SMJÖRKLÍPUAÐFERÐIN

Það má segja að smjörklípuaðferð Davíðs Oddsonar hafi nýst Bretum við að knésetja Kaupþing.  Þeir gátu með harkalegum aðgerðum sínum og yfirlýsingum dreift huga Breta frá eigin vandræðum.  Bretar höfðu í vaxandi mæli gagnrýnt Gordon Brown og stjórn hans fyrir efnahagsástandið í Bretlandi.

Hverjum ætli Gordon Brown kenni nú um?

Hitt er það að ummæli Davíðs Oddssonar í Kastljósi þess eðlis að við myndum ekki borga skuldir óreiðumanna hafa vafalaust verið kveikjan að harkalegum aðgerðum Breta.  Davíð hefur aldrei verið búsettur erlendis og virðist því skorta skynjun á málefnum í stærra samhengi og nauðsynlegan skilning á því hvernig önnur ríki lifa og starfa.  Davíð hefur á undanförnum árum "skemmt" íslensku þjóðinni með reglulegum uppákomum og yfirlýsingum.  Þessi glannalega og að því er virðist hefndarþyrsta yfirlýsingagleði sæmir ekki seðlabankastjóra á eldfimum tímum í efnahagsmálum.  

Þetta er ekki lengur fyndið! 


mbl.is Breskir bankar yfirteknir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fattaði á leiðinni heim að Davíð Oddsson býr ekki hér....

Ég heyrði fréttir á leiðinni að norðan í dag.  Kjartan Gunnarsson var fokreiður út í Davíð Oddsson á landsfundi Sjálfstæðismanna.  Sagðist ekki una því að vera kallaður "óreiðumaður"!

Ég er líka fokreið út í Davíð Oddsson.  Ég er fokreið út í Gordom Brown og ég er fokreið út í alla þessa nýríku menn sem hafa bruðlað með peningana okkar og offjárfest án fyrirhyggju þannig að við töpum miklu.  Sumir nánast öllu sínu ævistarfi.

Við ræddum þetta fram og aftur hjónin og ákváðum að njóta hvers augnabliks sem við fáum.  Góðu og slæmu.  Við komumst líka að þeirri niðurstöðu að Davíð Oddsson og aðrir þeir sem við erum undrandi á og reið við ættu sitt eigið heimili.   Við þurfum ekki að hafa hann eða aðra inni á gafli hjá okkur daginn út og daginn inn.  

Allra síst Gordon Brown!  Það er alveg nóg pláss fyrir hann í Downingstræti 10.

Það hjálpar mér jafnvel dálítið að biðja fyrir þeim.

--- 

Við vorum á Siglufirði og þar voru menn rólegir yfir málum.  Sögðust ekki hafa tekið þátt í "fylleríinu" en sætu sjálfsagt uppi með einhverja "timburmenn".  Vonandi yrði þetta fárviðri til að jafna kjör landsmanna.   Landsbyggðin kæmist kannski í takt við höfuðstaðinn úr því sem komið væri.

Ég er sammála þessu.  Það var ótrúlega gott að hitta gamla kunningja og sjá æðruleysið og lífskraftinn fyrir norðan. Hvað framtíðin ber í skauti sér verður að koma í ljós og augnablikið er það eina sem við eigum.  

Njótum þess.  InLove 


Norður á morgun

Við skreppum norður á Sigló á morgun. Mamma og pabbi eru að fara í sláturtíðina og ég og önnur kona, hún Sigga, að vitja manna okkar sem voru að sækja bát til Húsavíkur. 

Sá heitir Sigurfari og brann á Skjálfandaflóa nýlega. Við keyptum hann í félagi og kallarnir létu draga hann til Siglufjarðar þar sem hann verður lagfærður í vetur.  

Við eigum því eftir að skreppa norður oftar í vetur og það er bara gaman að hugsa til þess.  

Komum sennilega aftur suður á föstudag eða laugardag.  

Mímí, kisan okkar verður hjá barnabörnunum.  

Það er gott að skapa sér markmið þegar erfiðleikar steðja að og hvet ég alla sem þetta lesa að sinna áhugamálum sínum af æðruleysi hvað sem á dynur.

Verið hughraust kæru vinir, öll él birtir upp um síðir.

 


Hver á að skilja þetta?

Það er skammt stórra högga á milli.  Allt sem virtist á yfirborðinu svo pottþétt var það sannarlega ekki.

Hvers eigum við að gjalda sem stöndum orðvana hjá og sjáum hverja spilaborgina af annarri hrynja? Voru þetta spilaborgir?  Hvar eru nú rök markaðarins?   Hvar er trúin á einstaklingsframtakið og afskiptaleysi ríkisins?Hvar er allt frelsið?

Ég fékk hnút í magann í gærkvöldi þegar ég las um það á mbl.is að Fjármálaeftirlitið hefði tekið yfir stjórn Glitnis eftir að Glitnir leitaði til þess um aðstoð.  Aðstoð við að flýta hluthafafundi og þar með því að samningur ríkisins við Glitni tæki gildi.

Ónot mín snerust um þá frelsisskerðingu að yfirvöld geti gripið inn í atburðarrásina á þennan hátt!  Það kom svona "Rússarnir koma" fílingur sem ég man eftir sem krakki úti á túni heima í sveitinni. Tilfinningin svipuð og  ef einhver sé að gægjast yfir öxlina á þér og skoða hvað þú ert að gera.

Stóri bróðir að fylgjast með! 

Var þetta kannski refsing vegna "óþekktar" Glitnismanna eða var þetta vegna þess að staða bankans hafði hríðversnað frá gerð samningsins sem Fjármálaeftirlitið notaði heimild sína svo skjótt?

Kannski var þetta nauðsynleg aðgerð, kannski ekki.  Kannski var rétt að sprengja blöðruna með þeim hætti sem seðlabankinn gerði í upphafi, kannski ekki?

Við munum aldrei fá að vita það fyrir víst.

Þess vegna er okkur nauðsynlegt að horfa nú fram á veginn og taka til hendinni.   Minnka þannig þann skaða sem samfélagið hefur orðið fyrir eða eins og einhver sagði "back to basic".  

Halda þétt utan um hvert annað og láta ekki breytingar og ónotalegar aðgerðir brjóta okkur niður.

--- 

Pabbi er að velta fyrir sér hvað hann eigi að gera við dollarareikninginn sinn. Á hann að skipta honum yfir í krónur eða láta hann standa.

Kannski væri réttast, í ljósi nýjustu frétta um hugsanlegt "Rússagull", að skipta þeim í rússneskar rúblur!  

Þá er alla vega hægt að segja eins og skáldið "þessi rússneska rúbla er mín, ég er ríkur....o.s.frv.....


Þar small það saman

Það varð að setja sérstök lög til að losa ríkið við skuldbindingar sínar.

Eða hvað þýðir þetta?

Davíð Oddsson sagði í Kastljósi í kvöld að Glitnir yrði hugsanlega ekki til á hluthafafundinum á laugardaginn en ríkið hefur skuldbundið sig til að leggja hlutafé í bankann og eignast þar með 75% í honum.

Vonandi er það rétt hjá Davíð að við réttum fljótlega úr kútnum.

Þetta er að verða alveg nóg í bili!

 

 


mbl.is FME tekur Glitni yfir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Æðruleysi og auðmýkt

Þetta er sorgleg staða og varla að það taki tárum eða sé á bætandi að blogga um.  Þegar tilkynnt var um þjóðnýtingu Glitnis fór skriðan af stað og því miður hefur það kostað þetta.  Ég ákvað strax að láta mitt vera enda ekki með umtalsverðar fjárhæðir inni á reikningum og hugsaði með mér ef allir fara af stað og taka út þá fyrst fer allt til fjandans.

Það er samt eðlilegt að fólk grípi til þeirra ráða þar sem ævisparnaður þess á í hlut.  Þó tel ég að ábyrgð stjórnvalda sé það mikil í þessu máli að þau verði að ábyrgjast allar inneignir í bankanum og tryggja að þær rati rétta leið til eigenda sinna eftir því sem kostur er.

Mér finnst sorglegt að sjá á eftir duglegu fólki úr viðskiptalífinu og það hlakkar ekki í neinum yfir því hvernig komið er.

Svo mikið er víst.  Ingibjörg Sólrún Gísladóttir orðaði þetta svo vel í sjónvarpinu í gær þar sem hún var í örstuttu viðtali, að jafna sig eftir erfiða aðgerð.   Horfast í augu við vandamálið, taka á því af æðruleysi og auðmýkt og horfa bjartsýn fram á veginn.

Takk fyrir þetta Ingibjörg Sólrún og innilegar óskir um góðan bata.  Ég sendi þér góðan hug og þín er minnst í bænum okkar hér að heiman. 

 


mbl.is Reiðir viðskiptavinir Landsbankans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svart er það en sóknarfæri fylgja

Maður er orðlaus eftir daginn og er þá ekki ofmælt!  Allt virðist vera í kalda kolum og óöryggi fólk sést víða. Ég ætla ekki að reyna að segja neitt gáfulegt því mér er orða vant.  Þó get ég ekki annað en reynt að sjá jákvæðu hliðar þessarar holskeflu sem ríður nú yfir heiminn.  

T.d. þá erum við nú farin að tala saman.  Úti í búð velta menn fyrir sér ástandinu og reyna að stappa stálinu hver í annan.  

Talað er um af framámönnum þjóðarinnar að reyna að auka við veiðiheimildir landi og þjóð til góðs og einnig reynir fólk almennt að draga saman í neyslu sinni.

Ég stend sjálfa mig að því að  hugsa á svipuðum nótum og þegar ég var með sex manna heimili og virkilega þurfti að spá í heimilisútgjöld.  

"Ef mig vantaði eitthvað og átti ekki fyrir því þá lét ég mig bara vanta það!"

Þetta sagði góð vinkona mín við mig á þessum árum og ég reyndi að taka þessi orð hennar til fyrirmyndar. 

Við verðum að vera róleg og umfram allt ekki rjúka til og rífa allt okkar lausafé út úr bönkunum og troða því undir koddann.  Þá fyrst syrtir í álinn.

Við verðum að treysta því að það sem stjórnvöld eru að gera nú muni skila okkur í gegn um þetta.

Geir H. Harrde var ekki nærri nógu skýr í ávarpi sínu til þjóðarinnar í dag. Þorgerður Katrín og Steingrínur J. túlkuðu þó ágætlega ræðu forsætisráðherra eftir að hann talaði í "véfréttastíl" til landmanna í dag.  

Ég sakna Ingibjargar Sólrúnar virkilega mikið af sviðinu.  Hún er frábær leiðtogi sem segir skýrt og  á mannamáli hver staðan er.  Ég sendi henni bestu óskir um góðan bata.  


Var þetta grín?

Þjóðnýtinga Glitnis virðist missa marks að þessu sögðu.  Það eina sem var að í Íslensku hagkerfi er samkvæmt þessu fyrirspurn stjórnarformanns Glitnis um hugsanlega aðstoð Seðlabankans við Glitni. 

Já miikið blossaði vandamálið upp á þeim punkti og hefur svo hjaðnað jafn skyndilega.

Trúverðugt?

Almenningur í landinu á betra skilið.  

Það hefur greinilega ekki fundist nein lausn eða ekki náðst samstaða um málið.


mbl.is Ekki þörf á aðgerðapakka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðkvæmt ástand

Þar sem ástandið í efnahagsmálum er svo viðkvæmt dreg ég allar vangaveltur mínar til hlés og hef ákveðið að segja ekkert fyrr en ríkisstjórnin gefur út aðgerðir sínar og annarra aðila sem funda nú stíft um málið. Wink  Sá á kvölina sem á völina.  Þetta blessaða fólk er ekki öfundsvert um þessar mundir.

ESB?

Ég velti því fyrir mér hvort það sé raunhæft af Samfylkingunni að vilja setja umsókn um aðild að ESB á dagskrá nú?

Við höfum ekki tekið umræðuna í alvöru en erum nú komin í aðstæður sem gætu flokkast undir það að við séum neydd til að sækja um aðild?

Hvað höfum við þá á samningsborðinu?  Vandamál?  Brotna krónu? Bilað hagkerfi?

Því miður er ákveðin hætta á því að við séum komin með of mikil vandamál í bili til að það sé raunhæfur kostur að sækja um aðild einmitt núna?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband