Færsluflokkur: Bloggar

Sorgarferli

Hver hefði trúað að það væri hægt að sakna einnar kisu svona mikið?  Auk þess kisu sem var alger "ljóska"!!!! Við Mímí eigrum um íbúðina.  Hún leitar, ég segi hanni að það þýði ekkert að leita.  Tek hana upp og við huggum hver aðra.  Mímí er kisa sem vill láta lítið fyrir sér fara.  Palla var "hér er ég" týpan.  Þær voru góðar saman.  Nú verðum við að finna nýja rútínu.  Kannski fer ég að labba með Mímí í beislinu sínu stuttar gönguferðir? Ég beislaði þær gjarnan á svölunum þegar þær voru þar úti.  Svo fór ég að leyfa þeim að vera með mér úti.  Þær virtust höndla það en ég var alltaf hrædd um þær.  Svo leit ég af þeim, fór inn og Palla fór fram afFrown.  Hefur ábyggilega verið að elta flugu og gleymt sér.  Það var mikið af flugu úti þennan dag.  
Fer í klippingu á eftir og svo í matjurtagarðana með mömmu og pabba að taka upp grænmeti.  Kannski tek ég Mímí með í beislinu sínu?  Henni finnst gott að fá gras.

Allt á hvolfi

Er að hugsa um að auglýsa eftir að komast í þáttinn "Allt í drasli"!!!!  Þegar ég lít í kring um mig er gersamlega eins og hér hafi verið gerð innrás.  Við erum búin að vera mikið á ferðinni í sumar auk þess sem ég er ekki þessi húsmóðir sem er alltaf með klútinn á lofti.  Kannski ætti ég að drífa mig í að taka eitthvað til í dag?  Á móti kemur að veðrið er svo gott og lítið eftir af sumrinu.  Ætlaði að skreppa norður á Sigló (Sauðanes) á morgun og sækja mömmu og pabba.  Pabbi hringdi í gær og sagði veðrið hundleiðinlgt og þau gætu fengið far með Kristínu Hafsteinsdóttur.  Kannski bíð ég þá með berjamóinn í nyrðra og fer eitthvað styttra.  Lít einu sinni enn í kring um mig og ákveð að taka aðeins til.  Þetta gengur ekki.  Svo hefur maður eitthvað hollt og gott í gogginn í kvöld.  Með eplakökunni frá bloggvinkonu minni mörtusmörtu í eftirrétt?  Hver veit.............Wink  

Ráðhúsið í dag

Í dag fórum við hjónin í Ráðhús Reykjavíkur.  Þar fögnuðu taílendingar áttræðisafmæli konungsins í Taílandi Rama níunda.  Það var gaman að hlýða á söng og skemmtilega músik.  Allt iðandi af lífi og lífsgleði.  Tengdadóttir okkar sem er taílensk söng listavel á hátíðinni.  Synir hennar og sjóarans sonar míns gista svo hjá ömmu og afa í nótt og stefnan er tekin á berjamó á morgun. Sjá má á meðfylgjandi slóð þegar annar þeirra Geir Ægir afhendir ungri snót rós.

Erfðavísir MS mögulega fundinn

Blaðið greinir frá því að hópur vísindamanna telji sig hafa gert mikla uppgötvun og fundið erfðavísi sem orsakar MS-sjúkdóminn.  Að því er fram kemur í nýjasta tölublaði The New England Journal of Medicine and Nature Genetics hafa þrjú mismunandi teymi vísindamanna talið sig, með misjöfnum aðferður, hafa fundið erfðavísi sem orsakar sjúkdóminn og í kjölfarið hugsanlega meðferðarmöguleika sem hindrað gæti útbreiðslu sjúkdómsins.
Meira í Blaðinu í dag á bls 4 www.bladid.net

Á heimleið

 

Stóra

pabbaskýið

í suðri.

 

Sussar á litlu

fuglaskýin

sem fljúga

vestur um

í oddaflugi.

 

Yfirbreiðslan

silkiofin og

léttleikandi.

 

Gerð af englum

eins og þér.

 

Fyrir austan lúra

skúraleiðingar

 

Í norðri 

sól.........

 

 

                   Vilborg Traustadóttir


Not dark yet

Bloggvinur minn Possi var svo vænn að setja þetta lag Bob Dylans inn á tónlistarspilarann hjá sér.  Hér er Fantasíuútgáfa sem hefur verið gerð við lagið og er býsna skemmtileg.  Þ.e. myndband gert við lagið sem er að finna á disk Dylans Time out of mind.  Njótið vel......Halo

http://youtube.com/watch?v=1FmoXH2WGDY

Heimferðin af Ströndum

Ég ætla að loka Strandaferðinni okkar um daginn í stuttu máli.  Eftir að gestirnir yfirgáfu okkur tókum við því bara rólega.  Brösuðum í kring um húsið og máluðum "lilla hús".  Ég sólbrann öðru megin við að mála myndir. Buðum svo Gústa frænda, Hönnu, Ester og börnunum Ríkharði, Gabríel og Sveinfríði Hönnu í mat. Gústi sagði að ég væri eins og rónarnir á Arnarhóli sólbrunnin öðru megin þar sem enginn kom til að snúa þeim.  Það er ekki leiðum að líkjast sagði ég.  Grilluðum læri og strákarnir urðu alveg kjaftstopp þegar ég stakk upp á að þeir kveiktu eld í kantsteinahleðslu á móti húsinu okkar.  Þeir urðu svo alsælir og viðuðu að sér efni.  Ekki leið á löngu þar til mamman og amman komu að athuga málið.  Þetta var í góðu lagi og það yljaði mér hve einlægir þeir voru frændur mínir í þessu verkefni öllu.  Við héldum svo heim á fimmtudeginum og ákváðum að kíkja í sumarbústað við Apavatn "í leiðinni" og kippa tengdó með heim.   Fórum við að athuga leiðina um Uxahryggi strax í Hólmavík og ók ég fyrir um uppsveitir Borgarfjarðar í nokkrar blindgötur en stöðvaði í Skorradalnum og tilkynnti Geir (vorum á tveim bílum) að nú þekkti hann sig betur og skyldi því taka forystuna.  Veit ég ekki fyrr en hann sveigir af leið og fer Dragháls yfir í Hvalfjörð og leist mér nú ekki á blikuna.  Ég var með batteríislausan síma og gat því illa gert annað en elta.  Svo við Ferstiklu (eða Botnskála man ekki hvort) stoppaði hann.  Við ákváðum þá að halda áfram og fara um Kjósarskarð á Þingvöll og Lyngdalsheiði.  Þvílík fegurð!  Kjósin er eitt ævintýri og ekki versnaði það við Þjóðgarðinn á Þingvöllum og síðan Lyngdalsheiðin.  Ég var að hlusta á Hlaupanótuna og þar var verið að spila lög eftir Burt Bacharac sem pössuðu svo vel inn í stemminguna að ég táraðist hreinlega.  Look of love, Close to you o.s.frv.  Nutum þess að teygja úr okkur í kaffisopa við Apavatn.  Síðan snæddum við í Þrastarlundi með tengdaforeldrum og komum heim eitthvað um áttaleitið ef ég man rétt.  Við vorum þreytt en alsæl þegar við tæmdum bílana hér heima og skelltum okkur í hvíld.  Ég við tölvuna en hann við sjónvarpið.Strandir 2007 037
Þarna er útsýnið á Djúpuvík í átt að Hótelinu og fossinum Eiðrofa.....

Nýr bloggvinur Possi

Nýr bloggvinur minn er Possi eða Sveinbjörn K. Þorkelsson. Hann er áfengisráðgjafi samkvæmt mínu grúski á hans síðu.  Hann hefur það á stefnuskrá sinni að blogga meira en hann hefur gert undanfarna mánuði.  Hann hefur farið á 12 tónleika með Bob Dylan (má ég koma með næst?)  Fínar myndir hjá honum m.a. úr Kjósinni sem ég ók um daginn til Þingvalla. Segi betur frá því síðar en ofboðsleg fegurð er á þessari leið.  Velkomin í bloggvinahópinn Possi!Cool

Svalamálun 2007

Nokkrar myndir frá afköstum okkar systra 23.24. og 25. júlí á svölunum hjá Möggu systir á Akureyri.  Hreint ótrúlega gaman að vinna saman og ég í fyrsta skipti að kljást við olíuliti.   Féll kylliflöt fyrir þeim.  Þeir eru svo mikið eðal að vinna með.Strandir 2007 072
Þarna til hliðar er Magga með fyrstu myndirnar sem áttu eftir að taka breytingum.
´
Strandir 2007 094Ég öll útklínd...
Svalamálun 2007 Ýmsar myndir okkar á vinnslustigi...
Svalamálun 2007 Galdraskógur, sameiginleg víxlmálun okkar systra.  Svalamálun 2007 Fyrsta olíumyndin mín og heitir Upphaf.Svalamálun 2007 Ég með afraksturinn í dag!
Svalamálun 2007 Magga með afraksturinn.
Súlur 2007 Myndin mín Súlur komin á sinn stað. (Séð af svölunum hjá Möggu með mínum augum, Örn Ingi sagði að ég væri kjarkmikil Wink og hefði gott vald á litablöndun).
--
Ók svo sem leið lá heim til Reykjavíkur í dag og var sú ökuferð eins og eitt allsherjar málverk!!
Eitt allsherjar ljóð og lofsöngur!!
Yndisleg fegurð og falleg birta. Ég fór að ráðum Arnar Inga og hélt mig á veginum.  Hann varaði mig við að vera ekki of uppnumin af listinni.  Hann sá hvernig mér leið en ég var í sæluvímu eftir þetta ævintýri.  Takk fyrir Magga systir og takk José og Dalí fyrir skemmtilega daga og nætur en Dalí kallinn kom upp í til mín fyrstru nóttina þegar ég skrapp á klóið.  Lá svo á bakinu og hreinlega brosti til mín þegar ég kom inn afturLoL. Honum fannst ég greinilega einmanaSmile.
--
Svo hlustaði ég líka á svo yndislega fallegan og einnig húmorískan disk frá Gísla og Láru á leiðinni heim í dag.  Takk fyrir mig.  Hef svo bækurnar frá þeim á náttborðinu. Glugga bara í þær ef mér fer að leiðast.  Þá er alveg öruggt að leiðinn hverfur.Smile
P.s. Dalí er hundur!!!!!!LoL

Fyrsta fundargerð Ketilás 2008

Undirbúningsfundur vegna fyrirhugaðs dansleiks bannaðs innan 45. ára á Ketilási í Fljótum sumarið 2008.

Staður: Bláa Kannan Akureyri kl: 21.00

Mættir voru Margrét Traustadóttir, Villborg Traustadóttir og Gísli Gíslason. 

Fundurinn sem var fremur óformlegur en að sama skapi mjög skemmtilegur hófst stundvíslega. Fundarmenn skipuðu sér í undirbúningsnefnd, Margrét var kosin formaður, Gísli gjaldkeri og Vilborg ritari.

Ákveðið var að hafa Hippaárin sem þema dansleiksins.

Ákveðið var að byrja á því að athuga með húsið að Ketilási og kanna möguleika á að halda dansleikinn helgina fyrir verslunnamannahelgi á næsta ári (2008).  Gísli mun kanna það í næstu viku. Í framhaldi af því verða næstu skref stigin en þau eru.

1. Að ná til áhugasamra til að kynna hugmyndina fyrir þeim og biðja fólk að skrá sig til þáttöku.  Það verði gert hér á bloggum okkar auk þess sem það er hugmyndin að ná til fólks með því að auglýsa í Dagskránni, Tunnunni og á Sigló.is.  Einnig að beita maður á mann aðferðinni alveg óspart!  Fundargerðir verða birtar á þessu bloggi og vonandi víðar þegar nær dregur svo allir geti fylgst með gangi mála og komið með óskir og athugasemdir. 

2. Athuga með hljómsveit sem spilar sixties lög og önnur sveitaballalög sem ómuðu um Fljótin árið 1968 til 1978 (cirka).  Af nógu er að taka í þeim efnum og allar hugmyndir vel þegnar.

Ýmislegt annað var rætt á fundinum en ekki talið tímabært að ákvarða um frekari framvindu mála að sinni. 

 

Fleira ekki gert og fundarmenn kvöddust með virktum á hlýju sumarkvöldi í göngugötunni á Akureyri kl. 10.30.

 

                                Ritari undirbúningsnefndar:  Vilborg Traustadóttir


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband