Snjór og ófærð

Nú eru lægðirnar á færibandi að halast yfir landið.  Því er kannski ekki besta veðrið til ferðalaga um þessar mundir.  Ég fór að rifja upp þegar ég horfði á gríðarlegt fannfergi í Súðavíkurhlíðinni í fréttunum í gær hvernig veturnir voru þegar ég bjó norður í landi.  

Á barnaskólaaldri var ég í heimavistarskóla í Fljótunum.  Þá var ég viku í skólanum og næstu viku heima. Það var vegna þess að það var ein skólastofa á Ketilásnum og einn kennari. Nemendum var skipt í eldri og yngri deild.  

Ég var held ég níu ára þegar ég byrjaði í skólanum.  Var búin að læra að lesa og skrifa heima og reikna líka. Oft var vont veður og ófærð og stundum var eina leiðin að komast ferða sinna að elta ýtuna sem ruddi veginn því hann lokaðist jafnóðum aftur.  Þá tók ferðalagið langan tíma og eins gott að hafa þolinmæðina með sér í ferðalagið.  

Stundum félkk ég far með flutningabilunum eða öðrum sem leið áttu um. Ég man m.a.s. eftir a.m.k. einu skipti sem ég fékk að sitja í vegheflinum með honum Gísla í Þúfum þarna á milli.  

Það var líka oft sem þurfti að fara í Siglufjörð og stundum var klöngrast yfir snjóflóð sem fallið höfðu á veginn.  Það var glæfralegt svona eftir á að hyggja.  Ég mað að við horfðum áhyggjufull upp í gilin hvort meira væri á leiðinni og jafn áhyggjufull fram af brúninni þar sem dekkin á annarri hlið rússajeppans stóðu hálf fram af hengifluginu.

Það var nú meira hvað rússajeppinn gat komist í snjónum.  Ég held að það sé besti jeppi sem ég hef ekið í ófærð og þá meina ég í ÓFÆRÐ. 

Eins gott að fara varlega í ófærðinni og blindunni sem er víða um þessar mundir..... 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Bara best að vera heimavið, nema eitthvað nauðsynlegt kalli á ferðalög.  Ég man sko vel eftir Húsavíkinni minni í denn, það var sko bara gaman.

Ásdís Sigurðardóttir, 12.2.2008 kl. 17:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband