Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Aftakaveður, óróleg kisa og Bee movie

Nú er skollið á aftakaveður hér í borginni.  Mímí, kisan okkar er afar óróleg vegna þessa.  Hún eigrar um íbúðina og mjálmar af og til sem er mjög óvenjulegt í hennar tilfelli.  Það er að segja að mjálma. Við höfðum lítinn næturgest síðustu nótt.  Geir Ægir fékk að gista eftir að hafa farið í bíó með ömmu og pabba sínum.  Ákveðið var að öll hersingin færi í bíó aftur í dag og héldum við í breiðfylkingu á Býflugumyndina, níu stykki.  Sem við þrjú fórum reyndar á í gær líka.  Mér fannst virkilega gaman að sjá myndina og ekkert síðra í annað skiptið.  Síðan komum við hingað heim og kláruðum restina af hangiketinu og hamborgarhryggnum frá jólunum. 
Fengum góða gesti sem að vísu hörfuðu heim í sína eigin afganga, þegar við buðum upp á okkar afganga!

Ég er þakklát

Ég er þakklát fyrir það sem mér hefur hlotnast í lífinu.  Þakklát fyri það uppeldi sem ég fékk. Að alast upp við ysta haf í mikilli einangrun en finna aldrei fyrir því að vera einn.  Samheldni fjölskyldunnar var slík.  Það var ekki fyrr en vegurinn kom að við fórum að tvístrast.  Sem betur fer kannski.  Samheldni okkar í uppeldinu hefur þó haft þau áhrif að ég held að við systkinin búum að því áfram.  Þó það lengist á milli um tíma þá "kippum við í spottann" um síðir.  Römm er sú taug.
Ég er einnig þakklát fyrir að eiga "fjallhressa" foreldra.
Ég er þakklát fyrir að hafa eignast marga góða vini og vinkonur á skólaárunum og í gegn um lífið. Það er ómetanlegt að eiga góðan vinahóp og ekki síðra hve ólíkir einstaklingar eru í þeim
hópi.  Lífið verður svo litríkt og skemmtilegt þegar maður hefur svo breiðan hóp að tala við í gleði og í sorg.
Ég er þakklát fyrir það samferðafólk sem ég rekst á í lífinu til lengri eða skemmri tíma.  Það er nefnilega ekki lengd samverunnar sem skiptir öllu máli heldur er það hvernig maður nýtir þær stundir sem maður fær. 
Ég er þakklát fyrir manninn minn og fyrir syni mína og tengdadætur sem eru mér öll mjög mikils virði.  Án þeirra og kærleikans sem þau gefa mér væri ég ekki neitt.  Ég er þakklát fyrir ömmustrákana mína sem eru sem perlur af himnum sendir.  Skynsamir, duglegir og góðir.  Sundum BARA duglegir og kraftmiklir.  Svoleiðis á það að vera.  Engin lognmolla í "ömmuhúsi".
Jólin verða því fjörug, lífleg og umfram allt kærleiksrík okkur öllum.
Ég er þakklát.
Knús í allar áttir.

Slegin út - ekki af.....

Vaknaði í morgun eftir tveggja sólahringa nánast samfelldan svefn.  Fékk einhverja fjárans pest aðfaranótt mánudagsins.  Þetta var gubbupest með háum hita og ég var nær meðvitundarleysi en meðvitund þó ég væri að staulast fram með dyggum stuðningi bóndans.  Gerði svo bara eins og dýrin.  Hætti að borða og drakk aðeins vatn í rúman sólarhring.  Er öll að koma til en frekar slöpp ennþá.  Það er óspennandi að lenda í svona pestum, það er mjög langt síðan ég hef fengið eina slíka.  Mörg ár.  Hlaut að koma að því.  Ég er sennilega heppin að liggja einungis í tvo sólarhringa.  Hef heyrt um marga sem fara illa út úr pestum þessa dagana. 

 Annað er það að frétta að vörurnar sem ég hef verið að viða að mér á E -Bay streyma nú í hús hver af annarri.  Ég tók törn að panta meðan ég var á Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði og bauð grimmt í alls kyns playmobil skip og bíla.  Þetta er voðalega vinsælt meðal ömmustrákanna og m.a.s. afinn er sáttur!  Ég gekk svo hart fram í að panta að ég var komin með sjálfvirkt boð á sumar vörur sem þýddi minna stress að vaka yfir vörunni þegar leið að lokum uppboðstímans.  Enda var dvölin í Hveragerði hugsuð í bland sem hvíldardvöl. Hvað um það hér hefur verið stofnað Zoega-skipafélagið og einungis er eftir að semja texta og stef sem fellur vel að nafninu.  Ef einhver áhugasamur höfundur sér þetta endilega bara að spreyta sig!

 

Kær kveðja vinsælasta amma í heimi þessa dagana.......


Laugardagur til lukku

Fengum tvo (af fjórum mögulegum) í heimsókn í dag.  Hinir tveir voru hér í gær til skiptis.  Gaman að fá fríska stráka til liðs við sig á góðum degi.  Ég tók til í baðskápunum og maðurin minn hafði smá fund meðan þeir voru.  Þeir voru svo góðir að leika sér og fylgjast með að það var bara notalegt að hafa þá og ekkert vesen.  Pabbi þeirra nýfarin á sjó eftir smá frí og þeir því fegnir að koma til ömmu og afa meðan mamman erindaðist eitthvað.  Þegar þeir fóru leyfði ég þeim eldri að taka playmobil skipið sem ég keypti á e-bay í haust með sér.  Ég keypti tvö og hitt fer til hinna strákanna.  Þeir hafa leikið mikið með þau hér en geta alltaf kippt þeim með hingað aftur með sér ef þeir vilja.  Nú er ég að fara til Sollu systir að elda sunnudagamatinn.  Við ætlum að föndra fleiri engla á morgun svipaða þeim sem við gerðum nýlega og borða þar í hádeginu.  Síðan  elda ég álíka glás undir handleiðslu hennar og tek með heim til að hafa hér annað kvöld fyrir okkur.  Mér finnst svo spennandi að fá nýjar uppskrifti og læra að elda eitthvað öðruvísi en ég er vön.  Þessi uppskrift er frá Tona manninum hennar og eru þetta kjötbollur í tómat með spaghettí.  Læt ykkur hafa uppskriftina eftir helgina.

Fínn dagur

Í dag er þessi líka fíni dagur í uppsiglingu.  Kristján Andri er mættur á svæðið og verður með ömmu í dag.  Síðan koma Geir Ægir og Viktor eftir hádegið en pabbi þeirra fer á sjóinn í dag eftir nokkra daga heima.  Það er alltaf tregablandið þegar hann fer aftur á sjó eftir frí. Svona er nú lífið og það eru ekki bara sjómannsfjölskyldur sem búa við það að aðilar vinna fjarri heimilinu.  Í "smækkandi" heimi búa æ fleiri við það að einhver í fjölskyldunni vinnur jafnvel í öðrum löndum og/eða ferðast mikið vegna vinnu sinnar.  Flugmenn og flugfreyjur, afsakið flugþjónar, þeytast um loftin blá.  Svo eru auðvitað allir hinir sem vinna frá morgni til kvölds og sjá varla fjölskylduna nema með stírurnar í augunum á harðahlaupum að morgni.  Þá er gott að vera "amma í fullu starfi" og geta tekið á móti duglegum drengjum sem komast ekki af einhverjum ástæðum á leikskólann sinn.   Sjómennirnir eru þó alltaf ofarlega í hugum okkar og það er inngreypt þjóðarsálina einhverskonar 
sjómannarómantík.  Hetjur hafsins sem dregið hafa björg í bú gegn um aldirnar.  Þó það sé auðvitað að breytast eins og allt annað í okkar síbreytilega heimi. 
Ég á samt einhvern veginn erfitt með að sjá aðra stétt taka við því hlutverki.  Verslunarmennirnir? Hugbúnaðargeirinn? Verðbréfaheimurinn?  Varla...
Líftækniiðnaðurinn? Lyfjarisarnir?  Því síður....
Stjórnmálamennirnir?  Aldrei...

