Færsluflokkur: Ljóð

Tálmynd

  

Ég varð ástfangin

af tálmynd

 

Sem enginn sá

nema ég

 

Skekkjumörkin

einhverjir áratugir

 

aftur á bak

og áfram

 

Skiptir ekki máli.

 

Þú ert..

ég er...

 

Við vorum.....

 

 

       Vilborg Traustadóttir


Eru lykkjurnar í lagi?

Þegar ég og Kristín vinkona vorum á Hornbjargsvita var okkar sárt saknað af samstarfsmönnum í Sigló Síld.  Vélstjórinn sem var þó þegar þetta var farin að vinna hjá SR sendi okkur vísu gegn um loftskeytastöðina.
---
Ég óttast um ykkar hagi
einnig mittin fín.
Eru lykkjurnar í lagi
elsku ljósin mín?
A.R.
---
Við svöruðum um hæl.
---
Enn eru lykkjur í lagi
og ljúf hver óspillt sál
en vappi hér varðskipagæji
við blasir annað mál.
---
Svo bættum við um betur og sendum gegn um loftskeytastöðina.
---
Með ástarblossa við yrkjum þér ljóð
og ætlum því ferð gegn um stormanna geim.
Þó kosti það oss bæði svita og blóð
við berjumst með ósnerta gormana heim.
---
LoL

Hornbjargsviti

HornbjargsvitiÉg og vinkona mín Kristín, gerðumst eitt sinn aðstoarvitaverðir á Hornbjargsvita.  Hjá Jóhanni Péturssyni.  Við vorum atvinnulausar en það var stopp í Sigló Síld þar sem við unnum.  Pabbi var eitt kvöldið að tala við Jóa í talstöðina.  Ég vissi að hann var ekki með aðstoðarmann þá en frænka hans sem hafði aðstoðað hann var nýfarin suður.  Ég bað pabba að spyrja Jóa hvort hann vantaði ekki aðstoðarvitaverði, við myndum skipta laununum.  Jói sagði já.  Við fórum með varðskipinu Óðni frá Reykjavík um mánaðamótin sept-okt sennilega 1977 eða '78.  Vorum einn og hálfan mánuð.  Varðskipsmenn tóku okkur vel og voru mjög herralegir við okkur. Eitt sinn um miðbik tímans komu þeir með kost að Hornbjargsvita.  Þeir lögðu skipinu inni á Hornvík og gengu yfir bjargið til okkar um klst gang.  Við tókum þeim með kostum og kynjum og m.a.spiluðum við vist við þá alla nóttina uppi í hjónarúminu sem Jói hafði úthlutað okkur vinkonum.  Þegar þeir svo fóru orti ég ljóð sem fer hér á eftir.  Ljóðið lét ég þá hafa þegar þeir svo sóttu okkur um miðjan desember.  Þá gengum við einnig yfir í Hornvík þar sem það var ekki lendandi við Hornbjargsvita. Það er önnur saga en hér kemur ljóðið.
---
Þið hurfuð í húminu
burt
úr  hlýju rúminu
hvurt?
Finnst ykkur þetta freklega
spurt?
---
Við  blikkuðum báðum
augunum.
Með tárum það tjáðum
draugunum
Nú  titrum við allar
á taugunum.
---
Í sakleysi okkar spiluðum við ykkur
vist
og rökkursins skyldunum skiluðum ykkur
af list.
Nú hafið þið drengir á Hornbjargi
gist.
---
Þið hurfuð í húminu
burt.
Úr hlýju rúminu
hvurt?
Finnst ykkur þetta freklega
spurt?

Legsteins vísa

Íslendingur ég
altaf var

-

Þó ég flæktist
hér og þar 
-
Hér eru grafin mín
bein og hold
- 
Verður úr því

Íslensk mold

-

                 Magnús H. Magnússon (Maggi frændi)

Gyðingadrengurinn

Ég hélt í fanginu frumburðinum
fallegum gyðingadreng.
Var rekin á eftir öllum hinum,
öll vorum lamin í keng.
Andskotans böðlarnir glottandi gengu
um grátandi hjörðina kring.
Þeir sem reyndu flótta fengu
í fæturna byssusting.
-
Við vorum öll á gasklefagöngu
gyðinga vesöl þjóð.
Þeir vissu'aldrei mun á réttu'eða röngu
þótt rynni um þá okkar blóð.
Þótt barnanna saklaust brysti auga
böðlarnir tóku því létt.
Að lokum var okkur hent í hauga
sem hundum af óæðri stétt.
-
Með lokuð augu ég læt mig dreyma
lífsins huldumál.
Fargrar vonir sem fæddust heima
fögnuðu hverri sál.
Nú sé ég aðeins sundraðar borgir
saurlifnað hvar sem er.
Hjörtu Gyðinga hrópa sorgir
um helvítis sali hér.
-
Drengurinn grætur og biður um brauð
sem bannfærðir geta'ekki veitt.
Ætli hún verði' ekki æskan þín rauð
er fjendurnir hafa þig deytt.
Hér bíður þín aðeins biksvartur dauði
blandaður lífsins von.
Hér færð þú guð hina svörtu sauði
senda frá Þýskalandsson.
-
Samt reyni' ég að vernda vininn minn
og vef honum þétt upp að mér.
Ef til vill sleppur þú anga skinn
ef til vill blasa við þér.
Framtíðarborgir fallegar
feigðin þótt hremmi mig.
Við gröft okkar starfa Gyðingar
gráta og kyrkja þig.
-
             Vilborg Traustadóttir

Ásta Lovísa

Mig dreymdi mikinn draum:Ég stóð
með Drottni háum tindi á
og horfði yfir lífs míns leið,
hann lét mig hvert mitt fótspor sjá.

Þau blöstu við. Þá brosti hann.
,,Mitt barn, hann mælti ,,sérðu þar,,
ég gekk með þér og gætti þín,
í gleði og sorg ég hjá þér var.

Þá sá ég fótspor frelsarans
svo fast við mín á langri braut.
Nú gat ég séð hvað var mín vörn
í voða,freistni, raun og þraut.

En annað sá ég síðan brátt;
Á sumum stöðum blasti við
að sporin voru aðeins ein.
-Gekk enginn þá við mína hlið?

Hann las minn hug. Hann leit til mín
og lét mig horfa í augu sér;
,,Þá varstu sjúkur blessað barn,
þá bar ég þig á herðum mér,, 

Ort af Sigurbirni Einarssyni
Ég var að lesa síðuna hennar Ástu Lovísu og fann þetta ljóð eftir Sigurbjörn Einarsson í einu af þúsundum kommenta við frétt af andláti hennar. Það er gott að lesa um þann hug sem hún hefur kveikt með skrifum sínum og æðruleysi. Þakklætið sem er móðir svo margra góðra tilfinninga er mér efst í huga þegar ég hugsa til þessarar konu sem ég ekki þekkti fyrir utan bloggið hennar.
Megi algóður Drottinn styrkja börn hennar og fjölskyldu og bera þau á herðum sér á þeim erfiðu tímum sem þau nú upplifa.

Fjórða sporið

Ég gerði

reikningsskil

í mínu eigin

lífi.

 

Rækilega

og  óttalaust

 

Það var

nefnilega

hvergi sagt

eða skrifað

 

að ég ætti

að gera

reikningsskil

 

í lífi

annarra.

 

 

             Vilborg Traustadóttir


Last dans

Það er síðasti dansinn
á djamminu.
-
Djöfull er ég þreytt
á þessu.
-
Þú sem nennir ekki
einu sinni að dansa
dansar samt.
-
Eins gott að þetta sé
last dans.....
-
           Vilborg Traustadóttir

Svertingjahatur

                  

Ég velti fyrir mér

mannlífi okkar.

 

Svertingjahatri

til dæmis.

 

Ég ræddi við mann

sem senda

vill svarta

í sérstaka álfu

og loka á milli.

 

Þetta var bóndi

með búfénað mikinn.

 

Hann horfði á mig hissa

þegar leist mér að spyrja.

 

Hvort svartar rollur

væru verri

en hvítar?

 

 

              Vilborg Traustadóttir

   

 


Í svörtum mekki

Í svörtum mekki
situr maður
sem ég þekki
ekki...........
      Vilborg Traustadóttir

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband