Hver heldur með hverjum og hvers vegna?

Mér finnst dálítið fyndið að velta fyrir mér þeirri áráttu okkar að halda með ákveðnu liði í íþróttum.  Hvers vegna þetta lið en ekki hitt?

 

Tölum um fótbolta! 

Soccer-Ball-in-Net-Photographic-Print-C12437788

Oft er það "heimaliðið" sem við höldum með af mikilli áfergju.  Stundum er það vegna þess að einhver sem við þekkjum spilar með liðinu eða að einhver sem við þekkjum heldur með liðinu.

Þegar kemur að liðum utan landsins t.d. í enska boltanum flækist málið verulega.  Sumir eru Liverpoolarar bara af því og aðrir Manchester United aðdáendur af því bara.  

Hvað veldur?  Ég er alger "flokka-flakkari" í þessum efnum. Synir mínir hafa haldið mjög sterkt með liðum í enska boltanum.  Einn heldur með Liverpool, tveir héldu lengi vel með Arsenal og ég gerði það líka um tíma.

Svo hélt ég með Chelsea þegar Eiður Smári lék með þeim og um tíma hélt ég með Manchester United vegna þess að John læknir Bendikz heldur með þeim.

Í dag er ég alveg laus við að halda með einum eða neinum.  Sé ekki tilgang með því. 

Árfram Þróttur!!! 


Mat hjá læknanefnd

Ég fór í dag að hitta einn af þremur læknum sem eiga að vega og meta umsóknir sérfræðinga á lyfið Tysabri sem er byrjað að nota hér á landi gegn MS sjúkdómnum. 

Ég stormaði á endurkomudeild landspítalans og var beint í röð hjá gjaldkera. Á undan mér voru þrjár konur og ég þekkti þær allar.  Engin þeirra var þó að fara fyrir læknanefnd eins og ég.  Ein var með MS eins en hinar þekkti ég af öðrum vettvangi.

Viðtalið við lækninn gekk mjög vel og hún útskýrði fyrir mér kosti og galla lyfsins.  Ég get þó átt eftir að bíða í um mánuð eftir að heyra frá þeim um næstu skref.

Spítalinn á erfitt með að sinna þessu þar sem það er tímafrekt og loka þau dagdeildinni meðan þessi lyfjagjöf fer fram.  Ég held ég hafi tekið rétt eftir að það er einungs gert einu sinni í mánuði.  Það er engan veginn nóg m.v. þann fjölda sem ætti að fá lyfið en þau telja sig vanta mannskap til að geta sinnt þessu verkefni svo sem best verði á kosið.

Ég spyr mig hvort ekki væri hægt að framkvæma þetta víðar á landinu?

Ég spyr mig líka,  hvar er MS félagið statt í málinu?  MS félagið á gott húsnæði og ágætis aðstöðu sem unnt væri að nota til lyfjagjafar og/eða eftirlits með henni?

MS félagið er nýbúið að stækka húsnæði fyrir dagvistina og því ætti plássleysi ekki að hamla í þessu máli. Nema það að formaður MS félagsins hefur sagt að dagvistin komi félaginnu ekkert við.  

Bíddu en hvers vegna byggir þá félagið við dagvistina?

Auk þess hefur MS félagið ekki lækni starfandi hjá sér......

Aðalatriðið félags eins og MS ætti að vera að þjóna sem flestum MS sjúklingum á landinu.

 

 

 


SKÓLALJÓÐIN

Ég er að glugga í gömlu skólaljóðin sem manni var gert að læra utan að.  Mikið ofboðslega hefur þetta verið erfitt!

 

"Hví skyldi ég ekki reyna að byrla Braga full"  (Guðmundur Friðjónsson, Ekkjan við án)  Hvernig átti að útskýra ljóð sem byrjar svona?

Eða "Fullvel man ég fimmtíu ára sól" (Matthías Jochumsson, Jólin1891)  og "Hér er fækkað hófaljóni, heiminn kvaddi Vakri Skjóni" (Jón Þorláksson,  Vakri Skjóni).

 

Önnur voru auðskiljanlegri og einhvern veginn fannst mér gaman að læra flest ljóðin.  T.d. Grettisljóð eftir Matthías Jochumsson, ljóð eftir Þorstein Erlingsson og kvæði Davíðs Stefánssonar ásamt fleirum og fleirum.

Öll skildu þau eftir aukinn skilning í barnshuganum og í dag er ég þakklát fyrir að hafa fengið að læra þessi ljóð sem á stundum voru mikið torf og mikill þyrnir í augum okkar sem vildum gera allt annað við tímann okkar en lúra yfir ljóðabálkum löngu dáinna skálda. 

Verst þótti mér að læra utan að hvar og hvenær skáldin voru fædd og hvenær þau dóu.  Ég gat ekki skilið að það skipti einhverju máli. 

Það er samt gaman að fletta bókinni og lesa hana og þetta eru miklu þyngri ljóð en mér finnst í minningunni. 


Sade flott og fáguð


Hlutverk fréttamanna?

Ég hef stundum velt fyrir mér hlutverki fréttamanna og fjölmiðla almennt.  Eftir að Lára Ómarsdóttir sagði upp vegna óheppilegra ummæla sinna í beinni útsendingu hafa þessar hugsanir komið upp á yfirborðið á ný.

Ég tók eftir að hún sagði einnig að lögreglan hefði verið undir "þrýstingi" frá fjölmiðlum og það hefði hugsanlega spilað inn í aðgerðir þeirra gegn atvinnubílstjórum nú í s.l. viku.

Þá spyr ég,  er það hutverk fjölmiðla að beita þrýstingi?  Er það ekki fyrst og fremst hlutverk þeirra að miðla fréttum?  Ég held að hasarblaðamennska og allar vangaveltur um "fjórða valdið" séu vægast sagð misskildar.

Það kann ekki góðri lukku að stýra ef fjölmiðlar eru þannig farnir að stýra atburðarrásinni. 

Mér finnst að alla aðila hafi sett verulega niður í þessu máli.  Ekki síst fjölmiðla sem hafa viðhaldið vitleysunni með stöðugu áreyti og uppblásnum fréttum af litlu sem engu. 


Einyrkjar

Ég las mjög góða umfjöllun Helga Gunnlaugssonar, afbrotafræðings,  um þessi mótmæli atvinnubílstjóra á forsíðu morgunblaðsins í dag.

Þar segir hann það sem stjórnmálamenn ættu fyrir löngu að hafa sagt.

Ég hvet fólk til að næla sér í blaðið og lesa umfjöllunina.

Þar kemur m.a. fram að bílstjórar eru einyrkjar sem hafi vafalaust tekið erlend lán til að kaupa bíla og búnað, lán sem hafi hækkað mikið að undanförnu og því komi ástandið verr niður á þeim en stærri fyrirtækjum.  

Það er afar sorglegt að þessi mótmæli hafi fengið að þróast á þann hátt sem raun ber vitni. Ég hef fram á þennann dag verið undrandi á bílstjórunum og fundist að þeir væru fyrir löngu búnir að koma sínum skilaboðum áleiðis.

Stjórnvöld bera þó meiri ábyrgð en svo að hægt sé að hvítþvo þau.

Auðvitað hefði Geir H. Haarde átt að koma fram með skilgreiningu á stöðunni og framtíðarsýn Ríkisstjórnarinnar í málinu strax í upphafi mótmælanna.  Hann átti að reyna að lægja öldurnar í stað þess að sýna hrokafulla framkomu og hlaupa í felur.

Þetta mál er orðið mjög, mjög sorglegt og nú skora ég á stjórnvöld að koma fram með sáttatillögur um það hvernig eigi að  rekja upp þennan hnút.

Ef ekki Geir H. Haarde þá samgönguráðherra Kristján Möller eða Ingibjörg Sólrún. 

 

 

 

 

 


mbl.is Líklega ákærður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gleðilegt sumar!

Gleðilegt sumar öll sömul og kærar þakkir fyrir skemmtilega bloggsamveru í vetur.  Smile

Maður spyr sig af og til hvort maður endist á blogginu áfram?  Þetta er svo stórt samfélag að verða.  Hver og einn verður ein lítil arða í öllu litrófinu.  Þó er skemmtilegt hve ólíkt samfélagið er. Maður getur einhvern veginn alltaf fundið eitthvað nýtt og ferskt innan um á blogginu.  Skoðanir eru skiptar en það er alltaf gaman þegar skipst er á skoðunum af gagnkvæmri virðingu. Þó í brýnu geti slegið þá er það ekkert nema eðlilegt.

Aðalatriðið er að koma skoðunum sínum málefnalega á framfæri. Það er stundum vandi.

Bloggvináttan er dýrmæt og gaman að vafra um hjá þeim bloggvinum mínum þegar tími vinnst til.  

Ég vona að allir bloggvinir sem aðrir eigi góðan sumardaginn fyrsta.  Við keyptum grill í gær og vonumst til að geta grillað eitthvað gómsætt seinna í dag ef ekki, þá um helgina. 

Núna í vikunni hefur mér í fyrsta sinn fundist vor í lofti á þessu ári.  Kannski vegna þess að það er núna fyrst að koma vor? Cool 

"Ljósið loftin fyllir,

og loftin verða blá. 

Vorið tánum tyllir

tindana á.

Segir í kvæðinu Fyrstu vordægur eftir Þorstein Gíslason".

 

Judy-and-Marge-Print-C10088141

 


mbl.is Vor í lofti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland vantar leiðtoga

Ég fylgdist í forundran með mótmælum vörubílstjóra og fólksins af ráðhúspöllunum 24. janúar s.l., í beinni í dag. Maður er dálítið fljótur að detta inn í hasarinn og svona uppákoma minnir mann á hve stutt er í stríðseðlið í okkur.

Mér fannst yfirgengilega heimskulegt og dónalegt af vörubílstjórum að mótmæla við Bessastaði þar sem Mahmud Abbas var staddur. Þeir eru að mótmæla reglugerðum og háu olíuverði þar sem maður sem er að berjast fyrir tilveru sinnar þjóðar er í heimsókn!

Keyrði svo um þverbak í dag.  Allt fór úr böndunum!  ALLT!

Eftir situr að Ísland vantar sárlega leiðtoga.  Það dugir skammt að læðast með veggjum og láta sig hverfa í stað þess að taka af skarið.  Ætla að þegja þetta í hel!

Hvers vegna ekki að segja eins og er?  Heimsmarkaðsverð á olíu er að hækka og mun eflaust halda áfram að hækka og því getur lausnin ekki legið í aðgerðum ríkisstjórnarnnar í að lækka olíuverðið. Lausnin hljóti því að liggja í sparneytnari farartækjum.  Það og margt annað verði að skoða og halda áfram að leita lausna sem allir geti vel við unað.

Hvers vegna ekki að koma fram og segjast allur af vilja gerður til að leysa mál varðandi reglugerðir?

Þetta eru jú bara reglugerðir og eru mannanna verk, því ætti að vera hægt að finna lausn á því.  

Sum mál leysast af sjálfu sér en fráleitt öll. 

Það hljómar vægast sagt illa að heyra forsætisráðherra argast út í eina stétt, jafnvel þó hún fari fram með offorsi.  

Hvers vegna ekki að taka slaginn Geir Haarde?

Það hefði Jón Baldvin gert, já og Davíð.


seljanesaett - nýr bloggvinur

Minn nýjasti bloggvinur er Seljanesættin.  Hún ætlar að halda ættarmót í haust.  Kaffi og með ðí!  Mikið gaman  og mikið grín.   Það er nú einhvern vegin þannig að fólk hittist ekki oft þó um skuyldleika sé að ræða.  Því er alveg upplagt að koma saman og skerpa ættartengslin á ættarmóti.  

Hlakka til!!W00t 


Unnið við frágang mynda

Ég er að vinna við frágang málverkanna minna fyrir sýninguna sem verður á Hótel Djúpavík fyrri part sumars.  Það er svo merkilegt að ég klíni alltaf afgöngunum af þeirri vinnu á nýjan striga.

Svona til að eiga grunn fyrir mynd seinna.  Svo horfi ég á strigann og sé mynd út úr klessunum og í höfðinu á mér kemur mynd sem mig langar að setja þar.

Ég sest niður og fer að vinna að hugmyndinni en þá er eins og einhver grípi í taumana og penslarnir mála eitthvað allt annað og oftast miklu betri hugmynd eða útfærslu.

Nú er ég komin með fleiri myndir til að velja úr á sýninguna.  Það er alltaf gott að hafa val.

Þess vegna fagna ég þessu framtaki penslanna minna....Cool   

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband