mán. 7.7.2008
Surtla-tákn um frelsi - líka Frigg
Ég man eftir mörgum merkilegum skepnum frá uppvexti mínum á Sauðanesi við Siglufjörð. Bera þar hæst "Mórurnar" sem voru afburða styggar kindur sem gengu eins og kallað var framan í Strákafjallinu. Þær hétu Fenja, Fála og Frigg.
Nú bar svo við að Frigg varð mjög gömul en alltaf hélt hún sig við sama heygarðshornið og lét illa ná sér á haustin. Einhvern vegin tókst henni að láta þyrma lífi sínu þannig að hún varð a.m.k. 13 eða 14 vetra. Sem er mjög gamalt fyrir kind. Frigg var líklega 13 vetra þegar búið var að ákveða örlög hennar og hún var komin í slátursdilkinn. Þegar svo átti að aflífa hana tókst henni að slíta sig lausa og stökkva yfir dyr sem voru hálfar eins og stundum er í fjárhúsum (tvískiptar). Hún hljóp rakleitt fram á sjávarbakka, fótafúin eins og hún var. Bakka sem eru 50 til 100 metrar og brattir niður í fjöru. Þar renndi hún sér niður.
Pabbi flýtti sér heim til að sækja byssuna svo hann gæti aflífað hana í fjörunni. Honum datt ekki í hug annað en að hún væri brotin og brömluð þarna í fjörunni. Þegar hann svo kom niður í fjöru með byssuna stakk Frigg gamla sér til sunds og synti til hafs. Pabbi varð frá að hverfa. Þegar skepnan sá að hann hörfaði sneri hún til lands á ný. Hún var sett á annan vetur eftir þetta þrekvirki sitt. Ég man eftir henni í sér stíu þar sem pabbi batt hana upp með strigapoka undir sig svo hún næði að éta. Ég held að hún hafi fengið frí frá "barneignum" þetta síðasta ár sitt og dáið södd lífdaga haustið eftir þegar hún orkaði ekki að stunda frekari baráttu fyrir lífi sínu.
-
Það leiðréttist hér með að hún Frigg fékk ekki frí frá "barneignum" síðasta árið heldur var hún tvílembd og skilaði vænum lömbum síðasta haustið sitt. Trúlega ætlaði hún að ráða örlögum sínum sjálf því pabbi rölti "inn í á" sem kallað var, en það var inn að Engidalsá sem rennur þarna um. Þá sá hann fjóra mórauða fætur standa upp úr dýi og lömbin hennar hjá dýinu. Pabbi brá skjótt við og dró Frigg upp úr dýinu og varð henni ekki meint af. Kannski var hún heldur ekki búin að átta sig á "fötlun" sinni og því sokkið ofan í dýið en hún var eins og fram hefur komið orðin afar fótfúin.
--
We once had a sheep that was very special. It fought for its life running and swimming away from the gun. The sheep´s name was Frigg and it became 14 years old (at least) but that is very old for a sheep.
Tákngervingur frelsis | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Hennar tími var greinilega ekki kominn, alveg magnað hvað dýrin finna á sér
Svanhildur Karlsdóttir, 7.7.2008 kl. 23:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.