Glitnir

Ég fór á dekkjaverkstæði á mánudagsmorguninn til að láta setja heils árs dekk undir fyrir Strandaferðina.  Þar kom inn gamall maður og segist vera með dekkin í bílnum en hann þori ekki að láta skipta um þau strax þar sem hann viti ekki hvort hann eigi fyrir því.  Það sé búið að þjóðnýta Glitni og hann sé einungis með kort þaðan og viti hreinlega ekki hvort hann eigi neitt lengur?  Bankarnir væru allir lokaðir.

Okkur þótti þetta tíðindum sæta og umræður sköpuðust og urðu nokkuð líflegar.  Maðurinn fór en kom að vörmu spori aftur og sagði að þetta væri víst í lagi og að hann ætlaði því að láta skipta um dekkin. 

Umræðurnar í kjölfarið á þessum gjörningi þekkja allir og eru margir þeirrar skoðunar að um of harkalega aðgerð hafi verið að ræða.  Þorsteinn Már Baldvinsson velti upp þeirri spurningu í Kastljósi hvort seðlabankastjóri Davíð Oddsson væri vanhæfur í málinu sökum miður heppilegra tengsla við aðaleiganda bankans Jón Ásgeir Jóhannesson.

Verður nú Landsbankanum færður Glitnir á silfurfati?  Björgólfsfeðgarnir eru "í náðinni" segja sumir.

Er það plottið?  

Valgerður Sverrisdóttir þingmaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi viðskiptaráðherra, benti réttilega á að einungis það að orðrómur um vanhæfi Davíðs væri á sveimi væri grafalvarlegt mál. 

Stefnuræða Geirs H. Haarde í kvöld skýrði málin ekki mikið og ég var sammála Steingrími J. Sigfússyni þegar hann sagðist ekki ætla að eyða orðum í stefnuræðuna þar sem hún hefði ekki sagt neitt.

Davíð Oddsson mætir á ríkisstjórnarfund og stingur upp á þjóðstjórn! Þorgerður Katrín svaraði því skýrt og skorinort að hann væri komin út fyrir sitt verksvið. 

Hvað er í gangi?

Maður hlýtur að spyrja sig hvort svona aðgerðir af hálfu stjórnvalda með Glitni að frumkvæði Seðlabankastjóra séu til þess fallnar að skapa sterkari stöðu?

Skapar þetta ekki meiri óróa en öryggi? 

Mín tilfinning er sú.  

Alla vega ef ég miða við gamla manninn sem vildi vera viss um eiga fyrir því að láta skipta um dekkin hjá sér.


 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigríður Hrönn Elíasdóttir

Það er margt að gerast í pólitíkinni núna. Ég tók líka eftir því að þegar Ingibjörg Sólrún fór í veikindafrí fyrir helgi, þá var tilkynnt að Þórunn Sveinbjarnardóttir væri starfandi utanríkisráðherra, í dag var svo tilkynnt að Össur Skarphéðinsson sinnti embættisstörfum utanríkisráðherra og Jóhanna Sigurðardóttir myndi flytja aðalframsögu Samfylkingar á Alþingi í kvöld. Stóra spurningin er því, af hverju tók Össur við af Þórunni sem starfandi utanríkisráðherra og hvar er varaformaður Samfylkingarinnar Ágúst Ólafur Ágústsson???

Sigríður Hrönn Elíasdóttir, 2.10.2008 kl. 23:27

2 Smámynd: María Pétursdóttir

Já það var kostulegt að hlusta á stefnuræðuna sem stefndi hvorki upp né niður út né suður og það sem á eftir fór, bíð spennt eftir að heyra frá ríkisstjórninni næstu daga, enginn þorir að segja neitt um hvað verið er að gera þar sem krónan tekur kipp við minnstu ummæli.  Mér fannst samt Jóhanna ansi góð með skot á bankastjórana sem hafa þurrausið bankana í spillingunni síðustu árin.  Þeir hafa hegðað sér eins og nýríkir Rússar eða litlir krakkar með stolinn nammipening og ættu að skammast sín.  Ég held líka að Jón Ásgeir sé í raun desperat, sár og svekktur og þá er gott að kenna Davíð um og slá upp einhverjum samsæriskenningum.  Hef enga trú á að ríkisstjórnin láti Davíð teyma sig á asnaeyrunum í þessu máli enda virðast félagar hans í sjálfsstæðisflokknum vera farnir að segja honum að þegja og skipta sér ekki af því sem honum komi ekki við

Forvitnilegt að fylgjast með hvað gerist næstu daga.  Á meðan eldum við bara slátur og njótum kreppunnar  Nei annars þetta er ekkert til að grínast með,  ég þakka Guði fyrir að vera ekki með einhver lán í erlendri mynnt.

María Pétursdóttir, 3.10.2008 kl. 01:46

3 Smámynd: Vilborg Traustadóttir

Já það er ýmislegt í gangi og virðist vera sem ástandið komi mönnum á stjórnarheimilinu gjörsamlega í opna skjöldu!

Veikindi Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur hafa áhrif og eins og það er eins Samfylkingin eigi í einhverjum vandræðum með að fylla skarð hennar meðan hún er fjarverandi.

Ingiibjörg er leiðtogi en góður leiðtogi finnur sér arftaka og einhvern til að leysa sig af.

Eins er alveg efni í heila færslu hvernig Davíð Oddsson kemur fram á sjónarsviðið. Hann skildi Borgarstjórnarflokk Sjálfstæðismanna eftir í mikilli leiðtogakreppu, verður það sama ofan á á landsvísu? Geir H. Haarde er góður stjórnmálamaður en er hann leiðtoginn sem getur tekið við af sterkum karakter eins og Davíð.

Þorgerður Katrín virðist hafa meiri döngun í sér til að leiða flokkinn eins og ástandið er í dag. Fólk vill heyra ákveðin skilaboð frá leiðtogum sínum.

Geir H. Haarde hefur klikkað algerlega á því.

Vilborg Traustadóttir, 3.10.2008 kl. 10:48

4 Smámynd: Hulda Margrét Traustadóttir

Ekki hægt að spá í þetta.

Davíð - ekki hæfur - eitt af bommertunum að hann færi í það starf sem hann er í eins og "plottið" hefur verið á Íslandi í gegn um árin !

Skiljanlegt tel ég að Össur komi í stað Ingibjargar, meiri reynsla og þekking, Geir er aumkvunarverður og veit ekki alveg hvernig hann á að vera.....Mér finnst svarið vera þetta KAOS......og hvernig endar þetta ????

Sem starfsmaður banka var dagurinn í gær skelfilegur - aldrei mundi  ég vilja lifa annan eins dag sem starfsmaður banka.....Skelfilegur dagur fyrir fyrir okkur öll !

Fólk er hrætt og er það nokkur furða ??????

Hulda Margrét Traustadóttir, 5.10.2008 kl. 12:59

5 Smámynd: María Pétursdóttir

Já, ég er sammála Þorgerði Katrínu með að Davíð hafi farið út fyrir sitt verksvið í ummælum sínum um Þjóðstjórn en hann er ekki einu sinni búinn að vera inni á sínu eigin verksviði því Seðlabankinn hefði átt að grípa inn í þessa þróun fyrir löngu.  Og ekki hefði verið verra að hafa Þjóðhagsstofnun gangandi núna á þessum heimskrepputímum en nei Davíð lét leggja hana niður hér um árið.  Mér finnst Geir svo sem ekki búinn að standa sig neitt glimrandi vel í þessu dæmi en þó veit maður ekki hver hefði gert það miðað við aðstæður.  Ef einhver á að segja af sér í þessu máli öllu er það Davíð Oddsson, það virðist sem hann og seðlabankinn hafi bruggðist algjörlega.

María Pétursdóttir, 6.10.2008 kl. 00:19

6 Smámynd: Vilborg Traustadóttir

María þetta er nokkuð rétt hjá þér. Nú bið ég Björgólfsfeðga afsökunar á því að hafa sett þetta fram hér að ofan, það var þá Kaupþing sem var"í náðinni" eftir allt en hinir "látnir rúlla, alla vegana Landsbankinn.

Skamm!

Vilborg Traustadóttir, 7.10.2008 kl. 13:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband