Færsluflokkur: Lífstíll

Dásamlegir lampar og kertaljós

Ég held að margir séu að breyta um lífsstíl þessa dagana.  Ég fann það hjá sjálfri mér hvernig ég hrökk í sparnaðargírinn um leið og krepputalið hófst og eftir því sem það varð háværara og háværara því meira klæjaði mig í puttana eftir að gera eitthvað.  Þegar hrun bankanna blasti við okkur og staða almennings á Íslandi varð mjög óljós svo ekki sé meira sagt, þá tók ég slátur og keypti lítinn frystiskáp undir það.

Síðan tökum við frystiskápinn með okkur til Djúpavíkur næsta vor þar sem mikil þörf er fyrir hann vegna þess að þegar við erum þar í nokkrar vikur verðum við að hafa með okkur slatta af mat sem geymist ekki nema í frysti.

Þannig að hann nýtist áfram - eftir kreppu. 

-- 

Ég fór með vinkonu minni í "andlegan leiðangur" eins og við köllum það.  Þá förum við í Betra líf í Kringlunni og kaupum okkur reykelsi o.þ.h.  Í þetta sinn keyptum við okkur salt-lampa og kertastjaka úr Himalaya.  Dásamlega falleg og róandi birta af þeim og virkar róandi á mann og á að hafa alls kyns góð áhrif m.a. hreinsa loftið og koma á jafnvægi.

--

Svo fengum við okkur kaffi niðri í Kaffitár.  Allt í einu datt upp úr mér þegar við vorum að ræða efnahagsástandið, "við getum þá alltaf mulið lampana út í grautarpottana, þetta er salt".

Við hlógum okkur svo máttlausar við tilhugsunina um okkur við pottana að mylja niður salt-lampana okkar fínu oní grautinn.

--

Án gamans, ég held ég rölti í mótmælin á morgun, þetta er ekki einleikið með klaufagang okkar í þessum málum öllum. 

 


Flensan á undanhaldi

Krækti mér í þessa líka ferlegu flensu.  Enda eru flensur ætíð ferlegar.  Ég missti mánudaginn nánast úr nema það sem ég staulaðist um hér inni.  Mikið verður maður eitthvað bjargarlaus svona veikur.  Best að liggja og sofa eins og steinn allan daginn.

Það tekur tíma að ná sér upp úr svona veikindum.  Kona sem ég heyrði í í morgun er búin að vera tvær vikur í þessu. fimm daga heima og hálf slöpp í vinnu síðan.  

Börn og barnabörn  ýmist veik eða að jafna sig. 

 

Gott að þessi óværa er á undanhaldi (eða það vona ég a.m.k.).......W00t 


Bloggvinir með vörtu.....

Bloggvinir með vörtu eru alvarlega að íhuga að hittast.  Það að hafa vörtu gerir fólk afar sérstakt.  Ekki síst á tímum lýtalækninga og fegrunaraðgerða.

Bloggvinir með vörtu eru að hugsa um að taka sumarbústað á leigu yfir eina helgi til að "hrista" hópinn saman.  Þá eru þeir aðallega að hugsa um andlegt pepp til að láta ekki tilleiðst og láta fjarlægja vörtuna. 

Einnig að hafa það huggulegt saman og finna hve það að hafa vörtu getur sameinað aðila.

Áhugasamir látið vita.....Wink  

 


Tilfinningar

Tilfinningar eru jafnan feimnismál meðal manna.  Það þykir ekki sæmandi að sýna viðbrögð við einu eða neinu opinberlega.  Þ.e.a.s. ef það tengist tilfinningum manns.  Það getur í sjálfu sér verið rétt að hafa varann á og láta ekki gamminn geysa í tíma og ótíma.  Ég hugsa að flestir vandi sig í því að koma tilfinningum sínum í þann búning sem þeir vilja að aðrir sjái þær í.  

 

Það tekst misjafnlega vel hjá bloggurum. 

Mér finnst t.d. ekki gaman að lesa einhvern einkahúmor milli tveggja eða fleiri einstaklinga á blogginu. Jafnvel ekki þó það séu miklar tilfinningar að baki honum.  Kommon siminn er til þess að tjá sig um  sínar helgustu tilfinningar eða þá msn eða skype.  Hlífið mér við ástsjúkum tilfinningavellum og því að reyna að ganga í augum á hinum aðilanum "online".

 Sem betur fer er ekki mikið um þetta en ég hef þó af og til dottið inn á síður hjá einstaklingum í mökunarhugleiðingum sín á milli

Það er í hæsta máta óþægilegt. 

Það er afar vandmeðfarið að "skrifa með hjartanu" en það eru nú samt þannig blogg sem mér finnst skemmtilegast að lesa.  Vel fram sett tilfinning t.d. í ljóði eða hnitmiðuðu bloggi er gulls ígildi.

Línan er hárfín og listin að skrifa með hjartanu er ekki öllum gefin.  Því skemmtilegra er að lesa það sem vel tekst til hjá góðum bloggurum.  

 

Bara svona að pæla........ 

  

 

 


Framhjáhald á netinu

Er virkilega til framhjáhald á netinu?  Svarið er já.  Ég hef orðið vitni að því oftar en einu sinni að einstaklingar eru að draga sig saman á netinu.  Meira að segja hér á hinu blásaklausa moggabloggi.  Ég var nú svo græn að ég fattaði þetta ekki í fyrstu og tók þátt í fíflaganginum.  Daðraði m.a.s. pínulítið og dauðsé eftir því núna.  Ég sé það eftir á að framhjáhald getur gengið lengi og fyrir allra augum á netinu og margir taku þátt í því að hylma yfir.  M.a. með fjölda athugasemda sem "fela Sökudólgana".  Látum vera að einhleypt fólk sé að "markaðssetja sig" á netinu. En þegar harðgift fjölskyldufólk lætur eins og táningar þá er nú fokið í flest skjól!
Ég vona bara að ég með mínum fíflalegu athugasemdum á sumum stöðum hafi ekki sært aðra um of.  Nóg um þetta.  Lífið er miskunarlaust og sumt fólk er miskunarlausara en annað.   
Brennivínið lúrir oft að baki og Bakkus karlinn glottir framan í heiminn.  Hann er konungur auðmýkingarinnar.  

Jólin-Tysabri- áramótin

Nú líður að jólum.  Hef verið að kaupa jólagjafirnar sem voru eftir.  Fór upp í Mosó að kaupa eina í gær.  Segi ekki meir. Við Solla tókum til hjá mér í fyrradag og daginn þar áður. Tókum tölvuherbergið og borðkrókinn.  Endurhönnuðum ýmislegt.  Solla þjálfuð í þessu.  Allt voða fínt.  Fjórir dagar til jóla segir Mogginn.  Ekki lýgur Mogginn.  Föndur í dag með tengdadóttur og barnabörnum. 
Tysabri
Setti inn hér færslu um daginn varðandi lyfið Tysabri og MS.  Hef ekkert frétt enn af stöðu mála.  Leiðrétti mig aðeins í þeirri færslu þar sem ég setti inn allt of lága summu miðað við  þann kostnað pr. mann sem ég lagði upp með.  Beið eftir að aðrir gerður það en gerði það svo sjálf þegar enginn annar gerði það.  ;-)
Ég setti að vísu kostnað í hærri kantinum en ef við lækkum hann niður í 500 þúsund daginn (lægri upphæð, með engum sérkostnaði) samkvæmt heimasíðu LSP erum við samt sem áður með fimmtán hundruð milljóna kostnað fyrir ríkið, miðað við lengri innlagnir vegna lyfjaleysis MS sjúklinga.  Þá er verið, samkvæmt þessu, að kasta krónunni fyrir aurinn í orðsins fyllstu merkingu.  Spara 100 milljónir en sóa á móti 1400, já fjórtán hundruð milljónum.
Leiðrétting óskast ef ekki er rétt með farið!
Áramótin
Ég bíð spennt eftir áramótunum, af fleiri en einni ástæðu!

Hveragerði - komin heim

Kom heim í dag eftir vel heppnaða dvöl hjá Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði.  Mjög gott að fá aukinn þrótt og liðlleika.  Borða hollan og góðan mat í nokkrar vikur og þurfa ekki að elda hann! Kynnast góðu fólki og mynda tengsl sem maður veit að eru komin til að vera í mörgum tilfellum. Það var þarna m.a.  skemmtileg kvölddagskrá byggð á ævi og verkum Sigvalda Kaldalóns.  Guðrún Ásmundsdóttir leikkona tók saman dagskrá um ævi hans og kirkjukór Selfoss og Kotsrtandarhrepps söng lögin. Ég gerði töluvert af því að kíkja í bolla á "kaffistofunni", en þó það sé ekki boðið upp á kaffi hjá stofnununni þá mega dvalargestir hella sér upp á í þvottahúsinu.  Það gerðum við óspart og þar sem ég er bæði kjöftug og áræðin var mér falið að spá í þá bolla sem hvolft var.  Ásamt öðrum mér reyndari spákonum. Það kom sjálfri mér reyndar meira á óvart en þeim sem ég spáði fyrir hve það sem ég sagði passaði við það sem var í gangi hjá fólki.  Ég fékk nánast sjokk í morgun þegar ein kona kom og sagði mér frá símtali sem hún fékk í gær eftir spádóminn að það sem ég spáði fyrir henni um mjög langt ferðalag með pari var hugsanlega að verða að veruleika.  Alla vegana var komin upp sú staða að það var komið á athugunarstig að fara til Ástralíu með pari!  Margt annað sem ég sagði við hana passaði nákvæmlega við hennar líf og ég er alvarlega að hugsa um að leggja þetta fyrir mig!  Nema hvað. 


Langt helgarfrí

Tók mér langt helgarfrí þessa helgi frá Hveragerði.   Spáin var svo brjáluð fyrir morgundaginn að ég skellti mér heim í dag.  Það er ágætt að vera komin á skrið í sjúkraþjálfun, sundleikfimi og æfingum. Ætla svo að taka næstu viku sem er síðasta vikan með trompi enda finn ég að munurinn er að koma fram á mér núna.  Þetta byrjaði mjög hægt en er í áttina.  Læt mig svo bara hlakka til jólanna enda nota ég dauðar stundir í Hveragerði til að pakka inn jólagjöfunum.  Margþætt endurhæfing það!  Set kannski meira inn um helgina. 

Í formið fyrir normið

Ég er í Hverageði. Ætlaði svona aðeins að "skerpa á" því "fína formi" sem ég var í.  Ég er að klára fyrstu vikuna í dag.  Þó þetta fari rólega af stað þá fékk ég strax á öðrum degi stundatöflu.  Það er strax betri líðan að vera komin með stundatöflu.  Ég velti mér til og frá í rúminu og skoða hvað ég á að fara í í dag eða á morgun.  Ég tók föstudaginn föstum tökum og fór í allt sem í boði var og meira til.  Enda uppgefin fram eftir helgi.  Hitti sjúkraþjálfara í gær.  Hún sagði mér að hægja aðeins á.  Þess vegna sit ég hér og blogga í stað þess að vera í göngu 1.  Ég fór í leikfimi í morgun.  Í Kapellunni.  Svona "stóla leikfimi" að ég hélt.  Þegar við byrjuðum tilkynnti þjálfarinn að við myndum standa í dag.  Það þyrmdi yfir mig við það eitt.  Ég neyddi mig til að standa upp með bros á vör.  Gaut þó augunum með eftirsjá á stólinn.  Stoð mína og styttu!  Við gerðum svo nokkrar æfingar og skyndilega var okkur stillt upp í röð og látin ganga hring eftir hring í salnum.  (Bara heragi, hugsaði ég).  Kastaði svo tólfunum þegar við vorum látin "klifra" upp á svið og niður aftur (má sleppa sagði þjálfarinn) en hver sleppir þegar maður er í hóp með sér eldra of "reyndara" fólki og vill nú "sanna" sig?  Ég náði þó að krækja í "viðhaldið" (stafinn) í einum hringnum.  Fleira var gert og til að gera langa sögu stutta þá er ég hreinlega og algerlega uppgefin eftir hálftíma í leikfimi dagsins.  Guði sé lof að ég fer í heilsubað í dag.  Þá get ég slappað af hvílt mig eftir erfiði dagsins.  Á morgun fer ég svo til sjúkraþjálfarans aftur og þakka mínu sæla þar sem hún virðist vera skynsamari en ég og segir mér að minna sé oftast meira. Þ.e.að ef þú gerir minna sem þreytir ekki skilar það meiru en ef þú gerir meira og liggur svo bakk í marga daga á eftir!  Nokkuð rökrétt samt.  Ég fer svo í það núna að sætta mig við það að ég er herfilega illa á mig komin líkamlega og verð að vinna það upp smám saman. Verð að horfast í augu við það að ég verð ekki komin í form fyrir Kim Larsen á laugardaginn en get í staðinn og vel hugsanlega reynt að koma mér í formið fyrir normið!

Þreytt!

Þreytt, þreytt, þreytt.  Það er orð dagsins.  Tók Hveragerði með stæl í vikunni.  Innrituð á þriðjudag og pantaði starx snyrtingar og fór í hjúkkuviðtal.  Læknaviðtal á miðvikudag og fékk stundatöflu.  Í bæinn á miðvikudag að redda ýmsu m.a. afruglara til að við vinkonurnar sem erum saman á "hælinu" gætum horft á Stöð 2 inni á herbergi og um kvöldið á myndlistarnámskeið sem ég er á í Kópavogi. Átti svo að mæta í tækjasal á fimmtudag en harðneitaði því þar sem snyrtingarnar voru bókaðar þann dag. Maður hefur nú forgangsröðina á tæru.  Eftir snyrtingu þurftum við að vasast í að fá nýjan afruglara eða öllu heldur gamlan afruglara þar sem digital er ekki á Heilsuhælinu. Sennilega tók um þrjár klukkustundir að stilla hann inn með Og Vodafone á línunni.  Það gekk hvorki né rak og síminn var "sveittur" þegar ég tók við að reyna að stilla eftir að Kristín hafði verið í beinu sambandi í meira en klukkutíma.  Svo kom í ljós að það hafði gleymst að tilkynna gamla afruglarann og því var ekki búið að opna fyrir hann.  Skrýtið og við sáum aldrei beljuna! Stundataflan í heilsumálunum hjá mér hófst svo fyrir alvöru í dag og tækjasalurinn með.  Sjúkraþjálfun næsta mánudag.  En það sem ég er þreytt núna.  Kristín vinkona sömuleiðis.  Við hengsluðumst hálf slefandi af þreytu út í bíl og heim.  Þegar við komum yfir heiðina datt mér í hug að fara í ToysaRus.  Gerðum það og þaðan í Just4Kids.  Því næst hélt hver heim til sín og ekki laust við að þessi "verslunarauki" hafi sett punktinn yfir þreytumörkin!  Fékk tvo ömmustráka í pizzuna og yndilegt að sjá þá.  Ferð að sofa þreytt og sæl eftir dagsins önn.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband