Færsluflokkur: Bloggar

Nýr bloggvinur nilli

Minn nýjasti bloggvinur nilli eða Níels A. Ársælsson er hugsjónamaður með skoðanir.  Hann tjáir þær skýrt og skorinort á bloggi sínu. Gaman að sjá það,  það er upplífgandi.  Hlakka til að fylgjast með blogginu hjá honum. Velkominn í hópinn nilli!Grin

Stjörnuspá

SteingeitSteingeit: Vinnan þín er hið fínasta félagslíf. Þar hittir þú fólk sem þér finnst tilheyra sama heimi og þú. Það er bæði þægilegt og skemmtilegt!

Hormónar og MS

http://visir.is/article/20070830/FRETTIR05/70830081

Ég hef haldið þessu fram lengi. 

Ég hef gengið með þrjú börn og var stálslegin allar meðgöngurnar.  Verður spennandi að tala við John Benediktz um þetta og fara að gera eitthvað í málinu ef hann telur það ráðlegt.


Stormar á Ásnum

Boltinn er farinn að rúlla. Ræddi við Theodór Júlíusson  (Dadda Júll)  í dag og hann er áhugasamur um Ketilásball 2008.  Hann er forkólfur hljómsveitarinnar Stormar frá Siglufirði.  Þannig að nú er allt að fara af stað.  Hann mælti með laugardagskvöldinu um helgina sem við ákváðum.  Þ.e. helgina fyrir Verslunnamannahelgina og Síldarævintýrið.  Við vorum sammála um að það væri gott fyrir Síldarævintýrið og ferðamennskuna fyrir norðan að fá smá vítamínsprautu tengda svona nostalgíu-atburði inn á þetta tímabil.  Nú er bara að vinda sér í að ræða við staðarhaldarann á Ketilási við fyrsta tækifæri og bóka húsið.  Einnig væri gott fyrir okkur að setjast niður yfir kaffi eða te og taka stöðuna kring um 20. september.  Formaður sér um að boða fundinn á sinni síðu.  Svo er spurning hvort við ættum ekki,  eins og við töluðum um, að opna sérstaka síðu tengda þessu verkefni þannig að sem flestir geti nálgast upplýsingar á einfaldann hátt. 
---
Ketilásinn rokkar feitt!!!!Wizard

Helgarspjall

Nú er að skella á helgi.  Man hvað maður gat beðið spenntur eftir þeim helgunum hérna í "denn".  Skella sér á ball og annað, þegar best lét.  Hvað maður nennti þessu. Hvað þetta gat nú verið gaman samt sem áður.   Nú er af sem áður var. Sem betur fer.  Öllu rólegra líf.  Fjölskyldulíf.  Ömmu og afahlutverkið felur það í sér að stundum fáum við næturgesti um helgar.    Nú erum við að vinna okkur upp í hugarfar til að nýta herbergi sem lítið hefur verið notað síðan "ungarnir" yfirgáfu hreiðrið.  Geta gistiaðstöðu fyrir unga sveina þar.  Það verður gaman að taka til og skapa rými fyrir litla karla í "ömmuhúsi" eins og þeir kölluðu það fyrst um sinn.  Nú er það Sólheimar,  þessar nafngiftir þeirra peyjanna fylgja aldri og þroska.  Um helgina langar mig líka að kíkja á einhverja djassviðburði á djasshátíð Reykjavíkur.  Kannski fer ég að sjá og heyra Sigurð Flosason sem kemur fram með góðu gengi um helgina.  Hver veit?  Ef ég verð ekki að passa prinsana okkar.  Helgin verður vonandi góð okkur flestum.

Nýr bloggvinur svavars

Nýr bloggvinur Svarar Sigurður Guðfinnsson er drengur góður.  Ég þekki hann að góðu úr félagsstarfi fyrir nokkrum árum.  Hann er heill og sannur.  Svavar er hæfileikaríkur og öflugur liðsmaður sem hefur heiðarleikann að leiðarljósi.  Hann ætlar engum illt og tekst á við verkefnin samkvæmt þvi.  Hlakka til ef ég á eftir að starfa með honum á ný.  Ljóðagerð er greinilega sameiginlegt áhugamál okkar samkvæmt kynningu hans á blogginu.  Gaman að þú ert nú bloggvinur minn Svavar. Smile

Grænmetið upp

Tókum upp kartöflur rófur og annað sem eftir er í görðunum í gær.  Það er æðislegt að fá nýtt grænmeti.  Við erum búin að taka upp jöfnum höndum í ágúst og eigum aðeins eftir dálítið af kartöflum og hnúfukál sem verður tekið í dag eða á morgun.  Ég gerði mjög góða grænmetissúpu í gær fyrir okkur hjónin. Sonarsynir mínir sem voru með mér tíndu kartöflur af miklum móð upp í bala og svo skiptum við fengnum.  Þeir tíndu einnig gras fyrir Mímí sem var að úða því í sig í morgun.Wink 
Er að reyna að láta mig hlakka til einhvers og ætla að fara eitthvað á röltið á eftir.  Húsið er svo ótrúlega "tómt" síðan Palla kisa fór frá okkur.  Hún gerði sig einhvern veginn "svo gildandi".  Var alls staðar þar sem var hreyfing.  Stökk fram fyrir Mímí í matinn, kom upp í á morgnana og lagðist á sængina Geirs megin, rak hann hreinlega fram úr um helgar.  Var sannkölluð prímadonna.  Mímí sem alltaf hélt sig til hlés meðan Palla var, er farin að koma upp í á morgnana og leggst þá á sængina Geirs megin.  Lífið heldur áfram þó með öðru sniði sé. 

Palla er ekki til

Sonarsynir mínir voru hjá mér í dag. Eða tveir af fjórum mögulegum.   Sá eldri pælir dálítið í dauða Pöllu, kisunnar okkar sem datt fram af svölunum og dó í kjölfarið.  Hann kom upp með það af og til að Palla væri dáin.  Svo sagði hann "nú er Palla ekki til!  Ég sagði við hann að það væri rétt en nú væri hún sennilega farin í himnasveitina þangað sem önnur dýr sem deyja fara.  Þar sem þau lékju sér saman og liði vel.  En kemst hún þá aftur hingað?  Nei sennilega ekki var máttleysislegt svarið en vonandi líður henni vel þar sem hún er."   Þetta eru erfiðar pælingar fyrir fjögurra ára gutta og ég man mínar vangaveltur sem barns yfir eilífðarmálunum og hvað tæki við.  Hvort eitthvað tæki við o.s.frv.  Ég man þegar ég var að staðsetja mig í alheiminum og fór að hugsa um hve lítil ég væri nú í öllum þessum heimi.  Þá helltist yfir mig slík skelfing að ég hljóp í einum spretti heim til mömmu og var sannfærð um að ég væri að deyja.  Ég var 9-10 ára þegar þetta var.  Mamma leitaði með mig til læknis og ég fékk einhverjar taugapillur sem ég var látin taka þegar þetta kom yfir mig.  Held ég hafi nú ekki tekið margar þeirra.  Seinna tók systir mín allar pillurnar mínar inn  m.m. en sem betur fer var hægt að koma henni á sjúkrahús og dæla upp úr henni.  Það þurfti þó að opna veginn sem var ófær þegar þetta gerðist.  Á meðan það var mokað var beljan mjólkuð og dælt ofan í hana volgri mjólk.  Systir mín hafði ætlað í partý en foreldrar okkar bönnuðu henni að fara.  Ég hélt hún hefði tekið pillurnar til að komast í bæinn!  Hvað um það þetta fór vel hjá henni en hún var þegar þetta gerðist nýbúin að missa vinkonu sína með þessum sama hætti.  Þessi örstutta upprifjun minnir mig á hve stutt er á milli feigs og ófeigs.  Mér finnst gott að minna mig á það og vera eins góð manneskja og ég get í dag því enginn veit hvað morgundagurinn ber í skauti sér.

Kona aðgerðanna

Ég er kona aðgerðanna. Ekki í eiginlegri merkingu þess orðs.  Þ.e.a.s. ég er ekki mikið í læknisaðgerðum (7,9,13).  Heldur er það að þegar ég lendi í vandamálum og mótlæti tekst ég á við það með aðgerðum.  Ég missti kisuna mína eins og ég hef sagt ykkur frá.  Ég er búin að vera mjög niðurdregin síðan.  Hún var fósturdóttir mín.  Ég ól hana fyrstu dagana meðan mamman jafnaði sig eftir keisaraskurðinn.  Lét hana pissa og gaf henni dósamjólk. Svo deyr hún með svona vofeiflegum hætti.  Hún var blönduð af Bengalakyni.  Hafði blandast við íslenska ketti.  Hún hafði sterk Bengala einkenni.  T.d. hafði hún rafgul augu og hvíta silfurþræði í feldinum.  Þessa loftkenndu þræði. Nema hvað að eftir tvo daga í sorg og sút sendi ég rafpóst til Ólafs í Nátthaga sem ræktar Bengal ketti.  Spyrst fyrir um kettina.  Átti leið framhjá Nátthaga sama dag og afréð ásamt samferðafólki að kíkja við og athuga með kettina.  Spyrjast fyrir um hvort hægt væri að fá að sjá kettlinga sem væru hugsanlega til sölu.  Ekki síst eftirlifandi kisunnar vegna sem er auðvitað mjög einmana.  Við hittum á Ólaf í gróðurhúsi og ég bar upp erindið.  Skipti engum togum að ég fékk langan fyrirlestur um þá ósvífni að ryðjast svona inn og "ætlast til" að fá að sjá kettina undirbúningslaust.  Við sjötluðum málið og sögðum eins og satt var að ég hefði sent póst um morguninn og ákveðið svo að koma við þar sem ég átti leið hjá.  No big deal!  Við fórum svo strax og án þess að fá að sjá ketti enda engin aðstaða til þess að okkur skildist.  Einhverjir rafpóstar fóru okkar á milli í kjölfarið og ætla ég nú ekkert að rekja þá frekar hér.  Það er lengi von á einum hugsaði ég nú bara með mér og endaði þessi samskipti með kurt og pí.  Það kom fram í rafpóstunum að hann selur kettlingana vanaða á 95.000 krónur.  Það finnst mér ekki ásættanlegt.  Ég þekki ekki til þess í neinni ræktun að ræktendur geti áskilið sér rétt til að vana dýrin og selja þau svo á fullu verði. Þannig að ég mun una glöð með þeirri einu kisu sem eftir er á heimilinu og leyfa henni bara að heimsækja aðra ketti eftir efnum og ástæðum en hún er innikisa þar sem við búum svo hátt uppi.
--
Góðu  fréttirnar eru þær að svo lengi lærir sem lifir!!!!!

Göngutúr með Mímí

Fór með Mímí í beisli út áðan.  Gengum kring um blokkina og yfir á bókasafn.  Mími var ótrúlega góð og lét vel að stjórn miðað við kött sem venjulega fer sínar eigin leiðir.  Hér fylgir með mynd af kisunum. Hún er tekin 2006. Palla er þessi gula. 2006 085

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband