Hveragerði - tiltekt - aukakíló

Er að fara í Hveragerði um hádegið.  Á heilsuhælið.  Tók til í fataskápunum hjá mér í gær ásamt Sollu systir.  Hún kom til aðstoðar.  Það var bara gaman að dunda við þetta saman.  Sérstaklega þar sem meirihluti fatanna var orðinn of stór á mig.  Þegar upp var staðið fóru tveir pokar í Rauða Krossinn, einn til athugunar fyrir vini og vandamenn og það gleðilega var að fötin sem voru orðin of lítil en lágu einhversstaðar bakatil í skápnum passa núna.  W00t Flottar gallabuxur og buxur sem ég keypti mér (viljandi)  of litlar í Póllandi í janúar smellpassa t.d. í dag.  Það er stundum gott að vera framsýnn. Cool

 

Svo fóru nokkrar flíkur beint í ruslið þar sem þær eiga heima. Wizard

Þetta hvetur mig til dáða og segi ég hér með þeim aukakílóum sem eftir sitja á mér stríð á hendur.  Þau fá að fjúka.


Til hamingju Ísland! Hann fæddist ekki hér......

Hvort sem Paul er fyrsti innflytjandinn á þingi eða ekki, hvort sem varð á undan eggið eða hænan þá er þetta glæsilegur árangur.  Þarna vísa ég í það að bloggarinn Benedikt Halldórsson færir rök fyrir því að Ingólfur Arnarson o.fl. hafi verið fyrri til.  Það er nauðsynlegt okkur íslendingum öllum að fá þá sem kjósa að búa hér á landi og verða íslenskir ríkisborgarar inn á Alþingi. Þær raddir eiga að hljóma meðal þjóðarinnar og taka þátt í að móta og bæta þjóðfélagið.  Það er mikill mannauður fólgin í þeim sem hingað koma.  Það er mikið sóknarfæri fólgið í því að virkja sem flesta til góðra verka okkur öllum til hagsbóta. Ég vona innilega að hann fái málefnum þokað áfram og að við íslengingar leggjumst öll sem eitt á sveif með þeim sem vilja bæta mannréttindi.  Það er af mörgu að taka en alveg gott og gilt að byrja með eitt skýrt markmið.  Það eru lágmarks mannréttindi að fá atvinnuleyfi skráð á einstaklinginn sem leggur fram vinnuna en ekki fyrirtækið sem ræður hann í vinnu. Common!
mbl.is Fyrsti innflytjandinn á þingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fleiri englar

Sannkölluð fjöldaframleiðsla á englum á sér nú stað en 12 stykki bættust við þá sex sem fyrir voru.  Auk fjögurra "mini-engla" sem voru flognir þegar myndin var tekin.  Á von á fleiri myndum á msn og set inn um leið og eitthvað kemur.Pólland sept-okt 006  Solla bauð okkur heim til sín í dag til að bæta í englaskarann. Mamma og Hrefna systir hennar mættu og tóku þátt í fjörinu.  Hekla Rut gerði einnig engla en Lucy lét sér fátt um finnast.  Hún lofaði þó að senda mynd af hluta afrakstursins.  Það var gaman að spjalla yfir skemmtilegu föndri þó puttarnir hafi ekki sloppið alveg frekar en fyrri daginn!  Hlustaði svo á Kim Larsen á Rás 2 á leiðinni heim.  Ekki ónýtt þar sem nú styttist í að sjá hann og heyra á tónleikum.

Wish you were here


Laugardagur til lukku

Fengum tvo (af fjórum mögulegum) í heimsókn í dag.  Hinir tveir voru hér í gær til skiptis.  Gaman að fá fríska stráka til liðs við sig á góðum degi.  Ég tók til í baðskápunum og maðurin minn hafði smá fund meðan þeir voru.  Þeir voru svo góðir að leika sér og fylgjast með að það var bara notalegt að hafa þá og ekkert vesen.  Pabbi þeirra nýfarin á sjó eftir smá frí og þeir því fegnir að koma til ömmu og afa meðan mamman erindaðist eitthvað.  Þegar þeir fóru leyfði ég þeim eldri að taka playmobil skipið sem ég keypti á e-bay í haust með sér.  Ég keypti tvö og hitt fer til hinna strákanna.  Þeir hafa leikið mikið með þau hér en geta alltaf kippt þeim með hingað aftur með sér ef þeir vilja.  Nú er ég að fara til Sollu systir að elda sunnudagamatinn.  Við ætlum að föndra fleiri engla á morgun svipaða þeim sem við gerðum nýlega og borða þar í hádeginu.  Síðan  elda ég álíka glás undir handleiðslu hennar og tek með heim til að hafa hér annað kvöld fyrir okkur.  Mér finnst svo spennandi að fá nýjar uppskrifti og læra að elda eitthvað öðruvísi en ég er vön.  Þessi uppskrift er frá Tona manninum hennar og eru þetta kjötbollur í tómat með spaghettí.  Læt ykkur hafa uppskriftina eftir helgina.

Ljós og skuggar

 

Í daufri skímu

stóð ég

álengdar

í skugganum

 

Það var nótt

 

Þegar birti

í sálu minni

sá ég ljósið

 

Skerandi

skært

 

Hvar varst þú?

 

Ég var þar

en þú

varst þar

ekki

 

Þegar birti

 

 

             Vilborg Traustadóttir


Stjörnuspá

SteingeitSteingeit: Þú hefur áhuga á öllu milli himnins og jarðar og því er svo gaman að vera með þér. Visst verkefni er öðruvísi en þú ímyndaðir þér það, en það er einstakt og því betra.
Flest verkefni sem ég tek að mér eru öðruvísi en ég ímynda mér, er ég þá ekki einstök?

Fínn dagur

Í dag er þessi líka fíni dagur í uppsiglingu.  Kristján Andri er mættur á svæðið og verður með ömmu í dag.  Síðan koma Geir Ægir og Viktor eftir hádegið en pabbi þeirra fer á sjóinn í dag eftir nokkra daga heima.  Það er alltaf tregablandið þegar hann fer aftur á sjó eftir frí. Svona er nú lífið og það eru ekki bara sjómannsfjölskyldur sem búa við það að aðilar vinna fjarri heimilinu.  Í "smækkandi" heimi búa æ fleiri við það að einhver í fjölskyldunni vinnur jafnvel í öðrum löndum og/eða ferðast mikið vegna vinnu sinnar.  Flugmenn og flugfreyjur, afsakið flugþjónar, þeytast um loftin blá.  Svo eru auðvitað allir hinir sem vinna frá morgni til kvölds og sjá varla fjölskylduna nema með stírurnar í augunum á harðahlaupum að morgni.  Þá er gott að vera "amma í fullu starfi" og geta tekið á móti duglegum drengjum sem komast ekki af einhverjum ástæðum á leikskólann sinn.   Sjómennirnir eru þó alltaf ofarlega í hugum okkar og það er inngreypt þjóðarsálina einhverskonar 
sjómannarómantík.  Hetjur hafsins sem dregið hafa björg í bú gegn um aldirnar.  Þó það sé auðvitað að breytast eins og allt annað í okkar síbreytilega heimi. 
Ég á samt einhvern veginn erfitt með að sjá aðra stétt taka við því hlutverki.  Verslunarmennirnir? Hugbúnaðargeirinn? Verðbréfaheimurinn?  Varla...
Líftækniiðnaðurinn? Lyfjarisarnir?  Því síður....
Stjórnmálamennirnir?  Aldrei...

Brjálað að gera

Brjálað að gera hjá "ömmu í fullu starfi".  Kristján Andri var með hita og fór ekki á leikskólann. Hann kom til ömmu í staðinn.  Við höfðum það svo huggulegt saman þar til mamma hans kom að ná í hann til læknis um hálf eitt.  Mamma kom með kjöt fyrir mig að hakka en ég var búin að "grobba mig" svo af hakkavélinni minni.  Í sama mund kom Geir Fannar með strákana Geir Ægi og Viktor meðan hann skrapp að erindast eitthvað.  Ég setti spólu í dvd og fór svo að hakka.  Þvílíkt puð! Hakkavélarhnífurinn beit ekki á blautan skít.  Ekki það að rollukjötið væri blautur skítur en það gekk hvorki né rak að koma því í gegn.  Ég tók það til bragðs að tæta það gróflega niður í matvinnsluvélinni og setja það síðan í hakkavélina.  Samt var hakkavélin alltaf að hiksta. Ýmis "búkhljóð" fylgdu og komu strákarnir af og til í eldhúsið til að athuga hvort allt væri í lagi með ömmu sína. Þetta hafðist og kom mamma að sækja afurðirnar rétt fyrir Leiðarljós (Unaðsóma = þýðing pabba) en þá voru guttarnir nýfarnir.  Ég stóð varla í lappirnar eftir einvígið við bévaða hakkavélina!
Við Solla skelltum okkur svo að ná í meira föndurefni í engla þar sem ekkert lát virðist vera á eftirspurn í þá.  Því næst fór ég í kvöldskóla Kópavogs þar sem ég er í myndlistarnámi ásamt Mánga bróður og Döggu.  Á morgun kemur svo Kristján Andri aftur til mín og verður alveg til hálf fjögur. 
Við Solla ætlum líka að viða að okkur enn meira efni en við þurftum að panta hausa á englana þar sem við kláruðum þá víst í gær.
Og nota bene ég ætla að fá mér nýjan hníf í hakkavélina.  Svona upp á framtíðina að gera!

Lay Low - góð

"http://www.youtube.com/v/xt-uv6bcq2g&rel=1"

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband