Færsluflokkur: Ljóð

Hjarta

 

Hnaut

um lífsins

bjarta

 

huldu-

mál

 

Hjarta

kallar á

hjarta

 

Sál

á

sál

 

 

                      Vilborg Traustadóttir


Skýin

Skýin voru

svo krúttleg í dag

að ég málaði þau.Súlur 2007

-

(Magga systir sagði

Þegar hún kom

frá því að viðra Dalí

þetta er eins og

Luisa!)

-

Ég tróð skýjunum

milli fjallanna

og dreifði þeim

um himininn.

-

Prakkaraleg skýin

píndu mig

til sagna.

 

               Vilborg Traustadóttir

PS.  Bætti myndinni við á því stigi sem hún var þegar ljóðið var ort.  Þetta eru Súlur séðar með mínum augum og skýin sömuleiðis.  Af svölunum hjá Möggu systir....Cool


Í fjörunni

Við sátum í fjörunni

föðmuðumst og þú sagðir

ég elska þig.

-

Eins og afvopnaður

sál þín nakin

í hendi mér.

 -

Brimið lagði áherslu

á orð þín

sem ég heyrði þó ...

..ekki...þá.........

 

 

                          Vilborg Traustadóttir

 

 

 


Smart!

Smart!Strandir 2007 054

 

Hvernig áin

liðast niður fjallið

í mörgum lækjum.

 

Eftir fallið

með fossinum

Eiðrofa.

 

Uppi gráta skýin

þurrum tárum

en sjórinn

bíður átekta

við ósinn.

 

Eiðrofi

sem aldrei sefur

safnar tárum

 

Safnar þurrum tárum.

 

 

 

 

                   Vilborg Traustadóttir


Þar og hér

  

Þarna situr þú

og hér ég.

 

Fossinn dettur

niður af

fjallinu.

 

Ég hugsa

um

blómin og grösin

og fólkið

í fjörunni.

 

Finn þér leiðist

og ferð inn

aftur...
    Vilborg Traustadóttir

Ég er.....

Ég er djöfull sem drottnandi leikur
ég er dalbúans logandi tindur.
Ég er fjandinn sem fjölkyngið eykur
ég er fersk eins og norðursins vindur
-
Ég er lognmolla, læða frá dölum
ég er lemjandi stórhríð á glugga.
Ég er dyggðin í sólbjörtum sölum
ég er syndin í fölbláum skugga.
-
Ég er allt sem að einn getur fundið
á alheimsins skínandi degi.
Ég er norn sem að næring hef undið
úr nafnlausu spori á vegi.
-
Ef að þú eitthvert sinn skilur
þá ást sem í döflum er bundin
mun hinn sjóðheiti, síkaldi bylur
sig vefja um eilífðarfundin.
        Vilborg Traustadóttir
-
Þetta rifjaðist upp fyrir mér við lestur þessarar fréttar.  Þetta er úr lengra kvæði eftir mig og ég mun grafa það uppi með aðstoð fjölkynginnar Wizard og birta síðar....
--
Það er virkilega vel þess virði að skoða Galdrasýninguna á Hólmavík.  Ég er að fara á Strandirnar á þriðjudaginn og ætla þá að láta verða af því að skoða Kotbýli kuklarans í Bjarnarfirði.  Ég verð í Djúpuvík og ef þið bloggvinir góðir eruð á ferðinni þarna þá komið þið að sjálfsögðu í kaffisopa til okkar!!!!

mbl.is Galdramenn á Ströndum láta nútímagaldra lítt til sín taka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Moldin

 

Hérna í moldinni

líður mér vel.

Teygi mig í arfakló

slít hana upp

 

Svo kálið

fái vaxið

og vermi pottana

í haust.

 

Gref tærnar

ofan í

mjúka, raka

moldina.

 

Kannski spretta

fleiri tær

ef ég bíð

nógu lengi?

 

Nei annars

þetta er

alveg nóg

af tám.

 

Og moldin

hefur alveg nóg

með sig

og sína.

 

En ég

fer í fótabað

í mosagrænu

vaskafati.Wink

 

 

             Vilborg Traustadóttir


Fimmta sporið

Ég játaði
yfirsjónir mínar
fyrir Guði
sjálfri mér
og trúnaðarkonunni.
-
Undanbragðalaust!
-
Eins vel
og ég mundi.
-
Ég man
nefnilega
ekki allt!
-
En ég man
samt nóg.....
-
             Vilborg Traustadóttir

On and off

 

Ég sest við tölvuna

ýti á on.

Blaðra heil ósköp

en segi ekkert

sem skiptir máli

 

Nema  kannski

það sem þú

lest milli línanna.

 

Þá ýti ég

á off.

 

 

    Vilborg Traustadóttir


Sá rétti?

 

Á helgum stað

milli ástar og ótta

stóð vonin

 

Veifaði til mín

lyklakippu

 

Einn lykillinn

gekk að hjarta þínu

 

Ég vissi ekki

hver?

 

 

        Vilborg Traustadóttir


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband