Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Gleðileg jól

Gleðileg jól til ykkar allra sem kíkið hér við, bloggvinir sem aðrir vinir og dyggir lesendur síðunnar. Þakkir fyrir góða viðkynningu og óskir um gæfuríkt komandi ár okkur öllum til handa.

Kærleikurinn sigrar allt.

 

 


Rólegheit

Það eru bara rólegheit hér á bæ í dag.  Ég heimsótti foreldra mína og skutlaði pabba aðeins í búð.  Fór svo með vinkonu minni í smá leiðangur.  

Keypti jólamat fyrir kisu og svo eina jólagjöf.

Ég labbaði í gegn um í Blómval að sækja kisumatinn, það var stútfullt út úr dyrum þar.  Margir að kaupa jólatréð núna.  Maður sá í toppinn á trjánum út úr bílum hér og þar þegar þeir renndu úr hlaði verslunarinnar.

Okkar tré er komið út á svalir þó ekki sé það keypt í Blómaval heldur af Flugbjörgunarsveitinni.

Við ætlum svo að versla inn fyrir jólin í Krónunni á morgun og síðan að taka til og pakka jólagjöfum.  Því næst búum við til ís og eplaköku, sjóðum hangikjöt og undirbúum jólamatinn sem verður hamborgarhryggur.

Jólatréð verður svo sett upp fljótlega og skreytt í rólegheitunum á næstu dögum.

Hátíð í bæ! 

 

 


Jól og kreppa

Það er ekki í fyrsta sinn sem Íslendingar horfa fram á erfiða tíma.  Það er bara svo illalegt að horfa fram á þessa tíma eftir góðærið svokallaða.

Svo innilega illalegt að menn með fullu viti (að því maður hélt) hafi stefnt heilli þjóð í slíkan voðlegan hrunadans sem raun ber vitni.

Öll höfum við dansað með á einn eða annan hátt.  Eftir höfðinu dansa limirnir.

Í minni barnæsku var sannarlega erfið lífsbarátta.  Nýtni og útsjónarsemi foreldra minna sáu þó til þess að aldrei skorti neitt.

Við áttum alltaf nóg að borða og jólin blessuð voru haldin og það með glæsibrag.

Pabbi gekk yfir fjallið og sótti björgina og gjafirnar.  Sem voru ekki af verri endanum.

Dúkkur og dýrindis leikföng, bækur og allt mögulegt.  Á jólunum var þess sérstaklega gætt að allir fengju nóg að bíta og brenna og mamma stóð streitt við að undirbúa jólin með bakstri og tilheyrandi. 15-20 smákökusortir, lagtertur, rjómatertur, flatkökur og stundum laufabrauð þegar Halla á Dalabæ dreif okkur í það.

Borðin svignuðu undir kræsingunum.

Oft voru rjúpur á aðfangadag en ef þær fengust ekki var stundum lambahryggur og svo auðvitað hangikjöt á jóladag.

Pabbi gekk um húsið milli mála og trakteraði okkur á ávöxtum eða konfekti þar sem við vorum sitt í hverju horni að lesa jólabækurnar eða sýsla eitthvað annað. 

Ekki get ég þó sagt að við höfum verið rík í efnislegu tilliti en alltaf höfðum við nóg af öllu og alltaf var lífið gott og gjöfult.

-- 

Það gat verið notalegt að kúra sig niður í bólið á kvöldin og sofna út frá mali mömmu og pabba um það hvernig þau ætluðu að láta enda ná saman.

Það fylgdi því viss öryggiskennd að heyra hvernig þau unnu í málum og maður treysti því fullkomlega að þau stæðu sína plikt.

Sofnaði sæll og glaður vitandi að morgundagurinn yrði góður því öryggi okkar var tryggt hjá mömmu og pabba.

--

Ó aðeins ef þau sem nú stjórna Íslandi hefðu brot af peningaviti forvera okkar sem virkilega hafa þurft að hafa fyrir hlutunum.  Þá værum við kannski aðeins betur stödd.

Eitt er víst að við verðurm að sleppa öllum hroka og beita auðmýktinni, seiglunni og kærleikanum því annars er baráttan fyrirfram töpuð.

Og samhjálpinni! 

Ég vona að við eigum öll gleðileg jól og munum að faðma hvert annað aðeins þéttar þessi jólin. Smile 

 

 

 

 

 

 


Heja Norge

Það er gaman að lesa svona frétt þar sem sannur vinaandi ríkir.  Fölskvalaus löngun til að láta gott af sér leiða.

Meðan nágrannar okkar eru svona þenkjandi getum við verið bjartsýnni en ella.

Við eigum að temja okkur þakklæti Íslendingar.

Þakklætið er móðir svo margra góðra tilfinninga. 

 

 


mbl.is Herferð fyrir Íslendinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skreytt hátt og lágt

Við skreyttum vel og vandlega með tveimur ömmu og afastrákum í dag, söknuðum hinna tveggja.

Það er miklu skemmtilegra að skreyta þegar sérfræðingar í jólum og jólasveinum eru með til halds og trausts.

Eigið sem bestan dag. 


Aðventukaffi og ömmustrákar

Ég fór í aðventukaffi í dag til mágkonu minnar.

Það var mjög gaman að hitta fjölskylduna.

Tveir af fjórum mögulegum ömmu og afastrákum gista hér í nótt.

Afi þeirra sem var að koma frá Stokkhólmi keypti úr handa þeim og þeir fylgjast vel með tímanum núna og segja okkur að það sé komin háttatími eftir að hafa horft gaumgæfilega á klukkurnar sínar. 

Horfðu á Latabæ á Stöð 2 áðan og eru núna að leika sér aðeins fyrir svefninn.

Það er virkilega gaman að þessu. 

Flottir strákar. 


STJÖRNUSPÁ


SteingeitSteingeit: Þó þú sért vanalega upp á þitt besta þegar það er nóg að gera hjá þér, þá geturðu verið afar góð/ur í að gera ekkert.
 
--
Þetta á afar vel við mig stundum en þessa dagana er ég í ágætu stuði að huga að vinum og ættingjum, njóta samverustunda og skreppa í verslunarleiðangra svo eitthvað sé nefnt.
 
Átti fínan dag í dag með tveim ömmustrákum en við vorum að selja flöskur og kaupa svo smá dót fyrir afraksturinn.
Í gær með hinum tveim ömmustrákunum en ég fékk að hafa þá hér og fara svo með þá heim til sín og koma þeim í háttin.
 
Yndislegt að spjalla við þá og heyra ýmsar pælingar hjá þeim. 
 

STJÖRNUSPÁ


SteingeitSteingeit: Þú ert sannkallaður gleðigjafi. Ef þú vilt vera yfirgengilega örlátur, skaltu gerast róttækur: ákveddu að taka ekki eftir því hvort fólk er jafn vinsamlegt við þig og þú við það.
--
 
Kannski og vonandi á þetta við daginn. Ég var alla vega vinsamleg við alla.
 
Ég átti góðan dag með vinkonu minni í dag.  Maðurinn hennar fór í stóra aðgerð í morgun og við ákváðum að fara saman í leiðangur og útrétta ýmislegt til jólanna.
Svona til að gera huggulegt í kring um okkur um leið og við dreifðum erfiðum hugsunum.
Við byrjuðum í bankanum til að fjármagna ferðina.  Þaðan var haldið í Hagkaup og þar sem við vorum að koma úr bankanum þurftum við ekki að notfæra okkur lánafyrirgreiðslur verslunarinnar.  Ekki að þessu sinni.
Því næst héldum við í Blómaval þangað sem ég er reyndar nánast hætt að fara (hvað gerir maður ekki fyrir vini sína) og keypti ég þar smávegis greni og skraut til að gera aðventukransinn sem ég gleymdi að gera fyrir helgina.
Að því búnu sóttum við pakka sem vinkona mín fékk sendan að norðan.
Þar sem nú leið að því að hún fengi fréttir af manni sínum stakk ég upp á kaffi heima hjá henni.  Þegar við erum að ganga upp stigann hringdi síminn. Það var sonur vinkonu minnar með góðar fréttir af pabba sínum. Aðgerðin tókst vel en ástandið eftir erfiða aðgerð er auðvitað dálítið tvísýnt fyrstu dagana.
Þó var mikill léttir að fá þessar fréttir um leið og við komum heim. 
Að kaffisopa loknum héldum við í Rúmfatalagerinn þar sem við bættum lítillega í jólabúið en ég keypti aðventuljós þar sem mitt varð ónýtt í fyrra.  Ljósið kostaði 790 kr ef ég man rétt.  mér sýndist það nákvæmlega eins og ljósið í Hagkaupum nema þar kostaði það mun meira. 
Loks héldum við í Pennann þar sem ég keypti dagatöl fyrir frændfólk mitt í Ameríkunni.  
Hið sama frændfólk og hafði af því nokkrar áhyggjur að við værum svöng og sendi mér e-mail um daginn til að spyrjast fyrir um það.
Ég svaraði þeim um hæl og sagði. "We are not hungry but we are angry"! 
 
 

Magga systir sagði mér að taka þetta til mín.....

....ég geri það bara!  Wink 

 

Glaðværðin á rætur í hjarta

þínu og breiðist þaðan út. Grin

 

Verð á fullu í dag en læt þjóðmálin til mín taka fyrr en varir!

Hafið það gott í dag og alla daga. Heart 


Komin heim

Ég er komin heim eftir vel heppnaða ferð til Akureyrar.  Ég var hjá Möggu systir og hennar manni.  Við Magga fórum á myndlistarnámskeið hjá Erni Inga um helgina.

Það var virkilega gagnlegt og skemmtilegt.  Við hittum einnig Kristínu vinkonu og höfðum gaman saman. M.a. borðuðum við slátur saman á sunnudaginn.

Dalí hundurinn Möggu og José er mjög hændur að mér.  Magga sagði mér að þegar hún kom heim eftir að hafa skutlað mér á flugvöllinn kom hann á móti henni og hljóp niður að leita að mér, fór svo út á svalir til að gá betur og þegar ég var ekki með skreið hann undir hjónarúm sem hann gerir aldrei nema á nóttinni.

Hundurinn lagðist hreinlega í þunglyndi.

Ég set kannski inn myndir þegar ég er ekki svona þreytt en ég var að koma úr myndlistartíma hjá Litagleði sem er skemmtilegur hópur fólks sem hefur kennara sér til halds og trausts í myndlistinni.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband