Palla er ekki til

Sonarsynir mínir voru hjá mér í dag. Eða tveir af fjórum mögulegum.   Sá eldri pælir dálítið í dauða Pöllu, kisunnar okkar sem datt fram af svölunum og dó í kjölfarið.  Hann kom upp með það af og til að Palla væri dáin.  Svo sagði hann "nú er Palla ekki til!  Ég sagði við hann að það væri rétt en nú væri hún sennilega farin í himnasveitina þangað sem önnur dýr sem deyja fara.  Þar sem þau lékju sér saman og liði vel.  En kemst hún þá aftur hingað?  Nei sennilega ekki var máttleysislegt svarið en vonandi líður henni vel þar sem hún er."   Þetta eru erfiðar pælingar fyrir fjögurra ára gutta og ég man mínar vangaveltur sem barns yfir eilífðarmálunum og hvað tæki við.  Hvort eitthvað tæki við o.s.frv.  Ég man þegar ég var að staðsetja mig í alheiminum og fór að hugsa um hve lítil ég væri nú í öllum þessum heimi.  Þá helltist yfir mig slík skelfing að ég hljóp í einum spretti heim til mömmu og var sannfærð um að ég væri að deyja.  Ég var 9-10 ára þegar þetta var.  Mamma leitaði með mig til læknis og ég fékk einhverjar taugapillur sem ég var látin taka þegar þetta kom yfir mig.  Held ég hafi nú ekki tekið margar þeirra.  Seinna tók systir mín allar pillurnar mínar inn  m.m. en sem betur fer var hægt að koma henni á sjúkrahús og dæla upp úr henni.  Það þurfti þó að opna veginn sem var ófær þegar þetta gerðist.  Á meðan það var mokað var beljan mjólkuð og dælt ofan í hana volgri mjólk.  Systir mín hafði ætlað í partý en foreldrar okkar bönnuðu henni að fara.  Ég hélt hún hefði tekið pillurnar til að komast í bæinn!  Hvað um það þetta fór vel hjá henni en hún var þegar þetta gerðist nýbúin að missa vinkonu sína með þessum sama hætti.  Þessi örstutta upprifjun minnir mig á hve stutt er á milli feigs og ófeigs.  Mér finnst gott að minna mig á það og vera eins góð manneskja og ég get í dag því enginn veit hvað morgundagurinn ber í skauti sér.

Áttunda sporið

Ég skráði

í huganum

yfirsjónirnar

 

Ég sagði

fyrirgefðu

þar sem það

átti við

 

Faðmlag eða

hljóð bæn

getur hjálpað

 

Stundum er betra

að bíða

átekta

 

og vona

 

 

                  Vilborg Traustadóttir


Detox í Póllandi

Er að ganga frá ferð til Póllands þann 29. september n.k.  Ég fór þangað ásamt vinkonu minni í janúar á þessu ári og þvílík heilsulind!  Ég ákvað að fara þangað og halda upp á 50 ára afmælið þar.  Það væri besta afmælisgjöf sem ég gæti fengið.  Maðurinn minn var sammála og gaf mér ferðina.  Skömmu eftir að ég kom heim var tengdapabbi hjá augnlækni.  Hann sagði honum að það hefði verið erindi í útvarpi eða blöðum þar sem fram kom að það besta sem hægt væri að gefa fimmtugum í afmælisgjöf væri ristilspeglun.  Það þætti bara ekki nógu fínt að gefa það.  Hins vegar væri það oft um fimmtugt sem ristillinn færi að sýna einkenni sem fylgjast þyrfti með. 
Í Póllandi byggist meðferðin á föstu í tvær vikur.  Það eru eingöngu innbyrtar 600 hitaeiningar á dag og þar eru grænmeti og ávextir uppistaðan. Daglegt nudd,  teygjuæfingar úti í skógi, gönguferðir, sund og sundleikfimi, leikfimi í sal og tækjum, slökun, gufuböð o.s.frv. í tvær vikur.  Lestur góðra bóka, sjónvarpsgláp að ógleymdum trúnó samtölum, sérstaklega í gufunni.  Það er eins og gufan opni fyrir allar gáttir í þeim efnum og lokar fyrir áframhaldandi kjaftagang um leið og maður fer úr henni.Wink Svo er boðið upp á snyrtingu á stofu og fór ég í hand og fótsnyrtingu ásamt andlitssnyrtingu.  Þetta var algert dekur og heilsan tekin föstum tökum um leið.  Ég hlakka til að láta heisuna hafa forgang aftur í tvær vikur og mun halda mér við efnið áfram eins og ég hef gert að miklu leyti síðan ég fór síðast.Pólland 034
Hér er mynd af mér og hinum "illræmda" Boris sem sá um stólpípumeðferðir á heilsuhótelinu.  Þegar maður er kominn á staðinn og búin að fræðast um málin er ekki spurning um að taka allann pakkann og Boris með!  Það er gífurlegur léttir að losna við alla "vasana" og aukalegar harðar kúlur sem veltast um í ristlinum og líkaminn hefur ekki bolmagn til að losa sig við án utanaðkomandi aðstoðar.  Maður var hreinlega "full of shit" ....Smile

Kona aðgerðanna

Ég er kona aðgerðanna. Ekki í eiginlegri merkingu þess orðs.  Þ.e.a.s. ég er ekki mikið í læknisaðgerðum (7,9,13).  Heldur er það að þegar ég lendi í vandamálum og mótlæti tekst ég á við það með aðgerðum.  Ég missti kisuna mína eins og ég hef sagt ykkur frá.  Ég er búin að vera mjög niðurdregin síðan.  Hún var fósturdóttir mín.  Ég ól hana fyrstu dagana meðan mamman jafnaði sig eftir keisaraskurðinn.  Lét hana pissa og gaf henni dósamjólk. Svo deyr hún með svona vofeiflegum hætti.  Hún var blönduð af Bengalakyni.  Hafði blandast við íslenska ketti.  Hún hafði sterk Bengala einkenni.  T.d. hafði hún rafgul augu og hvíta silfurþræði í feldinum.  Þessa loftkenndu þræði. Nema hvað að eftir tvo daga í sorg og sút sendi ég rafpóst til Ólafs í Nátthaga sem ræktar Bengal ketti.  Spyrst fyrir um kettina.  Átti leið framhjá Nátthaga sama dag og afréð ásamt samferðafólki að kíkja við og athuga með kettina.  Spyrjast fyrir um hvort hægt væri að fá að sjá kettlinga sem væru hugsanlega til sölu.  Ekki síst eftirlifandi kisunnar vegna sem er auðvitað mjög einmana.  Við hittum á Ólaf í gróðurhúsi og ég bar upp erindið.  Skipti engum togum að ég fékk langan fyrirlestur um þá ósvífni að ryðjast svona inn og "ætlast til" að fá að sjá kettina undirbúningslaust.  Við sjötluðum málið og sögðum eins og satt var að ég hefði sent póst um morguninn og ákveðið svo að koma við þar sem ég átti leið hjá.  No big deal!  Við fórum svo strax og án þess að fá að sjá ketti enda engin aðstaða til þess að okkur skildist.  Einhverjir rafpóstar fóru okkar á milli í kjölfarið og ætla ég nú ekkert að rekja þá frekar hér.  Það er lengi von á einum hugsaði ég nú bara með mér og endaði þessi samskipti með kurt og pí.  Það kom fram í rafpóstunum að hann selur kettlingana vanaða á 95.000 krónur.  Það finnst mér ekki ásættanlegt.  Ég þekki ekki til þess í neinni ræktun að ræktendur geti áskilið sér rétt til að vana dýrin og selja þau svo á fullu verði. Þannig að ég mun una glöð með þeirri einu kisu sem eftir er á heimilinu og leyfa henni bara að heimsækja aðra ketti eftir efnum og ástæðum en hún er innikisa þar sem við búum svo hátt uppi.
--
Góðu  fréttirnar eru þær að svo lengi lærir sem lifir!!!!!

Sjöunda sporið

 

Eftir að hafa

meðtekið

boðskapinn

bað ég.

 

Í auðmýkt

til guðs.

 

Að hann

losaði mig

við brestina.

 

Og bíð nú

svara.

 

 

                Vilborg Traustadóttir


Göngutúr með Mímí

Fór með Mímí í beisli út áðan.  Gengum kring um blokkina og yfir á bókasafn.  Mími var ótrúlega góð og lét vel að stjórn miðað við kött sem venjulega fer sínar eigin leiðir.  Hér fylgir með mynd af kisunum. Hún er tekin 2006. Palla er þessi gula. 2006 085

Sorgarferli

Hver hefði trúað að það væri hægt að sakna einnar kisu svona mikið?  Auk þess kisu sem var alger "ljóska"!!!! Við Mímí eigrum um íbúðina.  Hún leitar, ég segi hanni að það þýði ekkert að leita.  Tek hana upp og við huggum hver aðra.  Mímí er kisa sem vill láta lítið fyrir sér fara.  Palla var "hér er ég" týpan.  Þær voru góðar saman.  Nú verðum við að finna nýja rútínu.  Kannski fer ég að labba með Mímí í beislinu sínu stuttar gönguferðir? Ég beislaði þær gjarnan á svölunum þegar þær voru þar úti.  Svo fór ég að leyfa þeim að vera með mér úti.  Þær virtust höndla það en ég var alltaf hrædd um þær.  Svo leit ég af þeim, fór inn og Palla fór fram afFrown.  Hefur ábyggilega verið að elta flugu og gleymt sér.  Það var mikið af flugu úti þennan dag.  
Fer í klippingu á eftir og svo í matjurtagarðana með mömmu og pabba að taka upp grænmeti.  Kannski tek ég Mímí með í beislinu sínu?  Henni finnst gott að fá gras.

13.ágúst

Pabbi á afmæli í dag.  Hann er 89 ára kallinn.  Heldur upp á það með pizzu-partýi norður á Sauðanesi. Ég hringdi í hann í morgun tl að óska honum til hamingju með daginn.  Hann var bara hress en sagði fremur svalt fyrir norðan. 
--
Önnur kisan okkar hún Palla dó í dag.  Var að leika sér úti á svölum þegar ég brá mér inn.  Hún datt niður og dó af völdum áverkanna.  Við búum á 9. hæð. Það er sárt að sjá á eftir svo sérstökum ketti sem hún var.  Ég brunaði með hana beint upp á Dýraspítalann í Víðidal þar sem allt var gert til að hjálpa henni. Því miður hefur innvortis blæðing verið of mikil fyrir elsku kellinguna okkar.  Ég sem hef yfirleitt ekki leyft þeim að vera einum og lausum þarna úti en í þetta sinn var ég ekki á verði og það fór sem fór.
--
Sorglegt og sárt en svona er lífið það hefst og það endar.  Mímí er ein eftir og virðist skynja hvað hefur gerst því ég las mikla sorg úr augum hennar þegar ég kom heim Pöllulaus.
--
Þannig að það er sorg hér í dag vegna þessa og verður afar tómlegt að vakna næstu morgna þar sem Palla var vön að koma uppí og liggja á sænginni Geirs megin þegar hann fór í vinnuna.
--

Sjötta Sporið

 

Ég hef stigið þau

þessi spor

eitt af öðru

 

Sex talsins

og játa

að yfirsjónir

mínar eru margar

 

Ég hef logið

svikuð og stolið

 

Ég hef verið

óheiðarleg

og sært aðra

 

Guð segir mér

að fyrirgefa

sjálfri mér

 

Því ég vissi

ekki

þá......

 

                

                                      Vilborg Traustadóttir


Allt á hvolfi

Er að hugsa um að auglýsa eftir að komast í þáttinn "Allt í drasli"!!!!  Þegar ég lít í kring um mig er gersamlega eins og hér hafi verið gerð innrás.  Við erum búin að vera mikið á ferðinni í sumar auk þess sem ég er ekki þessi húsmóðir sem er alltaf með klútinn á lofti.  Kannski ætti ég að drífa mig í að taka eitthvað til í dag?  Á móti kemur að veðrið er svo gott og lítið eftir af sumrinu.  Ætlaði að skreppa norður á Sigló (Sauðanes) á morgun og sækja mömmu og pabba.  Pabbi hringdi í gær og sagði veðrið hundleiðinlgt og þau gætu fengið far með Kristínu Hafsteinsdóttur.  Kannski bíð ég þá með berjamóinn í nyrðra og fer eitthvað styttra.  Lít einu sinni enn í kring um mig og ákveð að taka aðeins til.  Þetta gengur ekki.  Svo hefur maður eitthvað hollt og gott í gogginn í kvöld.  Með eplakökunni frá bloggvinkonu minni mörtusmörtu í eftirrétt?  Hver veit.............Wink  

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband