru tvö ár síðan ég slapp með skrekkinn á Ísafirði.  Fattaði ekki að ég væri innanbæjar og ók of hratt.  Fékk bara létta áminningu frá lögreglumanninum sem stöðvaði mig.  Ég er þakklát fyrir það og stilli jafnan bílinn á löglegan hraða nú.   Það er  svo auðvelt að gleyma sér.  Trausti mun gæta bús og katta. 
mbl.is Vaxandi austlæg átt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sorglegt

Sorglegt þegar svona slys eiga sér stað.  Sonur minn og fjölskylda sem eru í Taílandi eru óhult á leið til Bangkok.  Koma svo heim eftir fjóra daga.  Þau voru að heimsækja fjölskyldu konunnar hans sem er taílensk og hafa þau verið ytra í mánuð.  Strandir

mbl.is Tugir létust í flóði á Taílandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband