Færsluflokkur: Bloggar

Árneshreppsbúamót

Það var gaman um helgina.  Mamma og pabbi höfðu partý til "upphitunar" fyrir Árneshreppsbúaballið.  Það var komið saman og eldaður pottréttur og heimabakað brauð á boðstólum.  Fjörið var svo mikið að fólk gleymdi að fara á ballið og einungis þau hörðustu í hópnum fóru á það.  Það var sungið og trallað og ekki sparað að láta reyna á gítarkunnáttu viðstaddra.
Magga systir og hennar fylgifiskur, eiginmaðurinn José fóru á Árneshreppsbúamótið og skemmtu sér mjög vel þar. 
Það sem eftir stendur er að ákveðið var, af yngri kynslóðinni, í kjölfar þessa vel heppnaða fagnaðar að hafa ættarmót á Sauðanesi næsta sumar.  Við "ellismellirnir" mætum bara þar sem okkur verður sagt að mæta og höfum það að leiðarljósi að skemmta okkur og öllum hinum í leiðinni.
Hlakka til.................... 

Til umhugsunar

Þungamiðja ábatasams lífs er að stefna fram á við. Ef þú sýtir það sem liðið er samt öllum þeim útskýringum,réttlætingum og ásökunum sem því fylgja- stefnirðu aftur á bak.


Magga systir

Góð hugmynd hjá Möggu systir að birta ljóðin mín hér. Ég er nefnilega skúffuskáld og hef ekki komist upp úr skúffunni af ýmsum ástæðum.  Svona er það þegar maður þorir að byrja á nýjum hlutum, í okkar systranna tilfelli að blogga, þá koma nýjar og nýjar hugmyndir upp. Það er það sem er svo gaman og spennandi við það að stíga einu skrefi lengra en maður þorir. Við Magga systir erum núna að flækja okkur í vef bloggsins.  Eitt skref í einu.  Hér á undan er fyrsta ljóðið sem ég birti á blogginu. Það heitir Dagur og nótt.  Njótið vel...

Dagur og nótt.

   

Ljós

hvers leitar þú hér?

Hér er ekkert að fela

ekkert að skammast sín fyrir

og engin eftirsjá.

Hver sendi þig?

 

Í morgunroðanum

sérðu blóð aldanna.

Dagurinn og nóttin

að berjast.

 

Dagur hver líður

og kvöldblærinn

stráir stjörnum á himininn.

Í ljósaskiptunum

takast á sættir.

 

Sko!

Dagurinn og nóttin

elskast.

Alveg eins og við.

   

          höf: Vilborg Traustadóttir


Mínum augum lít ég löginn

Mínum augum lít ég löginn
lengi er hún Borga gamla spaugin.
Sé ég skútu skríða inn
skyldi það vera hann Viktor minn.
Langamma mín á Felli í Árneshrepp orti þessa vísu. Hún hét Vilborg eins og ég.  Gunnar á Eyri fór með vísuna fyrir mig þegar ég hitti hann í erfidrykkju Önnu Jakobínu frá Dröngum í fyrrasumar.  Ég lærði hana fljótt og rifjaði hana upp með sonarsyni mínum sem ég passaði í dag. Hann heitir Viktor.....Svona fer lífið í hring.
Langaði bara að deila þessu með ykkur sem eruð að kíkja hér inn.

Kærleikur

Kærleikurinn er stundum það umræðuefni sem setur mann í einhverskonar vörn.  Maður flýtir sér yfir í næsta umræðuefni ef hann ber á góma.  Stundum.......  Ég velti fyrir mér hvers vegna?  Hvað er það sem gerir okkur svo "feimin" eða "hrædd" við kærleikann? 
Ég stend mig að því að gráta yfir bíómynd eða vera miður mín vegna slæmra frétta frá öðrum löndum og öðrum heimsálfum.  
Kannski er þá ráð að líta sér nær og sýna þeim sem eru nálægt mér hversu vænt mér þykir um þá. 
Því kærleikann þarf ekki að skilgreina það þarf bara að sýna hann! 
Love you all.

Bloggaraflokkurinn

Hugsanlega verður stofnaður nýr flokkur “Bloggaraflokkurinn” á næstunni.  Í ljósi þess hve gríðarlega margir blogga á Íslandi þætti nú ekki vanþörf á.  Þetta verður þverpólitískur flokkur bloggara úr öllum áttum.  Sameiginleg markmið verða skilgreind nánar af bloggurum en þar sem bloggarar láta ýmis mál til sín taka er greinilega ekkert heilagt í þeim efnum.  Hugmynd um flokkinn er að þetta verði þverpólitískt afl sem smjúgi svo hvert inn í sinn flokk með áherslur “Bloggaraflokksins” að leiðarljósi og beiti sér þannig. 
Strax er hægt að ýminda sér breiðan hóp fólks eins og Björn Bjarnason dómsmálaráðherra og “yfirbloggari”, Ómar Ragnarsson “umhverfisidjót”,  Lára Stefánsdóttir varaþingmaður og skólasystir frá Laugum,  beittur penni. Jónína Benediktsdóttir framkvæmdastjóri og frumkvöðull í heilsumálum ýmiss konar o.s.frv o.s.frv.  Svo eru allir “venjulegu" bloggararnir eins og ég og fleiri sem eyða ómældri orku í að blogga.  Ég vil virkja þessa orku á breiðri grunni og mynda þannig aflmikla orkuveitu skoðanaskipta og tjáningarveitu inn í stjórnmálaflokkana. 

Látum hlusta á okkur.

----------

 

Við eigumþað skilið!
----------
Bloggaraflokkurinn lengi lifi.
----------

Sjá nánar í spjalli á síðu bloggvinkonu minnar Agný undir hittingi "Bloggvina" á Skaganum.


Sakna Jónínu

Ég sakna Jónínu Ben úr Bloggheimum. Hressilegir pistlar og umbúðalaus umfjöllun um ýmis mál. Einn pistill frá Jónínu og allt orðið vitlaust á svipstundu.  "Læknamafían" farin að hvæsa og allir á tánum.FootinMouth
Davíð Oddsson hefur þessa sömu eiginleika. Ég sakna hans líka úr stjórnmálunum.  Alltaf þegar stjórnmálamynstrið var orðið hæfilega "dull" kom hann með krassandi umfjöllun og umbúðalausar skoðanir á hverju því sem hann tókst á við.  Það var alltaf fjör þegar Davíð sendi öðrum tóninn.  Þjóðfélagið fór á haus og allir voru á tánum.Sideways
Litríkir og ófeimnir karakterar eru vandfundnir í nútímavæðingu meðalmennskunnar.  Ég vona að þeir deyi ekki alveg út.  Þá yrði BARA leiðinlegt.Pouty

Barnabörn

Einn góður vinur okkar sagði einu sinni.  "Ef ég hefði vitað hvað þetta yrði gaman með barnabörnin þá hefði ég skellt mér beint í þau og sleppt börnunum."
Kannski það sem koma skal?  Hver veit í tæknivæðingu framtíðarinnar?
Ég get tekið undir þetta hjá honum að vissu leyti.  Það sagði einu sinni vitur kennari og listamaður við mig þegar ég átti efitt með einn strákinn okkar.  "Fólk hefur líkamlega besta þroskann til að eignast börn um tvítugt en andlega bestan til að ala þau upp um fimmtugt."
Ég held að þetta sé málið í mörgum tilvikum.  Í dag hef ég þolinmæði sem ég hafði ekki.  T.d. var ég alltaf stressuð yfir drasli,í dag er ég ekkert að stressa mig á því.  Ég nýt þess bara að hafa aksjón í kring um mig.  Hins vegar er ég ekki eins spretthörð á eftir þessum elskum.
Allt hefur sinn tíma, við verðum bara að njóta þess sem við höfum þegar við höfum það.
Hratt flýgur stund.

MYLOVE

Hélt að talvan væri að hrynja í dag. Þá var það Skype notandi að reyna að hringja í mig, aftur og aftur.  Er ekki með head phone. Lét hann vita það á skype-inu og var þessi maður frá Vestur Afríku.  Svo fékk ég bara broskalla og handabönd frá honum.  Kannski ekki vel skrifandi?  Athyglisvert að fá hringingu frá "mylove" svona upp úr þurru. Smile Tek fram að ég er með mynd af mér með einn ömmustrákinn á prófílnum þar. Blush  Húmor í þessu.Wink

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband