Færsluflokkur: Bloggar

Öskudagur

Öskudagurinn hjá mér er detox dagur.

Ég ákvað það eftir Bolludag og Sprengidag að ekki veitti af því.  Samt var ég ekkert að troða mig út af þeim réttum sem dagarnir vísa til.  Samt er ég öll útblásin miðað við hvernig ég var fyrir.  Það segir náttúrulega sína sögu um óhollustu þess sem þó fór ofan í minn maga.
   

Ég fór í Nóatún í gær og keypti EINN saltkjötsbita fyrir okkur hjónin.  Eftir að maðurinn í kjötborðinu brá sér fram fyrir kjötborðið (akkúrat þegar kom að mínu númeri) til að sinna æstum viðskiptavin sem fann ekki einhvern fj......... og annar loks afgreitt mig,  rölti ég fram búðina með augu annarra viðskiptavina límd á bakinu.

“Einstæðingurinn”  hugsuðu þau eflaust eða e-ð álíka.

Þegar ég hafði svo staðið í biðröð misþolinmóðra viðskiptavina ( það var bara einn kassi opinn)  og eftir að hafa hughreyst mann sem sagði að maturinn yrði orðin skemmdur þegar við loksins kæmumst út með því að það væri þá eins gott að þetta væri saltkjöt og eftir að hafa sagt “þeir síðustu verða fyrstir"  við konu sem var óróleg og kallaði eftir meiri þjónustu fór ég til pabba og mömmu. 

Pabbi fékk vægt áfall þegar ég sagðist hafa keypt EINN saltkjötsbita fyrir okkur hjónin.  Reyndi árangurslaust að troða a.m.k. tveim bitum úr sínum heimasaltaða saltkjötskút á mig.  
Vel meint og gott boðð afþakkað. 
Eins gott þar sem ég blés svona út og ég hefði ekki tekið eftir þessari útþenslustefnu minni nema hvað ég er nýkomin úr detox í Póllandi.

Ég er engin Æjatóla í þessum efnum en ég get þó ekki annað en pælt...Pæld í ðí, tvær rjómabollur, hálfur saltkjötsbiti.  BOMM.   

Öskudagurinn er sem sagt rólegur hjá mér og ekkert nammi neitt.

Ég fór alltaf með sonum mínum í bæinn á Akureyri (bjuggum þar) og þeir (við) sungum til að fá verðlaun í formi nammis í búðum og fyrirtækjum.  Þetta var þvílíkt ævintýri fyrir þá og gaman fyrir okkur öll.
Í trúnaði..... 

Ég reyndi einu sinni að fá vinkonu mína með mér í “Ríkið” til að syngja fyrir þá sem þar störfuðu og athuga hvort við fengjum eins og eina bokku.  Hún var þá búin með “kvótann” og vildi ekki koma með.  Ég kunni ekki við að fara ein en mikið langaði mig að láta á þetta reyna.

Nú er ég búin með “kvótann”, því kasta ég þessari góðu hugmynd áfram til Lalla Jones og félaga sem gætu hugsanlega myndað kvartett eða kór og reddað deginum!

Sprengidagur

 

Í dag verða saltkjöt og baunir á boðstólum víða.  Fínt að hafa einn dag á ári í það. 

Eins og elsti sonarsonur minn segir þegar hann biður um nammibita, “einn og svo ekki meir”. 

Saltkjötið er nefnilega ekkert hollt í of miklum mæli. 

Ekkert frekar en nammið. 

Ég ætla samt að setja einhverja bita út í baunasúpuna. 

Ásamt beikoni.........

Annað ekki í bili enda engar fréttir góðar fréttir segir máltækið!

Bolludagur

Í dag er Bolludagur!
  

Ég fékk mér bollu.....bara eina í dag og bara eina í gær.

Ég er nýkomin úr detox í Póllandi.  Ég var eins og “bolla” þegar ég fór 6. janúar s.l.

Þessi dagur er ágætur til að minna mig á það.  Enda naut ég þess að borða bollurnar. 

Ég var tvær vikur á heilsuhótelinu U Zbója í Golubie í Póllandi.  Þar fengum við þá merkilegustu meðferð sem ég hef upplifað.  Það var boðið upp á þrenns konar matseðil og ég tók eins og flestir grænmetis og ávaxtafæði.  Til að gera langa sögu stutta svínvirkaði þetta á mig.  Ég ákvað að taka allan pakkann.
Matarræði, læknisþjónusta, nudd, þjálfun (eins og ég treysti mér til), stólpípur (þrisvar), gufuböð, snyrtingu o.s.frv. 
Matarræðið átti sérlega vel við mig.  Ég fann strax að hreinsunin fór í gang á fyrsta degi.  
Læknarnir voru fínir og ég treysti dr. Dabrowska fullkomlega fyrir meðferðinni.  Hún er framúrskarandi læknir og sérfróð um málefnið enda er detox meðferðin í Póllandi þróuð af henni og samstarfsfólki hennar.
Starfsfólkið mjög duglegt og greiðvikið.
Nuddið var ólýsanlegt, greinilega fagmenn þar að verki.  Það átti sinn þátt í meðferðinni og hve vel tókst til. 
Ég fór út í skóg í morgunsárið og gerði teygjuæfingar með hópnum.  Ég gekk í skóginum og fór í tækjasal sem var þarna.  Ég fór í sund og sundleikfimi.  Allt var þetta æðislegt.
  
Stólpípur voru framkvæmdar af lækni sem hefur sérhæft sig í þeirri meðferð.  Einhvern veginn hafa þær orðið aðalatriðið í umræðunni hérlendis en úti eru þær bara einn liður í meðferðinni og eins og um aðra meðferð valdi ég sjálf hvort ég fór í þær eða ekki.  Þær virkuðu fínt á mig og minn þandi ristill dróst saman.  Nú sé ég brjóstin fyrir bumbunni;).
Gufan með serimóníum Jónínu Ben var alveg undur skemmtileg upplifun og allar fórum við á “trúnó” í gufunni.  (My lips are sealed).
   

Snyrtidaman var yndisleg og veitti fyrsta flokks þjónustu.

 

Aðstaðan á heilsuhótelinu var einföld og þægileg.  Pláss er nýtt til hins ýtrasta.  Þar var sko ekki bruðlað með einn cm til eða frá.  Allt dugði það samt fyrir þeirri þjónustu sem veitt er.  Umhverfið er friðsælt, fallegt og gott.  Fólkið vinalegt og tók Íslendingum afar vel.

Árangurinn? 

Léttari Vilborg til sálar og líkama.  Líkaminn missti 8,3 kg úti og tvö eftir heimkomuna ( so far) og sálin annað eins ef ekki meira.
Ég fer aftur til U Zbója það er á hreinu og ég ætla að ákveða í samráði við lækna, hvers konar meðferð ég þigg þá.  En valið er mitt.  Líkaminn er minn.  Sálin er mín.  Ég ber ábyrgð á “skútunni” og sigli henni eins og ég finn að hentar henni best.

Burt með bolluna. 

Það munar um tíu mjólkurfernur!


Þessi fallegi dagur

 Bubbi er gleðigjafi á sinn hátt.  Hann gefur okkur fallega flutt lög og góða texta um lífið og tilveruna.  Hann opnar fyrir tilfinningaflóruna hjá manni með tónum og textum.  Það má auðvitað alltaf gagnrýna allt en ef við erum sanngjörn þá held ég að fáir á Íslandi hafi gefið eins mikið af sér til jafn margra og hann.  Að öllum öðrum ólöstuðum, við eigum frábæra listamenn íslendingar. 
Sumir vilja meina að Bubbi hafi sett sukkið sitt á svið til að ná eyrum almennings?  Ef svo er (sem ég efast reyndar um) þá er það bara vel heppnað og skothelt.  Mörg ungmenni sem rata á refilstigu sjá möguleika á að snúa aftur til heilbrigðara lífs á ný eftir að hafa hlustað á og tengst sögu Bubba.  Bubbi hefur verið ósérhlífin við að heimsækja grunnskóla og hann kann að tala við ungt fólk á máli sem það skilur.
Fimmtugur “unglingurinn”. 
Nú er annar “unglingur” að fara í Eurovision. Eiríkur Hauksson.  Flottur kallinn í Kastljósinu hjá Evu Maríu í kvöld.  Ég er elsku sátt við að hann fari með þetta fallega lag eftir Svein Rúnar.  Eiríkur er einnig gleðigjafi og deilir með okkur sinni reynslu eins og Bubbi.

 

Þetta eru “strákarnir okkar”.  
Jafn ólíkir listamenn og karakterar sem þeir eru.  Eiríkur er sómi landsins, sverð og skjöldur þegar kemur að Eurovision. Krossfarinn ásamt Pálma Gunnars og Helgu Möller.   Bubbi er yfirlýstun “anti” Eurovisionisti.

Já eins og Eiríkur sagði, “ það verður að gera pínulítið grín að Eurovision, þetta er dálítið fyndið allt saman”. 

 

Ég er hjartanlega sammála honum.  Enda er um að gera að hafa bara gaman af þessu og njóta þess að skrattast út í þá sem gefa okkur EKKI stig á meðan við lofsömum þá sem gefa okkur nokkur.  

 

 

Lífið er dásamlegt og þessi fallegi dagur er svo fallegur að ekki einu sinni núll stig í Eurovision fá því breytt.

  

Góðar fréttir.is

Ég er í Stjórnmálaskóla Sjálfstæðisfokksins. 
Það er ekki í frásögu færandi nema hvað það sem leiðbeinendur okkar segja okkur þar stangast hikalega á við þær fréttir sem fjölmiðlar birta af málum. 

Ástæða? 

Fjölmiðlar hafa ekki áhuga á góðum fréttum segja þeir.

 

Er það svo? 
Hvert er þá hlutleysi fjölmiðla?
Er það hlutleysi að flytja fréttir af einni hlið mála, þeirri verri og láta aðra, þá betri ekki komast að?
Er það hlutleysi að segja fréttir af stríði en ekki friði? 
Er það hlutleysi að segja fréttir af verðbólgu en ekki stöðugleika? 

Er það hlutleysi að segja slæmar fréttir af viðkvæmum málum sem snerta persónur manna en láta hjá liggja að segja frá því sem vel er gert hjá sömu aðilum?

Er það hlutleysi að segja frá dauða en ekki lífi? 
Er hlutleysi að segja frá vonbrigðum en ekki vonum sem rætast? 
Svona getum við haldið áfram endalaust. 
Niðurstaðan er sú að fjölmiðlar sinna ekki hlutverki sínu. 
Þeir flytja ekki góðar fréttir vegna þess að þær eru ekki fréttir.  Fjölmiðlar bregðast þannig viðskiptavinum sínum. Þeir eru hlutdrægir með slæmum fréttum á móti góðum fréttum.   
Niðurstaða?
  
Stofnum nýjan fjölmiðil óháðan hagsmunapoti hvers konar.Fjölmiðil sem flytur góðu fréttirnar. 
Hér er fyrsti vísirinn.
   
Góðar fréttir .is.

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband