sun. 3.1.2010
Sjálfstæði þjóðar
Íslendingar háðu erfiða sjálfstæðisbaráttu á sínum tíma og höfðu það af að ná sjálfstæði sínu þrátt fyrir miklar mótbárur og ströggl nýlenduþjóðar.
Sjálfstæðið hefur verið okkur dýrmætt og þeir sem muna eftir baráttunni klökkna við tilhugsunina um þær fórnir sem færðar voru í þeirri baráttu.
Nú verður að segjast eins og er að ekki höfum við farið sérlega vel með fjöreggið sem okkur var falið. Við létum sjálfstæði okkar eftirlitslaust í hendurnar á fjárglæframönnum. Í sjálfu sér er ekkert ljótt við það að græða peninga og auðvitað skiljanlegt að hættulegasta rándýr jarðarinnar maðurinn fari eins langt og hann kemst í þeim efnum.
Það sem er athugavert er það að stjórnvöld og þingheimur allur brugðust þjóðinni þegar ekki var sett regluverk um hvernig mætti sýsla með peningana okkar. Regluverk sem hefði komið í veg fyrir að þjóðarbúið okkar væri skuldsett langt umfram þjóðarframleiðslu langt fram í tímann.
Nú þegar þjóðin hefur sagt hingað og ekki lengra, stuðlað að því að skipta um fólk í brúnni er staðan enn verri en nokkru sinni fyrr. Nýju skipstjórarnir eru nefnilega undir kúgunarvaldi nýlenduþjóða Evrópu og vilja vera þar!
Það er kaldhæðnislegt að Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J Sigfússon séu svo æst í að komast aftur undir ægivald þjóða nýlendustefnu sem tók þjóðina áratugi að brjótast undan.
Að gangast í ábyrgð á öllum Icesave skuldbindingunum á okurvöxtum þýðir eingöngu það að nýlenduþjóðirnar fá fjöreggið okkar í hendur á ný.
Við eigum ekki að láta það af hendi án þess að þjóðin fái sjálf að greiða um það atkvæði.
Þetta varðar sjálfstæði þjóðarinnar.
Skora á forsetann að staðfesta Icesave | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.