Brjálað að gera

Brjálað að gera hjá "ömmu í fullu starfi".  Kristján Andri var með hita og fór ekki á leikskólann. Hann kom til ömmu í staðinn.  Við höfðum það svo huggulegt saman þar til mamma hans kom að ná í hann til læknis um hálf eitt.  Mamma kom með kjöt fyrir mig að hakka en ég var búin að "grobba mig" svo af hakkavélinni minni.  Í sama mund kom Geir Fannar með strákana Geir Ægi og Viktor meðan hann skrapp að erindast eitthvað.  Ég setti spólu í dvd og fór svo að hakka.  Þvílíkt puð! Hakkavélarhnífurinn beit ekki á blautan skít.  Ekki það að rollukjötið væri blautur skítur en það gekk hvorki né rak að koma því í gegn.  Ég tók það til bragðs að tæta það gróflega niður í matvinnsluvélinni og setja það síðan í hakkavélina.  Samt var hakkavélin alltaf að hiksta. Ýmis "búkhljóð" fylgdu og komu strákarnir af og til í eldhúsið til að athuga hvort allt væri í lagi með ömmu sína. Þetta hafðist og kom mamma að sækja afurðirnar rétt fyrir Leiðarljós (Unaðsóma = þýðing pabba) en þá voru guttarnir nýfarnir.  Ég stóð varla í lappirnar eftir einvígið við bévaða hakkavélina!
Við Solla skelltum okkur svo að ná í meira föndurefni í engla þar sem ekkert lát virðist vera á eftirspurn í þá.  Því næst fór ég í kvöldskóla Kópavogs þar sem ég er í myndlistarnámi ásamt Mánga bróður og Döggu.  Á morgun kemur svo Kristján Andri aftur til mín og verður alveg til hálf fjögur. 
Við Solla ætlum líka að viða að okkur enn meira efni en við þurftum að panta hausa á englana þar sem við kláruðum þá víst í gær.
Og nota bene ég ætla að fá mér nýjan hníf í hakkavélina.  Svona upp á framtíðina að gera!

Dýrmætt

Ég átti stund með ömmustrákunum mínum þeim Viktori og Geir Ægi í kvöld.  Ég fékk að svæfa þá heima hjá sér því mamma þeirra fór út með vinnufélögum sínum og pabbi þeirra er á sjó.  Það er svo gefandi að eiga stund með börnum.  Við spjölluðum saman og þó þeir væru þreyttir hlustuðu þeir á ömmu segja sögur af refnum á Djúpuvík og því þegar hundurinn rak hann burtu.  Vildu meira.  Fengu sögu af músinni sem hélt upp á það að refurinn var hrakinn burtu.  Þeir vildu þá líka sögur frá Apavatni.  Þeir fengu sögu um hrossagaukinn sem hélt að við myndum klára berin og flýtti sér að éta þau og kallaði til heilan hóp af hrossagaukum til að bjarga verðmætum frá mannfólkinu.  Sáu samt að þetta yrði allt í sátt og samlyndi og nóg til fyrir alla. Vildu meira. Fengu sögu um minkinn sem bjó sér til holu undir húsinu og hljóp svo í vatnið til að næla sér í fisk.  Fengu um það bil nóg þá og vildu söng.  Svo söng ég nokkrar vísur og þá tóku þeir við og sungu um Gamla Nóa o.fl. Sungu fallega og kunnu textana vel.  Ég lá og hlustaði og hugsaði um hvað ég væri rík.  Hugsaði um hvað allt vafstur og nöldur í mér og öðrum væri mikið hjóm. Hvað ekkert skipti máli nema svona stundir.  Ég sagði þeim að þeir væru góðir strákar og þeir sofnuðu sælir með þá vissu í hjarta sínu að þeir væru það.  
Mér finnst gott að vera til.   

Sauðanesvitinn - brimið

Hér er falleg og tilkomumikil mynd af Sauðanesvitanum.  Það var hversdagslegt ævintýri að alast upp á þessum stað.  Ég gat setið tímunum saman og hlustað á brimið.  Ég gat öskrað á það og ég gat sofið við nið þess.  Ég og brimið urðum óaðskiljanleg og það var einungis stund milli stríða þegar það gekk niður.  Þá hvíldum við okkur hvert á öðru.  Ég og brimið.untitled

 

 

 

 

 

 


Einangrun

Það rifjaðist upp fyrir mér áðan hvernig var að alast upp á afskekktum stað. Við vorum sjö manna fjölskylda sem fluttist frá Djúpuvík á Ströndum (sem var nafli alheimsins á síldarárunum) að Sauðanesi við Siglufjörð. Svo fór síldin og við á eftir.  Það var auðvitað farið með skipi því ekkert vegasamband var hvorki Djúpuvík né Sauðanes á þeim tíma.  Yngsti bróðir minn fæddist eftir að við komum á Sauðanes og var fluttur sjóleiðina með mömmu frá Siglufirði og borinn í þvottabala upp úr fjörunni og heim í hús. Við fluttum úr 30 fm húsi á Djúpuvík í stórt hús á þremur hæðum.  Fyrstu árin voru því flest herbergin í húsinu auð.  Smám saman fylltust þau þó af dóti og drasli sem fylgdi okkur.  Við vorum mjög samrýmd fjölskylda og allir voru saman í öllu.  Það var húslestur á kvöldin þar sem mamma las spennandi sögur m.a. Kapítólu.  Pabbi fór með okkur í leiki úti og man ég eftir einum sem var leikinn úti og í myrkri og við kölluðum "útilegumaður fundinn".  Þá faldi einn sig einhversstaðar í myrkrinu hinir töldu upp að hundrað og fóru svo allir að leita.  Sá sem fann "útilegumanninn" mátti vera hann næst.  Við fórum út í vita með pabba og ég man að þegar við fórum í myrkri og pabbi lýsti með vasaljósinu í kring sást oft glytta í augu í myrkrinu.  Það voru refir sem snigluðust í kring og í einstökum tilfellum villikettir.  Sérstaklega man ég eftir einum mjög stórum villiketti sem var lengi í kring um bæinn en gaf ekki færi á sér.  Við vorum hálf hrædd við hann.  Eina vetrarnóttina kom hann alveg heim á bæjarhól og pabbi skaut hann út um gluggann.  Hann beit sig svo fastann í freðinn svörðinn að erfitt var að losa hann þótt steindauður væri. Greyið.  Krakkarnir fóru að tínast í skóla, farskóla þar sem skipst var á að kenna nokkrar vikur í einu á þremur bæjum.  Sauðanesi, Siglunesi og Reyðará. Það var fjör þegar kennslan var á Sauðanesi en tómlegt þegar systur mínar fóru á hina bæina.  Elsti bróðir minn fór í skóla á Siglufirði.  Ég og yngri bræður mínir fórum í heimavistarskóla í Fljótunum.  Þegar ég byrjaði í skóla var vegurinn loksins kominn.  Þegar vegurinn kom breyttist allt.  Systur mínar fóru að djamma og fara á sveitaböll og við yngri systkinin fylgdum fast á eftir.  Upplausn komst í Sauðanesveldið sem tók smám saman að breytast.  Við gerðumst "villt í geiminu" ef svo má segja.  Kannski voru viðbrigðin of mikil fyri okkur heimóttlegu sveitakrakkana sem gengum um á gammósíum með slæðu um hálsinn (ég) daginn út og inn.  Hvað um það við uxum upp og eignuðumst fjölskyldur, eins og gengur.  Ég hef þó oft hugsað um hvernig það væri ef vegurinn hefði aldrei komið um Almenninga og ef Strákagöngin hefðu aldrei verið gerð?  Strákarnir hefðu vafalaust farið til sjós eða eitthvað álíka til að létta undir.  En værum við þá allar Sauðanessysturnar enn heimasætur á Sauðanesvita?  Róandi í spiki, mjólkandi beljur og pantandi varning með vitaskipinu, upp á krít?
 

Fjör á ferð

Hér gistu fjórir af fjórum mögulegum í nótt.  Fullt hús ömmu og afastráka.  Yndislegir drengir og góðir allir saman.  Við færðum saman sófana í stofunni og tveir sváfu þar.  Sá yngsti bættist í þann hóp um miðja nótt eftir að hafa vaknað og fengið nokkur vínber hjá ömmu sinni ásamt meðali sem hann er á vegna lungnabólgu.  Ég tímdi varla að fara að sofa því það var svo gaman að sjá þá sofa þarna (bestir þegar þeir sofa). Í dag fóru svo tveir þeir yngstu heim um hádegið með afa en þeir eldri urðu eftir hjá ömmu.  Við skemmtum okkur vel þar til annar þeirra braut glas.  Ömmunni brá og fór í "skammargírinn". Nú vil ég fara heim sagði hann þá og bætti við amma þú ert bara skammakelling (eða eitthvað álíka).  Ég mátti hafa mig alla við að fara ekki að skellihlæja.  Við sjötluðum málið og skelltum okkur út á leikvöll þar sem ég settist á bekk og fylgdist hreykin með duglegum drengjum að leik.  Svo komu allir í mat um fimmleitið.  Tveir bræður urðu þá enn eftir hjá okkur og við fórum með þá heim til sín og svæfði ég þá þar sem mamman er að klára verkefni fyrir skólann og pabbinn á Airwaves.
Mikið finnst mér ég rík á svona dögum og mikið er ég þakklát fyrir hvern dag sem lífið gefur mér.
Horfði svo á þáttinn hennar Evu Maríu þar sem hún ræddi við Elvu Ósk Ólafsdóttur leikkonu.  Fallegur þáttur og einlægt viðtal án tilgerðar.  Undirrstrikaði þakklætistilfinningu mína og það að taka engu sem gefnu í þessu lífi.
Í forebyfarten var svo mylove að reyna að hringja í mig á skypinu.  Hann reynir það af og til en ég er með frekar "gellulega" mynd af mér þar með elsta ömmustrákinn. Ég sagðist ekki vera með headphone.  Þá gróf hann upp gsm hjá mér á prófílnum og hringdi.  Ég hljóp inn til mannsins míns og sagði með þjósti my love er að hringja hvað geri ég nú?  Nú vertu ekki að vekja mig með því svaraði hann bara og sneri sér á hina hliðina.  Ég tók það ráð að láta sem símasambandið væri slæmt og tvö halló í röð gerðu það að verkum að hann gafst upp.  For the record my love er Máritaníumaður alveg sótsvartur og ábyggilega á aldur við syni mína.  Ég sagði honum svo á skypinu í dag að ég væri gift fjórföld amma og mamma. Vona að það dugi svo þessum hringingum linni.  Ætti svo kannski að fara að setja raunsannari mynd á prófílinn en það er svo sem úr vöndu að ráða í þeim efnum þar sem ég yngist bara og yngist því oftar sem ég fer á heilsuhæli í Póllandi.  Hvað um það.
Það verður þreytt og alsæl amma sem sofnar í kvöld og sofnar fast.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband