Hverjum er kreppan að kenna?

Hin svokallaða kreppa sem herjar nú á heiminn hefur fengið gríðarlega umfjöllun fjölmiðla enda ástæða til.

Miklar vangaveltur og getgátur eru uppi um orsakir og auðvitað afleiðingar.  Mest hefur þó borið á tilhneigingu manna til að finna sökudólga. 

Hverjum er kreppan að kenna?

Eigum við eitthvað að vera að velta því fyrir okkur?

Auðvitað verðum við að reyna að finna út hvað það er sem gerir það að verkum að bullandi hagsæld og uppgangur skellir okkur skyndilega niður á hrjúfan botn þar sem fálmkennt handapat virðist vera það eina sem menn grípa til.  Svona til að læra af því.  

Burtséð frá ytri aðstæðum eigum við að skoða í okkar eigin ranni.

Fórum við offari?

Auðvitað gerðum við það almenningur, með eyðslu okkar og neyslufrekju höfum við skapað botnlausa græðgisvæðingu sem erfitt getur verið að beisla.  

Forsvarsmenn bankanna hafa ekki sýnt nauðsynlega aðgát en þvert á móti hvatt til eyðslu með botnlausum lánveitingum, útrás og bruðli m.a. með ofurlaunum í eigin vasa. 

Stjórnmálamennirnir hafa  sofið á verðinum og ekki gripið til aðgerða til að stemma stigu við þessu "fylleríi" okkar.  Því fór sem fór.  

Við höfum öll flotið sofandi að feigðarósi.  Því varð það mér svona nettur léttir að uppgötva að gamla "sláturgerðargenið" var farið að rumska innra með mér.  Mig klæjar í að grípa til aðgerða.  

Skella mér í það að taka nokkur slátur svona til að létta á pyngjunni.  Mér finnst slátur að vísu ekkert gott en það má alveg svæla því í gesti!  


Glitnir

Ég fór á dekkjaverkstæði á mánudagsmorguninn til að láta setja heils árs dekk undir fyrir Strandaferðina.  Þar kom inn gamall maður og segist vera með dekkin í bílnum en hann þori ekki að láta skipta um þau strax þar sem hann viti ekki hvort hann eigi fyrir því.  Það sé búið að þjóðnýta Glitni og hann sé einungis með kort þaðan og viti hreinlega ekki hvort hann eigi neitt lengur?  Bankarnir væru allir lokaðir.

Okkur þótti þetta tíðindum sæta og umræður sköpuðust og urðu nokkuð líflegar.  Maðurinn fór en kom að vörmu spori aftur og sagði að þetta væri víst í lagi og að hann ætlaði því að láta skipta um dekkin. 

Umræðurnar í kjölfarið á þessum gjörningi þekkja allir og eru margir þeirrar skoðunar að um of harkalega aðgerð hafi verið að ræða.  Þorsteinn Már Baldvinsson velti upp þeirri spurningu í Kastljósi hvort seðlabankastjóri Davíð Oddsson væri vanhæfur í málinu sökum miður heppilegra tengsla við aðaleiganda bankans Jón Ásgeir Jóhannesson.

Verður nú Landsbankanum færður Glitnir á silfurfati?  Björgólfsfeðgarnir eru "í náðinni" segja sumir.

Er það plottið?  

Valgerður Sverrisdóttir þingmaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi viðskiptaráðherra, benti réttilega á að einungis það að orðrómur um vanhæfi Davíðs væri á sveimi væri grafalvarlegt mál. 

Stefnuræða Geirs H. Haarde í kvöld skýrði málin ekki mikið og ég var sammála Steingrími J. Sigfússyni þegar hann sagðist ekki ætla að eyða orðum í stefnuræðuna þar sem hún hefði ekki sagt neitt.

Davíð Oddsson mætir á ríkisstjórnarfund og stingur upp á þjóðstjórn! Þorgerður Katrín svaraði því skýrt og skorinort að hann væri komin út fyrir sitt verksvið. 

Hvað er í gangi?

Maður hlýtur að spyrja sig hvort svona aðgerðir af hálfu stjórnvalda með Glitni að frumkvæði Seðlabankastjóra séu til þess fallnar að skapa sterkari stöðu?

Skapar þetta ekki meiri óróa en öryggi? 

Mín tilfinning er sú.  

Alla vega ef ég miða við gamla manninn sem vildi vera viss um eiga fyrir því að láta skipta um dekkin hjá sér.


 


Heim úr haustferð

Við fórum á Strandirnar á mánudaginn og komum heim í dag.  Það var alveg frábært að vera þar þessa daga ásamt syni og fjölskyldu hans.  Strákarnir fjallhressir og vildu alveg vera þarna fram yfir jól.

Við gerðum margt saman, náðum að fara í berjamó og borðuðum þar með sennilega "síðustu berin í dalnum" ,  gerðum "bryggju" í fjörunni og svo snjókarl daginn eftir þegar það kom smávegis snjór.

Hittum vini og vandamenn.  

Sem sagt nutum lífsins. 

Gengum svo frá húsinu fyrir veturinn.  

Set inn myndir fljótlega.

KuldalegtHúsið okkarBræðurnir og snjókarlinn

Suður með sjó í dag, Strandirnar á morgun

Ég fer til Grindavíkur í dag ásamt mínum ektamanni og honum pabba.  við ætlum að samfagna með vini okkar Sigurjóni Jóhannssyni sem heldur upp á 80 ára afmæli sitt.  Ég hlakka mikið til að hitta hann og fjölskylduna sem er mér afar dýrmæt og gaman að rækta vináttuna áfram í gegn um árin. 

Á morgun höldum við svo til Djúpavíkur að ganga frá fyrir veturinn og ná kannski í ofurlitla rest af berjum. Það er ekki seinna vænna.

Ekki er ljóst á þessari stundu hvaða leið við förum en ég reikna með að það verði um Dalina svo við munum ekki berja nýjan Staðarskála augum fyrr en þá í bakaleiðinni. Ef það snjóar á okkur fyrir vestan þá getum við væntanlega ekki farið Tröllatunguheiðina til baka.  Sjáum til..... 

 

__

We will go to Djúpavík tomorrow and be there for two or three days to get the house ready for the winter and hopefully pick some blueberries. 

 


Staðarskáli færður úr stað

Ég las um það í blöðunum í morgun að búið væri að flytja Staðarskála í Hrútafirði úr "Stað"  Hvernig getur það "stað"- ist?  Hann verður nú "stað"- settur vestan megin í firðinum.  

Þetta þýðir að þegar maður leggur af "stað" úr borginni þá verðum maður að gera ráð fyrir að nema "staðar" á öðrum "stað" en áður.  

Þ.e.a.s. ef maður var á annað borð vanur að "stað"- nemast í Staðarskála.

Þeir sem voru vanir að stoppa í Brúarskála grípa því miður í tómt því búið er að rífa hann til grunna. 

Hvað fær maður í "stað"- in?  


Þegar allir tapa

Kompásþáttur um ofbeldi og handrukkun hefur hlotið mikla athygli og sýnist sitt hverjum.  Allir geta þó verðið sammála um það að það ofbeldi sem virðist viðgangast er bæði ljótt og óþolandi. 

Ekkert getur afsakað það þegar menn eru limlestir.  Alveg sama hvað hver segir.  Hótanir gagnvart mönnum og fjölskyldum þeirra eru gersamlega ólíðandi í siðuðu samfélagi.

Búum við í siðuðu samfélagi?

Þegar ég hugsa um þennan Kompásþátt og hvernig lögreglan brást við get ég alveg skilið hvers vegna þessi tegund af ofbeldi viðgengst.  Lögreglan ef spillt!  Þeir láta klíkuskap greinilegar ráða miklu þegar kemur að því að taka á mönnum.  

Lögreglan hefur ekki getu til að fylgja eftir kærum um ofbeldi eða hótanir.  Þeir hafa aðra forgangsröðun.

Þess vega grasserar þetta. 

Er lagaramminn eitthvað óskýr?  Ef svo er þá þarf að skerpa á honum.

Mér finnst standa eftir þennan þátt að allir sem að málinu komu hafi tapað.  

Þó er þörf að taka þessi mál til umfjöllunar og vissulega verður að koma Íslandi aftur í hóp siðaðra samfélaga.  

Sem fyrst! 


Nýjir bloggvinir

Vild eða Gylfi Björgvinsson,  sigurjonth eða Sigurjón Þórðrðarson, Mariataria eða María Pétursdóttir og ÞJÓÐARSÁLIN eða savior eru meðal nýjustu bloggvina minna.  Ég man eftir Gylfa á skíðum norður í Fljótum og sé fyrir mér rauða húfu í minningunni. Sigurjón er frændi bestu vinkonu minnar og auk þess alþingismaður (fyrrverandi, núverandi, tilvonandi)?  Maríu hef ég kynnst að góðu í sambandi við verkefni sem við eigum sameiginlegan draum um. ÞJÓÐARÁLIN er heldur dularfyllra fyrirbrigði.  Velkomin í bloggvinahópinn minn öll fjögur.  

Ættarmót

Nokkur afsprengi Seljanessystkinanna komu saman í sumar og ákváðu að mál væri komið til að halda ættarmót.  Þar sem mörg okkar eru búsett hér á suðvesturhorninu var ákveðið að hafa kaffisamsæti hér syðra.

Við ræddum um að fólk hittist nær eingöngu í erfidrykkjum og því væri alveg upplagt að halda eina "erfidrykkju" þar sem ekkert lík væri til staðar.  Svona einu sinni.  W00t

Ættarmót heitir það og munum við koma saman klukkan tvö laugardaginn 20. september í Skíðaskálanum í Hveradölum.

Margir hafa lagt að því líkur að hér sé um undirbúning fyrir eiginlegt ættarmót að ári en það er mikil firra.  Þetta ER ættarmót.

Ég er svo ánægð með góða skráningu en vel á þriðja hundrað hafa skráð þátttöku.

Mamma og Hrefna systir hennar tróna sem "tvíhöfði" ættarinnar og það verður gaman að heyra þær fara með kviðlinga og skjóta fram gamanmálum í góðu stuði. Kissing

 

Hlakka til.  Cool 

 


Ítarlegt klukk

Fékk aftur klukk og sé að það er ítarlegra en hið fyrra.  Bæti bara í hér það sem vantaði á.

 

Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríum.  

Bandaríki Norður Ameríku

Danmörk 

Belgía

Portúgal

Fjórir sjónvarpsþættir sem mér líkar.

Anna Frits

So you think you can dance

Peep show...verð að viðurkenna að ég hélt að þetta væri annar þáttur, set hann inn seinna. Blush

(Saka)- málamyndaþættir 

Fjórir staðir sem ég vildi helst vera á núna.

 Djúpavík

Siglufjörður

Akureyri

eða að veltast um í berjamó með barnabörnunum.

 

Læt vera að klukka aftur þar sem þetta er viðbótarklukk!!! 

 

 


Hugleiðing

Ég er byrjuð að læra Rope Yoga.  Það kom mér verulega á óvart hve erfitt það er á sama tíma og það er auðvelt.  Hljómar kannski skringilega en það er satt.  Þegar ég hef lært að slaka á á þeim stöðum sem ég á að slaka og láta réttu vöðvana vinna verkin verður erfiðið allt þess virði. Ég vissi ekkert á hverju ég átti von en það er ótrúlegt hvað ég virðist vera að fá betri líðan.  Samt er ég rétt að byrja og hef lítið lært. Einhver sagði, "því meira sem maður lærir í lífinu því betur skilur maður hvað maður kann í rauninni lítið".

Léttirinn við Rope Yoga er það að það er ég sem ræð ferðinni.  Það er ég sem er að læra að beita líkama mínum og vakna til vitundar um hann.  Þess vegna er nánast útilokað að gera eitthvað vitlaust.  Það er örugglega ekkert sérstakur stíllinn hjá mér en á meðan líkaminn liðkast og fær aukinn styrk þá er markmiðið ekki langt undan.  Ef andinn fær meiri styrk og ef ég næ að samhæfa þessa þætti þá er ég í góðum málum.

En þetta er vinna og þetta er erfitt um leið og það er auðvelt.

Svo er gott að fá sér stöku sinnum léttann hádegisverð á eftir í Rope Yogasetrinu. 

Ég vona að ég gefist ekki upp því ég finn að þarna liggja miklir möguleikar fyrir mig.

L-21-2188-villager_pulling_pig_on_rope__tlacotalpan__veracruz_llave__mexico-Z00DADNO

 

Ég er ekki alveg svona en........

--

I have started to learn Rope Yoga.  I think it will help me....

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband