Sauðanesvitinn - brimið

Hér er falleg og tilkomumikil mynd af Sauðanesvitanum.  Það var hversdagslegt ævintýri að alast upp á þessum stað.  Ég gat setið tímunum saman og hlustað á brimið.  Ég gat öskrað á það og ég gat sofið við nið þess.  Ég og brimið urðum óaðskiljanleg og það var einungis stund milli stríða þegar það gekk niður.  Þá hvíldum við okkur hvert á öðru.  Ég og brimið.untitled

 

 

 

 

 

 


Nostalgía

Kristín vinkona sendi mér nokkrar skannaðar myndir.  Þarna erum við vinkonurnar á Mallorca árið 1978 ef ég man rétt.  Auðvitað á barnum Scamps þar sem við vorum fastagestir. Eitthvað erum við nú að spá í aurinn (pesetana) sýnist mér enda var skammtaður gjaldeyrir á þessum tíma og við fengum ekki nema 30.000 krónur fyrir þriggja vikna ferð.  Við vorum svo blankar að við tókum ekkert aukalega á svörtu eins og tíðkaðist.  Við urðum líka voða fegnar að komast heim því við áttum varla málungi matar síðustu dagana.  image-68Og mikið assgoti erum við horðar þarna.  Það stafar hins vegar ekki af blaknheitum í ferðinni ég var næstum eins og anorexíusjúklingur svei mér þá.

Gospelsystur

Ég söng með Gospelsystrum Reykjvíkur undir stjórn Möggu Pálma í nokkur ár.  Það var afskaplega gaman, þroskandi og orkugefandi.  Ég veit eiginlega ekki hvers vegna ég hætti í kórnum.  Gospelsystur eru 10 ára núna 2007.  Það verða afmælistónleikar fljótlega og ég vona að ég missi ekki af þeim.  Ég var með þegar tekinn var upp geisladiskurinn "Under the Northern sky"  (Norðurljós).  Ég skellti diskinum í geislaspilarann í morgun.  Diskurinn eldist mjög vel.  Mímí fékk víðáttubrjálæðiskast og hljóp um alla íbúðina þegar fyrsta lagið hljómaði.  Það er lagið Tunglið tunglið taktu mig og er eftir Stefán Stefánsson.  Afskaplega fallegt lag og það er gaman að syngja það.   Ég ætla einmitt að athuga eftir helgina hvort diskurinn er uppseldur en mig langar að gefa tveim eða þremur vinum mínum hann. Ég hvet alla til að fara á afmælistónleikana og mun láta vita hér þegar ég kemst að því hvenær og hvar þeir verða. 

Myndlist- Haust

HaustÉg málaði þessa mynd á námskeiði hjá Erni Inga norður á Akureyri í september.  Er nýbúin að fá hana senda þar sem hún komst ekki í bílinn þegar við keyrðum aftur suður eftir námskeiðið.  Hún er dálítið stór.  Myndin heitir "Haust".
Haust / Vilborg Traustadóttir

Laugardagstiltekt

Ég skapvonskaðist í laugardagstiltektina áðan.  Er ekki nokkur einasta manneskja í þetta.  Það er einhvern veginn allt svo mikið fyrir mér þegar ég er í þessum tiltektarham.  Byrjaði á að bóka þvottahúsið sem er sameiginlegt í blokkinni.  Setti í þvottavélarnar.  Fór svo að dansa við ryksuguna og þvílíkur tangó!  Meira að segja kaffið mitt sem var eftir á sófaborðinu fór um koll.  Þá einhenti ég ryksugunni fram á gang og vopnaðist moppunni.  Mímí kisa hélt sig í hæfilegri fjarlægð en fylgdist þó grannt með.  Sama gerði maðurinn minn.  Hann var búin að koma dagblaðabúnkanum undan og tók við ryksugunni og kláraði það verk meðan ég moppaði.  Þetta hafðist og mér líður betur með að hafa aðeins þrifið í kring um okkur.
Það er samt alveg merkilegt með mig hvað ég verð stundum skapill þegar ég er í tiltektinni!  Kannski fer ég þetta á skapinu?  Ég fór að rifja upp að þegar ég bjó á Eyrarlandsveginum á Akureyri þá tók ég alltaf til á fimmtudögum.  Það var hreinlega ekki verandi í húsinu á meðan.  Ég hef þó aðeins lagast....held ég.
Veit ekki alveg hvort Mímí og maðurinn minn eru sammála?W00t

Einangrun

Það rifjaðist upp fyrir mér áðan hvernig var að alast upp á afskekktum stað. Við vorum sjö manna fjölskylda sem fluttist frá Djúpuvík á Ströndum (sem var nafli alheimsins á síldarárunum) að Sauðanesi við Siglufjörð. Svo fór síldin og við á eftir.  Það var auðvitað farið með skipi því ekkert vegasamband var hvorki Djúpuvík né Sauðanes á þeim tíma.  Yngsti bróðir minn fæddist eftir að við komum á Sauðanes og var fluttur sjóleiðina með mömmu frá Siglufirði og borinn í þvottabala upp úr fjörunni og heim í hús. Við fluttum úr 30 fm húsi á Djúpuvík í stórt hús á þremur hæðum.  Fyrstu árin voru því flest herbergin í húsinu auð.  Smám saman fylltust þau þó af dóti og drasli sem fylgdi okkur.  Við vorum mjög samrýmd fjölskylda og allir voru saman í öllu.  Það var húslestur á kvöldin þar sem mamma las spennandi sögur m.a. Kapítólu.  Pabbi fór með okkur í leiki úti og man ég eftir einum sem var leikinn úti og í myrkri og við kölluðum "útilegumaður fundinn".  Þá faldi einn sig einhversstaðar í myrkrinu hinir töldu upp að hundrað og fóru svo allir að leita.  Sá sem fann "útilegumanninn" mátti vera hann næst.  Við fórum út í vita með pabba og ég man að þegar við fórum í myrkri og pabbi lýsti með vasaljósinu í kring sást oft glytta í augu í myrkrinu.  Það voru refir sem snigluðust í kring og í einstökum tilfellum villikettir.  Sérstaklega man ég eftir einum mjög stórum villiketti sem var lengi í kring um bæinn en gaf ekki færi á sér.  Við vorum hálf hrædd við hann.  Eina vetrarnóttina kom hann alveg heim á bæjarhól og pabbi skaut hann út um gluggann.  Hann beit sig svo fastann í freðinn svörðinn að erfitt var að losa hann þótt steindauður væri. Greyið.  Krakkarnir fóru að tínast í skóla, farskóla þar sem skipst var á að kenna nokkrar vikur í einu á þremur bæjum.  Sauðanesi, Siglunesi og Reyðará. Það var fjör þegar kennslan var á Sauðanesi en tómlegt þegar systur mínar fóru á hina bæina.  Elsti bróðir minn fór í skóla á Siglufirði.  Ég og yngri bræður mínir fórum í heimavistarskóla í Fljótunum.  Þegar ég byrjaði í skóla var vegurinn loksins kominn.  Þegar vegurinn kom breyttist allt.  Systur mínar fóru að djamma og fara á sveitaböll og við yngri systkinin fylgdum fast á eftir.  Upplausn komst í Sauðanesveldið sem tók smám saman að breytast.  Við gerðumst "villt í geiminu" ef svo má segja.  Kannski voru viðbrigðin of mikil fyri okkur heimóttlegu sveitakrakkana sem gengum um á gammósíum með slæðu um hálsinn (ég) daginn út og inn.  Hvað um það við uxum upp og eignuðumst fjölskyldur, eins og gengur.  Ég hef þó oft hugsað um hvernig það væri ef vegurinn hefði aldrei komið um Almenninga og ef Strákagöngin hefðu aldrei verið gerð?  Strákarnir hefðu vafalaust farið til sjós eða eitthvað álíka til að létta undir.  En værum við þá allar Sauðanessysturnar enn heimasætur á Sauðanesvita?  Róandi í spiki, mjólkandi beljur og pantandi varning með vitaskipinu, upp á krít?
 

Tólfta sporið

Ég komst að því

að árangurinn

var mikill

 

Þess vegna

reyni ég

að breiða út

boðskapinn

 

Um leið

og ég lifi

eftir honum

sjálf....

                          Vilborg Traustadóttir

Netið magnað

Svo lengi lærir sem lifir.  Ég er opin manneskja og læt mér fátt mannlegt óviðkomandi.  Ég hef haft netið í dálítið langan tíma og ýmisir hafa bankað þar upp á hjá mér en ég hef fæstum svarað. Í fyrradag sendi ungur afrískur maður (sem kallar sig my love) mér fallegt ljóð.  Hann hefur ítrekað haft samband.  Ég varð pínu skelkuð og hugsaði minn gang en ákvað svo að svara honum og segja honum (aftur) að ég væri fimmtug kelling, hamingjusamlega gift, ætti fjögur börn og fjögur barnabörn.  Hann ætti líka almennt séð betra skilið en verða "toy-boy" hjá "older woman".  Hugsaði með mér að sennilega væri þetta ein leið hjá þessum ungu fátæku mönnum að koma sér í samband við umheiminn og losna úr viðjum fátæktar.  Ég fékk svar og þakkir fyrir að hafa bent honum á þetta og afsökunarbeiðni og alles.  Við urðum í kjölfarið mestu mátar og ég lét honum í té sambönd svo hann geti komið sér á framfæri hér á landi.  Það er draumur hjá honum að komast til sjós hér við land.  Ég fór í kjölfarið að hugsa með mér að einhverjar kellur hefðu kannski notfært sér aðstöðuna og nælt sér í giggaló?  Og í framhaldinu hvernig geta þær það?
Það er bara ein tegund af vændi sem ekki er rætt um þar sem það eru konur sem "kaupa" það.
--
Hitt er það að ég komst að að mylove er mjög trúaður og er mótmælendatrúar svo hann hefur vísast ekki staðið í þess konar braski.  Enda fastur á þrælaskipum Spánverja við strendur Máritaníu.
--
Ég sagði svo við hann að ég skyldi mæla með honum á hans eigin forsendum,  þar sem hann vissi greinilega hvað hann vildi og hefði kjark til að framkvæma það.
--
Já netið er alveg magnað........Cool.........en maður má ekki missa sig...........Grin...........Wink

Skilningur

 

Stundum

skil ég

 

Þá vil ég

vita meira

 

Stundum

skil ég ekki

 

Þá læst

ég skilja

 

 

          Vilborg Traustadóttir


Eins og hellt úr fötu

Mikil rigning herjar nú á landsmenn og á orðtakið "eins og hellt úr fötu" því vel við núna.  Sótti mömmu á rútuna að norðan en sú gamla var í sláturgerð nyrðra.  Það var rigning alveg úr Brú sagði mamma og ekkert lítil rigning.  Vorum svo í rólegheitunum hjá þeim gömlu og spiluðum vist við þau við Solla.  Svona milli sjónvarpsþátta.  Pabbi dreif í að fá sér flatskjá meðan mamma var ekki heima.  Það er bara eins og fólkið í Leiðarljósi sé orðið partur af fjölskyldunni því skjárinn er svo stór.
--
Núna er ég alvarlega að hugsa um að ættleiða mylove sem er á aldur við syni mína en hann er áhugasamur um að komast til Íslands og fá vinnu á sjó hér.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband