Frönsku meistararnir

Ég horfði á hluta af mynd í sjónvarpinu í gær um frönsku meistarana.  Hafði gaman af því sérstaklega þar sem ég er að fara á myndlistarnámskeið um helgina.  Þá get ég sagt að ég hafi stúderað lítillega listasögu og impressjónisma, Monet o.fl.  Tók fram penslana í dag og lagfærði eina mynd sem ég málði (eða spaðaði)  í sumar á svölunum fyrir norðan hjá Möggu systir.  Setti mig í stellingar meistaranna.  En NEI mikið er nú fossinn eitthvað "flatur"......bloggmyndir 053  eða????

Góðir dagar

 

Sumir dagar

eru einfaldlega

góðir dagar.

 

Þegar allt er

svo gott sem gott

 

Vakna hress

strjúka kettinum.

 

Fara á bílnum

milli staða.

 

Sjá kunnuglegt

göngulag..

 

..Kári in the hood!

 

 

          Vilborg Traustadóttir


Spaugstofuthrillerinn

Nú er vetrardagskrá Sjónvarpsina að hefjast.  Þar á meðal hin langþreytta Spaugstofa.  Eitthvað eru umsjónamenn Sjónvarpsina að reyna að klóra sig áfram í þeim efnum.  Ég get samt ekki alveg skilið hvað er verið að pæla á þeim bæ með því að endurnýja ekki verktakasamning Randvers eða hins ástkæra Örvars.  Hver vill sjá Spaugstofu án hans?  Ég segi fyrir mig að ég er búin að vera lengi mjög þreytt á Spaugstofunni.  Eini leikarinn sem hélt mér stundum við skjáinn var einmitt Randver og reyndar líka Siggi Sigurjóns, stundum.  Hvernig á þjóðin nú að safnast saman fyrir framan skjáinn og hlæja vitandi það að búið er að valda sársauka og vanlíðan?  Annars bíð ég spennt eftir fyrsta þættinum og ef Randver verður þar og segir "allt í plati" mun ég hugsanlega endurskoða þá afstöðu mína að horfa ekki á þættina í vetur.

Praktískir sveitamenn

Tveir bræður bjuggu með öldruðum foreldrum í afskekktri sveit.  Einn veturinn dó móðir þeirra.  Synirnir tóku sjálfir gröfina við erfiðar aðstæður í gaddfreðinn svörðinn.  Ekki bætti úr skák að á jarðarfarardaginn brast á með snarvitlausu veðri og erfitt var um vik að koma þeirri gömlu á sinn stað.  Auk þess voru þeir með gamla manninn farlama með sér og ekki gerði það þeim auðveldara fyrir. Bræðurnir voru alveg uppgefnir þegar þeir voru komnir heim eftir þessa miklu þolraun.
--
Nokkrum vikum síðar stóðu bræðurnir við gluggann heima hjá sér en gamli maðurinn hafði lagt sig á legubekkinn.  Vorið var komið frost úr jörð og hið besta veður.  Þá segir annar bræðranna upp úr eins manns hljóði  "Ja nú væri sannarlega gott veður til að jarða hann pabba"....

Sátt

Í ákafri leit

að lífshamingju

hljóp ég.

 

Tindilfætt.

 

Veittist að gleðinni

sjálfri mér

og sorginni

sem beið mín

bak við horn,

missti fótanna

féll um sinn.

 

Svakalegt!

 

Sættist við aðstæður

sá ljósið

á ný.

 

 

               Vilborg Traustadóttir


Pólitískir forsvarsmenn stofnana

 

Ég fór að hugsa enn og aftur um vald pólitískra forsvarsmana stofnana á vegum hins opinbera eftir Ísland í dag - í gær.  Þar skiptust þær Guðrún Elsa Smáradóttir samfylkingu og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir sjálfstæðisflokki á skoðunum um málefni leikskólanna og þá manneklu sem mikið hefur verið rædd undanfarið.  Ég ætla ekki að gera lítið úr manneklunni en ósjálfrátt leitar hugur minn að ástæðum fyrir hve mikið er gert úr henni nú?  Það skyldi þó ekki vera vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn fer með stjórnartaumana í borginnu?  Gæti hugsanlega verið að pólitískir vinstri forsvarsmenn stofnana séu farnir að taka í árar með minnihlutanum í borginni?   Ef svo gæti nú hugsanlega verið hver er þá ábyrgð þeirra?

Og hver er þá ábyrgð þeirra lýðræðislega kjörnu fulltrúa sem spila þannig á stofnanirnar?

Það væri algerlega ólíðandi ef þó ekki væri nema smá stirðleika í að koma börnum á leikskóla mætti rekja til þeirrar ástæðu.  Ég tala nú ekki um ef börn eru send heim til að þrýsta á í flokkspólitískum tilgangi.  Ég þekki sjálf úr heilbrigðisgeiranum tilraunir aðila af vinstri vængnum til að misnota aðstöðu sína í þessum tilgangi.  Þá var Öryrkjabandalagið undir forystu Garðars Sverrissonar búið að fá forstöðumann dagvistar MS sjúklinga Þuríði R. Sigurðardóttur til að spila með í þannig upphlaupi í stað þess að leita lausna hjá þeim sem höfðu með málaflokkinn að gera.

 Nei og aftur nei kæru vinstri-vinir við viljum lausnir í málefnum leikskólannna en ekki pólitískan skrípaleik sem reynir að láta þá sem eru að vinna að málinu líta illa út.  Vona að ég sé að segja einhverja vitleysu en mikið lyktar þetta nú þannig samt. 

Vambasaumur - sláturgerð

  Nú er að hefjast sláturtíð.   Ég hef ekki gert slátur síðan á Akureyri 1987.  Þá tókum við okkur saman ein frænka mín og tvær vinkonur og ákváðum að vera myndarlegar.  Slátrin voru sótt og ákveðið að gera þau heima hjá Kristínu þar sem maðurinn hennar var á sjó og hún með litla stráka.  Við mættum hressar í bragði í vambasauminn.  Þar sem okkur þótti afburða leiðinlegt að sauma vambir höfðum við rauðvínsflösku við hendina.  Supum óspart á.  Það færðist fjör í leikinn.  Valdísi stoppuðum við í dyrunum á leið heim til sín með vambirnar í saumavélina.  Eftir nokkur glös og vambir ákváðum við að skella okkur bara í Sjallann.  Gera slátrin daginn eftir.  Fórum við nú að búa okkur eins og best við gátum.  Kristín fór að svæfa strákana og “dó úr tilhlökkun” í leiðinni.  Við hinar höfðum það af í Sjallann.  Allar angandi af vambalykt eða gorlykt.  Það síðasta sem ég sá af Línu frænku var að hún reif hártoppinn af Palla sínum í stiganum.  Það gerði hún bara ef hún var mjög reið.  Við Valdís ákváðum að gera smá sprell og fara aftur heim til Kristínar og hengja vambirnar út á snúru.  Við vissum að Kristín hafði átt í útistöðum við nágrannakonu sína út af snúrunum sem þær samnýttu.  Daginn eftir vaknaði Kristín svo upp við þann vonda draum strákarnir voru að renna sér fótskriða í mörnum á eldhúsgólfinu og vambirnar voru hangandi úti á snúru.  Hún brá sér því út að taka þær inn áður en nágrannakonan kæmi.  Sú kom auðvitað aðvífandi þegar hún var að taka þær niður.  Kristín var fljót til og sagði “Við gerum þetta alltaf svona á Siglufirði”. 
----
Síðan hef ég ekki gert slátur....já við erum ennþá vinkonur og ég er hætt að drekka.....Halo

Vinkonumatur

Var boðin í hádegisverð heima hjá góðri vinkonu minni Gerði Gunnarsdóttur myndhöggvara í dag.  Ásamt annarri góðri vinkonu Elínu Vigfúsdóttur.  Mikið er gaman að koma svona saman og spjalla um allt og ekkert.  Skoða glæsilegu listaverkin hennar Gerðar.  Hún tekur þátt í alþjóðlegri listmunasamkeppni um verðlaunagripi fyrir Olympíuleikana sem haldnir verða í Kína 2008.
Hér er smá innsýn í verk hennar. Einnig Olympíuverkin hennar á bls 15 í seinni tengli, fjórða mynd frá hægri.
http://www.china.org.cn/english/features/olympicsculpture/204323_15.htm

Helgin var fín.  Við Magga systir skelltum okkur á opnun á sýningu Eggerts Péturssonar á Kjarvalsstöðum.  Það var alveg einstök upplifun.  Einnig var Helgi Gíslason myndhöggvari með lágmyndasýningu.  Mjög gaman.  Fjórir hressir ömmu og afastrákar voru hjá okkur í gær og er mjög gefandi að umgangast þá.  Börn eru svo undursamleg og "leiðrétta" mann oftar en ekki af einhverri vitleysunni.....Wink


Ný mynd

Við Magga systir drifum í því í dag að taka nýjar myndir fyrir bloggsíður okkar.  Mín er þegar komin í stað hinnar sem tekin var með diplomað frá Póllandi í janúar.  Nýja myndin er tekin í stofunni hjá mömmu og pabba og er mynd af æskuslóðunum á Sauðanesi við Siglufjörð í baksýn.  Hvernig er það segir maður þá núna Sauðanesi við Fjallabyggð?  (Smá útúrsnúningur).
bloggmyndir 008
Vilborg Traustadóttir hin vogskorna!W00t

Stjörnuspá

SteingeitSteingeit: Í stað þess að eiga þér stóra drauma - eins og vanalega - hafðu þá klikkaða. Hvernig yrði lífið ef þú hlypir á brott með fjölleikahúsi?
---
W00t  Ég veit ekki hvar þetta endar?  Ætli ég sé í "réttu" merki?Ninja

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband