Framsóknarmenn hafa enga útgeislun

Ég þurfti að fara í Griffil í dag.  Þegar við mamma skundum að dyrunum stendur þar maður utan við rafdrifna hurðina sem opnaðist ekki fyrir honum. 

"Hva er lokað hér líka"? sagði ég komandi úr BT.

Maðurinn kvað nei við.

"Ekki ertu framsóknarmaður" spurði ég?

Mamma "hneggjaði" kurteisislega á bak við mig. 

Maðurinn leit undrandi á mig og spurði á móti "hvernig vissir þú það"?

Mamma "hneggjaði" aftur. 

"Engin útgeislun" svaraði ég og bætti við "svona rafdrifnar hurðir opnast þar af leiðandi ekki fyrir framsóknarmönnum".  (Ég held hann hafi ekki heyrt þetta með engin útgeislun).

Ég gekk síðnan að hurðinni sem opnaðist viðstöðulaust.

"Fyrir hvað á ég að vorkenna þér"? spurði maðurinn þá og átti sennilega við fyrir í hvaða flokki ég væri öðrum en Framsóknarflokknum.

"Ekki fyrir nokkurn skapaðan hlut" svaraði ég að bragði, "þú sérð það að allar dyr standa mér opnar"!!

Mamma "hneggjaði" ánægjulega. 

Á leiðinni inn í búðina útskýrði ég fyrir honum söguna á bak við kenningu mína en þannig er að framsóknarmaður nokkur, mjög mætur, vann með manninum mínum.  Í fyrirtækinu var rafdrifin hurð sem opnaðist aldrei fyrir honum en opnaðist þó fyrir öllum öðrum.

Gárungarnir á vinnustaðnum voru fljótir að láta hann heyra það að þetta væri vegna þess að það væri engin útgeislun frá framsóknarmönnum.

Ég áréttaði þó ekki þetta með enga útgeislun svona til að fyrirbyggja móðgels af hálfu þessa stórmyndarlega manns.

Þegar við höfðum lokið erindi okkar hafði ég misst sjónar á framsóknarmanninum svo ég bauð honum ekki að fljóta með okkur mömmu út fyrir þröskuldinn.  Blush

 

 

 

 


Krafa um afsögn dómsmálaráðherra

Hópur sem kallar sig "raddir fólksins" krafðist afsagnar dómsmálaráðherra í dag.

Hrun bankanna tekur sífellt á sig nýjar myndir.  Ljóst er að afsaga sífellt fleiri verður krafist því lengra sem líður án þess að neinn axli sín skinn.

Hvernig væri að einn eða tveir ráðherrar og einn eða tveir embættismenn segðu nú af sér?

Burtséð frá sekt eða sakleysi.

Að bera ábyrgð og fá greidd laun fyrir að bera ábyrgð þýðir líka að þegar trúnaðartraust bregst þá ber þeim að víkja.

Ekkert kjaftæði! 

 


mbl.is Raddir fólksins hjá saksóknara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stekkjastaur kom fyrstur....á morgun....

 

Stekkjastaur kom fyrstur, 
stinnur eins og tré. 
Hann laumaðist í fjárhúsin 
og lék á bóndans fé. 

Hann vildi sjúga ærnar, 
-þá varð þeim ekki um sel, 
því greyið hafði staurfætur, 

-það gekk nú ekki vel.  

 

  (Jóhannes úr Kötlum) 


Rannsóknarhagsmunir

Þetta eru orðnir fremur rýrir hagsmunir okkar megin.  Peningalegir hagsmunir eru Luxemburgar og Belgíu. Okkar eru rannsóknarlegir hagsmunir.  Þó má ekki gera lítið úr þeim hagsmunum sem geta skipt miklu varðandi bankahrunið.

Það verður að kryfja þessi mál ofan í kjölinn en spurningin er hvernig það verður hægt meðan lög Luxemburgar halda slíkri verndarhendi yfir bönkunum að ekki virðist unnt að fá gögn um starfsemi bankanna eða háttarlag stjórnenda hans og starfsmanna.

Ég vona svo sannarlega að Björgvin standi fast á þessu en verði ekki að éta yfirlýsinguna ofan í sig eins og forsætisráðherrann varð að gera í Ice-save málinu.

 

 


mbl.is Kaupþing í Lúx ekki selt nema gögnin fáist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Landsbankinn ekki á flæðiskeri staddur.....eða?

 Mig langar að vekja enn og aftur athygli á frábæru framtaki konu sem fékk skófarið á afturendann hjá Landsbankanum á Akureyri hálfum mánuði eftir hrun bankans.

http://maggatrausta.blog.is/blog/maggatrausta/ 

Hún lagðist undir feld og eftir viku í vanlíðan. þunglyndi og því sem fylgir svo snöggum atvinnumissi fékk hún þá hugmynd að opna eins konar Kolaport norðursin.  Sem sagt Norðurport. 

http://nordurport.is/

Þetta uppátæki hennar hefur svo sannarlega mælst vel fyrir og var troðfullt út úr dyrum opnunarhelgina sem var s.l. helgi og það en nánast fullbókað um helgina sem er að koma (13. -14. des) þó eitthvað sé hægt að bæta við á sunnudaginn. 

Þarna er allt mögulegt á boðstólum og bætist sífellt við flóruna.  Þarna er kjörið tækifæri fyrir einstaklinga og fyrirtæki að koma sér á framfæri, kynna sína vöru og selja.

Þetta víkkar sjóndeildarhringinn og ýmislegt sem mann hefði ekki órað fyrir að væri verið að sýsla við í höndunum kemur þægilega á óvart. 

Það er gaman að koma saman og spjalla um daginn og veginn.  Þetta rýfur einangrun einyrkjanna sem hafa kannski ekki haft mörg tækifæri til að koma sér og sinni framleiðslu hver svo sem hún er á framfæri.  

Nú horfi ég "brostnum augum" í kring um mig hér heima á málverkin sem ég hef málað og hafa staflast upp.  Kannski skelli ég mér með þau í Norðurport?  Við höfum svo sem rætt það systurnar.  Ég lít á mákverkin mín sem alþýðulist og því ekki að kanna möguleika á að fólk fái notið þeirra gegn um þann vettvang?

Mikill og góður rómur hefur verið gerður að þessu og menn láta ýmislegt flakka eins og einn sem sagði við þessa kjarnakonu, "mikið lifandis skelfingar ósköp eru þeir vitlausir í Landsbankanum að hafa sagð þér upp"!! 

Ég segi banki sem hefur efni á að missa þvílíkan starfskraft úr sínum röðum er varla á flæðiskeri staddur?

Eða?? 

 

 

 

 



Aðventan í kreppu

Í dag eru tvær vikur til jóla.

Ég er ekki búin að skrifa á jólakortin þó ég hafi búið sex kort til í gær á jólaföndurkvöldi hjá bróður mínum og konu hans.

Í fyrra var ég bún að senda þau öll um þetta leyti. 

Ég er ekki búin að kaupa jólagjafirnar.

Í fyrra var ég búin að pakka þeim öllum inn 10. desember.

Ég er ekkert búin að baka annað en flatkökurnar til jólanna núna.

Í fyrra var ég í gírnum að baka smákökur um þetta leyti.

Ég fékk barnabörn í heimsókn um helgina, þess vegna er ég búin að skreyta núna og er heldur fyrr búin að því en í fyrra.

Ég finn að ég er öll afslappaðri í ár og það liggur ekki eins mikið á og stundum áður.  Það er allt í lagi þó það verði ekki allt fullkomið um jólin enda aðalatriðið að láta sér líða vel og reyna að stuðla að því að fjölskyldunni líði vel líka.

Eins og maður reynir reyndar allan ársins hring.Joyful

 

 


Jólasveinar til alls vísir.....

Ég ætla rétt að vona að maðurinn sleppi þessu með að fá sér haglabyssu til að þrusa á gervijólasvein.

Þegar það er haft í huga hve margir jólasveinar fyrirfinnast í Íslensku stjórnkerfi gæti það reynst hættulegt fordæmi.

Í guðanna bænum elskið friðinn og umfram allt ræðið saman.

Kannski væri hægt að fá umræddan jólasvein til að hvíla sig yfir blánóttina!

Það er meira en hægt er að ætlast til að þeim jólasveinum sem stjórna landinu. 


mbl.is Jólasveinar valda deilum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heja Norge

Það er gaman að lesa svona frétt þar sem sannur vinaandi ríkir.  Fölskvalaus löngun til að láta gott af sér leiða.

Meðan nágrannar okkar eru svona þenkjandi getum við verið bjartsýnni en ella.

Við eigum að temja okkur þakklæti Íslendingar.

Þakklætið er móðir svo margra góðra tilfinninga. 

 

 


mbl.is Herferð fyrir Íslendinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta mál - hrun fiskistofnanna?

Þeir sem hafa gaman af því að mála skrattann á vegginn (eins og ég) gætu lagt þetta út á versta veg.

Það er alvarlegt mál hvernig síldarvertíðin er hrunin að mestu leiti vegna sýkingar og ekki lagast það ef fleiri fiskistofnar fá sömu útreið.

Hvað er það í umhverfinu sem veldur?

Er þetta sama ástæða og varð til þess að síldin hvarf á sínum tíma?

Er þetta hlýnun sjávar?

Er þetta mengun?

Við höfum enga þörf fyrir frekari skakkaföll hér á Íslandi.

Vonandi breiðist þessi sýking ekki frekar út og hættir að herja á fiskistofnana okkar.

Það verður að rannsaka þetta eftir föngum og freista þess að komast að ástæðunni og sporna við eins og hægt er.

Sumir vilja meina að það eigi að veiða linnulaust í bræðslu þar sem síldin drepst hvort eð er. 

 

 


mbl.is Ýsa greindist með sömu sýki og síld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki bíta bara rífa kjaft

Það fer út í öfgar þegar mótmælendur eru farnir að bíta.  Í því er ég sammála Össuri sem kemur sterkur út úr þeim viðtölum sem ég hef séð hann í síðan ósköpin dundu yfir.

Ég vona að lögreglukonan frænka mín hressist fljótt eftir bitið en það er áfall að verða fyrir þessu.  Störf eru svo mismunandi og við verðum að virða fólk sem er að störfum í almanna þágu hvort sem okkur er heitt í hamsi eða ekki.

Það er stutt í að mál fari úr böndunum þegar gripið er til svo róttækra aðgerða sem að hlaupa gargandi inn í Alþingi Íslendinga.

Áhrifameira væri að standa steinþegjandi fyrir utan húsið. 

Ekkert réttlætir ofbeldi. 

 


mbl.is Mótmælendur eiga ekki að bíta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband