Gyðingadrengurinn

Ég hélt í fanginu frumburðinum
fallegum gyðingadreng.
Var rekin á eftir öllum hinum,
öll vorum lamin í keng.
Andskotans böðlarnir glottandi gengu
um grátandi hjörðina kring.
Þeir sem reyndu flótta fengu
í fæturna byssusting.
-
Við vorum öll á gasklefagöngu
gyðinga vesöl þjóð.
Þeir vissu'aldrei mun á réttu'eða röngu
þótt rynni um þá okkar blóð.
Þótt barnanna saklaust brysti auga
böðlarnir tóku því létt.
Að lokum var okkur hent í hauga
sem hundum af óæðri stétt.
-
Með lokuð augu ég læt mig dreyma
lífsins huldumál.
Fargrar vonir sem fæddust heima
fögnuðu hverri sál.
Nú sé ég aðeins sundraðar borgir
saurlifnað hvar sem er.
Hjörtu Gyðinga hrópa sorgir
um helvítis sali hér.
-
Drengurinn grætur og biður um brauð
sem bannfærðir geta'ekki veitt.
Ætli hún verði' ekki æskan þín rauð
er fjendurnir hafa þig deytt.
Hér bíður þín aðeins biksvartur dauði
blandaður lífsins von.
Hér færð þú guð hina svörtu sauði
senda frá Þýskalandsson.
-
Samt reyni' ég að vernda vininn minn
og vef honum þétt upp að mér.
Ef til vill sleppur þú anga skinn
ef til vill blasa við þér.
Framtíðarborgir fallegar
feigðin þótt hremmi mig.
Við gröft okkar starfa Gyðingar
gráta og kyrkja þig.
-
             Vilborg Traustadóttir

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vilborg þú ert listaskáld! Frábært ljóð hjá þér ásamt reyndar fleirum hér á síðunni. Hefurðu velt fyrir þér útgáfu á ljóðunum þínum?

Drífa Þöll (IP-tala skráð) 18.6.2007 kl. 20:49

2 Smámynd: Vilborg Traustadóttir

Takk Drífa.  Já það er alltaf í bígerð að koma saman kveri.  Vantar bara að koma sér að verki.

Vilborg Traustadóttir, 19.6.2007 kl. 21:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband