Færsluflokkur: Ljóð

Í Ásnum

 

Hérna uppi í Ásnum

býr kona.

 

Hún fylgist með öllu

árvökulum augum

lítur hún yfir dalinn.

 

Yfirsést ekkert

nema kannski

klaufaleg mistök

barnabarnanna

sem vissu ekki betur.

 

Elsku amma

að þú megir vaka

vaka og vaka.

 

 

     Höf:  Vilborg Traustadóttir

 

Þegar þú

 

Þegar þú

strýkur mér

um upphandlegginn

óska ég þess

að þú hættir aldrei

 

en jafnvel þú

þreytist.

 

        Höf:  Vilborg Traustadóttir


Handan götunnar

Handan götunnar

hafin yfir

þökin.

 

Þarna uppi

lágskýjuð nóttin

bregður sér

í líki lostans.

 

Létt og nett

lifnar hún

í berfættu tómi.

 

Bak við sólina

sofa skýin,

ljúfsáru regni

leka þau

 

á stéttina

handan götunnar.

 

Stéttina

staðbundna.

 

    Höf:  Vilborg Traustadóttir


Martröð

 

Skríkjur og læti

ófriðlega

er látið.

 

Það dimmir,

þungi,

þögnin köld.

 

Barist um

beðist griða,

hjartsláttur.

 

Hlaup, flótti,

æst augu

standa á stilkum.

 

Berir færur,

blóðrisa

í mölinni.

 

Mynd sem hverfur,

Kemur, fer,

sviti, söknuður.

 

Tunglið á lofti,

lýsir mér,

sýnir mér myndir

sem ég sá ekki fyrr.

 

Merlandi birta

á djúpum firði,

endurkastar áskorun

um frið.

 

Fölleitur skuggi

fallvaltrar gæfu

eltist við draum

án martraðar.

   Höf:  Vilborg Traustadóttir

Hjarta

 

Hjarta á villigötum

veit ekki

hvað slær

fyrir hvern.

 

Hugur í ógöngum

eigrar um

áttavilltur.

 

Tungl í fyllingu

gægist fram,

þú og ég

þarna?

 

Skyndilega og án skýringa

er ljóði mínu

lokið.

 

  Höf: Vilborg Traustadóttir

   

Snertu mig

 

Snertu mig

eða ekki

skiptir ekki máli

 

Gælur þínar

finn ég

fyrir því.

 

Hjarta þitt

eða mitt

skiptir ekki máli

 

Þau slá sama

taktinn

fyrir því.

 

Nær

eða fjær

skiptir ekki máli.

 

Við eigum

samleið

fyrir því.

 

   Höf:  Vilborg Traustadóttir

 

Draumur

Ég bjó mér til draum,

bar hann í mér

um árabil.

 

Batt hann,

losaði hann,

reyndi allt

til að deyfa hann.

 

Kunni ekki

með hann að fara.

 

Í dag hlúi ég

að honum.

 

Hann er

og verður

okkar.

 

    Höf:  Vilborg Traustadóttir


Alltaf

Í hjarta mínu

ert þú

ósnertanlegur

án aukaefna.

 

Pakkað inn

í ljósa

mjúka hlýju

og ég veit

þú verður hérna

í hjarta mínu

 

alltaf.

 

 

    Höf:  Vilborg Traustadóttir


Villuljós

Enginn flýr sín örlög

ekkert fær þau hamið.

Glötuð ást mín marrar

og mylst við flæðisker,

liggi braut þín burtu

mín blíða fylgir þér.

 

Innst í hjarta geymi

ástarfunann heita.

Oftast endurspegla

ofurkalda ró.

Elds og funa öflin

undir krauma þó.

 

Yfir lífsins langa

leikvöll þegar horfi 'ég.

Sé ég sannar hvatir

sýna veginn heim.

Heita kossa og kenndir,

ég kýs að fylgja þeim.

 

Vænt mér þykir um það

þegar ylinn ljúfa

heitt ég finn í faðmi

og fráan hjartaslátt.

Þétt við brjóst þitt bugast

í bæn um æðri mátt.

 

Æ lýs þú mér í myrkri

til mannsins sem ég elska.

Villuljós á vegi

mér vísar honum fjær.

Þótt lífið leiðir skilji

það lækna dauðinn fær.

 

 

   Höf:  Vilborg Traustadóttir


Í kvöldkulinu.

Í kvöldkulinu handan læksins

hefjum við göngu okkar.

Hjörtun slá sinn fyrsta takt.

 

Einhversstaðar í framtíðinni

býr hamingjan, sorgin, huggunin.

 

Með fólki sem við þekkjum ekki

eða án þess.

 

 

      Höf:  Vilborg Traustadóttir


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband