Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Við kýrrassa

image-73Kristín vinkona var að skanna myndir.  Hún sendi mér nokkrar og nefnir þær "Forn frægð"! Einhvernvegin var alltaf gaman hjá okkur, jafnvel í fjósinu.  Við erum ótrúlega töff þarna.  Eða?
-
Við kýrrassa tók ég trú,
traust hefur reynst mér sú.
Í flórnum því fæ ég að standa,
fyrir náð heilags anda.
-

Solla systir á "skerið"

Solla systir sest á "skerið" aðra nótt.  Hún stoppar í viku núna en kemur aftur 2. október ásamt dóttur sinni Lucy sem fer í skóla hér. Ég ætla að renna suðreftir og sækja hana.  Við systur höfum haldið ágætis sambandi gegn um árin, með hléum.  Ég sagði á tímabili að þær systur mínar væru "bestar bréflega"Wink ! Það er nefnilega "mislangt" á milli fólks eftir því hvar það er statt í lífinu.  Það var um tíma "lengra" á milli okkar systra en venjulega.  Maður lærir af lífinu og mín reynsla er sú að ef það "lengist" á milli þá er nauðsynlegt að skella sér umsvifalaust úr "dómarasætinu" og gerast umburðarlynd og auðmjúk.  Mýkja mig upp gagnvart málum.  Það er vandi en mikið er það léttara líf.  Í dag er ég sátt við alla menn að systrum mínum meðtöldum Smile .  

13.ágúst

Pabbi á afmæli í dag.  Hann er 89 ára kallinn.  Heldur upp á það með pizzu-partýi norður á Sauðanesi. Ég hringdi í hann í morgun tl að óska honum til hamingju með daginn.  Hann var bara hress en sagði fremur svalt fyrir norðan. 
--
Önnur kisan okkar hún Palla dó í dag.  Var að leika sér úti á svölum þegar ég brá mér inn.  Hún datt niður og dó af völdum áverkanna.  Við búum á 9. hæð. Það er sárt að sjá á eftir svo sérstökum ketti sem hún var.  Ég brunaði með hana beint upp á Dýraspítalann í Víðidal þar sem allt var gert til að hjálpa henni. Því miður hefur innvortis blæðing verið of mikil fyrir elsku kellinguna okkar.  Ég sem hef yfirleitt ekki leyft þeim að vera einum og lausum þarna úti en í þetta sinn var ég ekki á verði og það fór sem fór.
--
Sorglegt og sárt en svona er lífið það hefst og það endar.  Mímí er ein eftir og virðist skynja hvað hefur gerst því ég las mikla sorg úr augum hennar þegar ég kom heim Pöllulaus.
--
Þannig að það er sorg hér í dag vegna þessa og verður afar tómlegt að vakna næstu morgna þar sem Palla var vön að koma uppí og liggja á sænginni Geirs megin þegar hann fór í vinnuna.
--

Þrír af fjórum mögulegum

Þrír strákar af fjórum mögulegum gistu hjá ömmu og afa í nótt. Þegar ljóst var í gær í hvað stefndi tók amma sig til og fór í Rúmfatalagerinn og keypti tvær sængur og tvær "sumarsængur", tvo kodda o.fl. smálegt.  Við fórum nefnilega með gestasængurnar á Strandirnar um daginn og ætluðum alltaf að kaupa nýjar hér.  Hersingin mætti um áttaleytið í gærkvöldi með tilheyrandi farangur, dót og góða skapið.  Hér var stanslaus brunabílakeyrsla fram eftir kvöldi milli þess sem þeir brugðu sér í tölvuna hjá ömmu og tóku einn og einn Mentos-leik (ég er forfallin í þeim leik, skjóta niður kúlur (og það tyggjókúlurShocking), get hangið í honum og gersamlega gleymt mér), einnig var mikið skrafað og skeggrætt.  Það er yndislegt að vera ósýnilegur heyra utan að sér bollaleggingar þeirra snáðanna.  Viktor ætlaði ekki að sofa hér en sat með afa og horfði á sjónvarpið þar til hann sofnaði í afa fangi.  Hann vaknaði svo snemma og vildi fara beint heim til mömmu og gerði það með afa.  Hinir tveir "skæruliðarnir" eru í stuði hjá ömmu núna og hafa fengið það efiða verkefni að taka til eftir sig meðan amma bloggar! 
Amma tók sængurnar og lagaði sófana og þeir eiga að tína pappír og dót saman....verkefnið er greinilega ekki hafið þar sem þeir eru búnir að gangsetja brunabílana.Wink 
Það rignir úti núna svo það gefur ekki á leikvöllinn sem er hér rétt hjá.  Sjáum til á eftir hvort úr því rætist.  Verðum sennilega að sækja hlífðarfatnað ef það á að verða.Whistling
Það er einstaklega gefandi og skemmtilegt að umgangast börn.  Hressir strákar sem eru uppfinningasamir og duglegir eiga hug minn allann þessa stundina.Smile

Fjögurra ára

Afmæli
Elsta barnabarnið okkar hann Geir Ægir Zoega er fjögurra ára í dag.  Vorum í þessari fínu veislu hjá honum.  Það var mjög gaman.  Hann stóð sig vel í öllu pakkaflóðinu og yngri bróðir hans Viktor líka.
Fallegur dagur með fallegu fólki.  Auðvitað fékk hann báta og þá var sóttur bali. SmileAfmæli  Til hamingju með daginn Geir Ægir.Wizard

Þokuloft

Það er þokuloft.  Eftir hitabylgju síðustu daga þó sólin hafi hopað seinni dagana bregður manni við. Það var oft þoka á Sauðanesi þar sem ég er alin upp.  Þá fór maður út í vita og kveikti á þokulúðrinum.  Til að vara skipin við. Til að þau sigldu ekki upp í fjöru.  Samt er einhvern vegin í minningunni eins og sólin hafi nánast alltaf verið á lofti.  Maður kom út á bæjarhlaðið með þennan fugl í hjartanu sem langaði að brjótast út og fljúga um allt.  Heimurinn var minn!  Þegar svo var rigning og kalt fannst mér yndislegt að laumast út úr háværum hópi systkyna (og foreldra).  Þá laumaðist ég upp á loft með bók eða blað og las.  Regnið buldi á þakinu og það var ótrúlega notalegt að kúra þar og lesa.  Heimurinn var minn!  Þar til einhver uppgötgvaði að mig vantaði.  Þá var kallað á mig og eftir mislanga stund annað hvort neyddist ég til að svara eða var staðin að verki.  Þá varð ég að fara og raka af eða taka upp hrúgur (þá hafði skít verið dreift á túnin, slóðadregið og við krakkarnir rökuðum svo af túninu með hrífum, tókum upp í hrúgur og ókum loks burt í hjólbörum), gefa hænsnunum, köttunum eða heimalingunum.  Sækja kýrnar, mjólka eða reka úr túninu.  Svo eitthvað sé nefnt.  Stundum flýtti ég mér með verkin og laumaði mér aftur í lestrarholuna.  Stundum bjó ég til heilu leikritin úr starfinu.  Þá gátu skítakögglarnir á túninu breyst í heila hjörð af villtum hestum sem ég safnaði saman og tamdi eins og ekkert væri.  Heimurinn varð aftur minn!Smile

Ein svaf uppi á miðjum vegg

Eitt sinn skutlaði Buddi pabbi hennar Kristínar okkur djammrófunum upp á Sauðárkrók eða á Krókinn eins og það er kallað. Við þurftum þó nokkuð að nauða í honum til að hann gerði þetta.  Hugsa að hann hafi endað með að skutla okkur hreinlega til að losna við okkur!   Ktristín sótti eitthvað svo í króksarana á meðan ég var meira fyrir ólafsfirðingana og jafnvel siglfrðingana (í hallæri)Wink.  Buddi kvaddi okkur og sagði við Kristínu " ...og láttu ekki nokkurn mann vita að þú sért dóttir mín..."  ég greip hann á orðinu og sagði "þetta er allt í lagi ég segist bara vera dóttir þín líka.... !!" Með það fór hann skellihlæjandi í burtu og skildi okkur eftir.  Við vorum vel útbúnar með ballfötin og alles. Það glingraði ískyggilega í pokanum okkar þegar við brugðum okkur á salernið á sjoppuni/hótelinu. Það voru vistirnar sem létu í sér heyra.  Við vorum á leiðinni að Hafsteinssöðum á allsherjar-skrall þessa helgi.  Þegar þangað kom tilkynntum við Jóni að við ætluðum á bak á belju!  Lítið man ég nú eftir öllum herlegheitunum nema hvað að eftir ballið harðneituðum við Kristín að sofa einar. Við kröfðumst þess að Jón á Hafsteinsstöðum svæfi á milli okkar.  Hann varð við þeirri ósk okkar af mikilli ljúfmennsku. Enda gestgjafinn!  Nema hvað rúmið var ætlað einum en ekki þremur svo nokkuð þröngt var um okkur um nóttina.  Ég svaf upp við vegg,  Jón á milli og Kristín vóg salt á brúninni.  Ekkert okkar forðaði sér úr aðstæðunum um nóttina en býsna var nú gott að komast fram úr og teygja úr stirðum limunum eftir að hafa legið niðursjörvaður í sömu stellingu um nóttina.  Við gerðum vísu að þessu tilefni og er hún svona.
--
Ein svaf upp´á miðjum vegg
þær ætluðu´á bak á belju.
Jón hraut með sitt mikla skegg
milli heims og helju.
--
Sideways

Sneiðmynd

Sideways Fer í sneiðmynd af höfði á morgun.  Það er langt síðan ég hef farið í eitthvað svona rannsóknardæmi.  Það verður bara spennandi að fá niðurstöðuna.  Fór með mömmu að versla í dag.  Fórum á útsölu. Á leiðinni þangað hringdi Solla systir.  Ég var einmitt að taka um hana þegar hún hringdi.  Það er 38 stiga hiti hjá henni í Portúgal.  Hún er að taka til og sortera hjá sér og gefur sígaunakellingunum fötin sín og Lucyar. Þær selja þau á markaðnum. Sagði Sollu að til stæði að halda "come-back" ball á Ketilásnum og fyrsti samráðsfundur yrði í lok júlí.  Hún varð næstum abbó!Cool   Hún vildi að ég, mamma og Magga systir kæmum í heimsókn til hennar fljótlega.  Ég sagði henni að það ylti allt á John Benediktz.  Ef það væri eitthvað að hjá mér gæti hann kannski sett dren og tappa út úr hausnum svo ég kæmist til hennar!  Solla sá það alveg vera að gerast!LoL Annars gott veður hér, grill og góðar stundir með Krissa, Guðrúnu og strákunum.  Geirarnir skruppu á Strandirnar með "lilla hús".  Næst er það flotbryggja, tveir bátar og fleira smálegt!Joyful   Mamma verslaði sér slatta af fötum á útsölunni og var ánægð með kaupin. Smile  Góðar fréttir.is á ferðinni í dag eins og oft áður!Heart

Sigling í dag

Sagði veikindunum stríð á hendur og fór í smá siglingu á Ippunni milli hafna hér í Reykjavík.  Það er svo yndislegt veðrið og þar sem tveir af fjórum mögulegum sem gistu hjá ömmu og afa í nótt sigldu með afa sínum inn í Reykjavíkurhöfn í morgun stóðst ég ekki mátið að hitta þá þar og sigla með til baka inn í Snarfarahöfn. Yndislegt að þenja seglin og drepa á vélinni.  Líða áfram fyrir vindinum.  Kristjáni Andra leist ekki á blikuna og vildi fara hraðar.  Vildi að mamma sín kæmi að ná í sig.  Honum fannst spennandi þegar afi hans sagði að þá yrði hún að koma á þyrlu! Ég tók myndavélina með en var svo löt að ég tók enga mynd. Skoðuðum svo litla húsið sem á að fara á Djúpuvík þegar við komum í land.  Feðgarnir eru búnir að bera á það viðarvörn og allt voða fínt.   Skiluðum bræðrunum svo heim þegar Einar Breki var búin að gera stórtWink .  Alla vega létum við sem svo væri við foreldrana sem tóku því vel. Ég er bara fjallhress eftir daginn og er að láta krauma kótilettur í grilli og grillpylsurnar bíða síns tíma.  Þ.e. þar til ég heyri í trukknum hans Geirs koma í hverfið.Wizard  Sumsé góðar fréttir í dag.Smile

Sauðanes

Já maður er að jafna sig eftir Sauðanesið og ættingjana.  Mikið gaman.  Mikið fjör. Ég er enn að saudanes-91-14914melta þetta. Ég er viss um að við munum hittast aftur á svona ættarmóti fyrr en síðar.  Það var gaman að stilla upp hinum ýmsu listaverkum í vitanum, hengja upp ljóð og gera hráa sýningu í hráu umhverfi.  Sýningargestir fengu að sjálfsögðu að fara upp í ljóshúsið á vitanum.  Ég man að það var einn liður í því að vera vitavarðardóttir að sýna vitann.  Það er eitthvað svo spennandi við vita.  Byggingarlagið eins og kastalabygging og gaman að fara upp þessa mjóu stiga upp á þak eða í ljóshúsið. Fyrsta fast-launaða vinnan mín eitt sumarið var við að mála og skrapa vitann með pabba.  Það var virkilega erfitt en skemmtilegt líka.  Ég var samviskusöm við starfið og skrapaði vel.  Bæði glugga, þak og veggi. Svo var málað í þessum gula lit.  The good old day´s.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband