mið. 28.1.2009
Stjórnlagaþing
1994–95. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
118. löggjafarþing. – 213 . mál.
241. Frumvarp til laga
um stjórnlagaþing.
Flm.: Jóhanna Sigurðardóttir.
1. gr.
Efna skal til stjórnlagaþings eigi síðar en 1. júní 1995. Skal það hafa lokið störfum fyrir 15. september 1995.
2. gr.
Stjórnlagaþing skal endurskoða stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33 17. júní 1944. Sérstaklega skulu teknir til athugunar eftirtaldir þættir:
a . Ákvæði stjórnarskrárinnar um mannréttindi, kosningar og kjördæmaskipan, þingrof, setningu bráðabirgðalaga og ráðherraábyrgð.
b . Skil löggjafarvalds og framkvæmdarvalds.
c . Þjóðaratkvæðagreiðslur.
3. gr.
Stjórnlagaþing skal skipað 41 kjörnum fulltrúa og jafnmörgum til vara. Þeir skulu kosnir persónukosningum og fjöldi þeirra skiptast á milli núverandi kjördæma á þennan hátt:
a . Reykjavíkurkjördæmi, 14 fulltrúar.
b . Reykjaneskjördæmi, 7 fulltrúar.
c . Vesturlandskjördæmi, 3 fulltrúar.
d . Vestfjarðakjördæmi, 3 fulltrúar.
e . Norðurlandskjördæmi vestra, 3 fulltrúar.
f . Norðurlandskjördæmi eystra, 4 fulltrúar.
g . Austurlandskjördæmi, 3 fulltrúar.
h . Suðurlandskjördæmi, 4 fulltrúar.
Framboði skal fylgja undirskrift meðmælenda. Ræðst fjöldi þeirra af margfeldi af fulltrúatölu kjördæmisins og talnanna 30 að lágmarki og 40 að hámarki.
Kjörgengir til þingsins eru þeir sem eru kjörgengir til Alþingis. Alþingismenn skulu þó ekki sitja stjórnlagaþing.
Raða skal frambjóðendum í stafrófsröð á kjörseðil. Kjósandi skal merkja við jafnmarga frambjóðendur og kjósa skal í kjördæminu.
Um kosningar til stjórnlagaþings fer að öðru leyti samkvæmt lögum um kosningar til Alþingis.
4. gr.
Stjórnlagaþing kýs forseta sem stýrir fundum þess.
Stjórnlagaþing starfar í einni málstofu og gilda þingsköp Alþingis sem fundarsköp þingsins eftir því sem við á.
Forseti þingsins leggur fram tillögu um nefndaskipan og aðra vinnutilhögun þess.
5. gr.
Forseti stjórnlagaþings skal hlutast til um að lagt verði fram frumvarp til stjórnarskipunarlaga. Skulu þrjár umræður fara fram um frumvarpið.
Hljóti frumvarpið samþykki þingsins skal bera það undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar. Um framkvæmd atkvæðagreiðslunnar fer eftir lögum um kosningar til Alþingis eftir því sem við á.
6. gr.
Stjórnlagaþing skal haldið í húsakynnum Alþingis svo fremi sem það raski ekki störfum Alþingis. Stafsmenn Alþingis skulu vera starfsmenn stjórnlagaþings.
7. gr.
Fulltrúar stjórnlagaþings njóta sömu kjara og alþingismenn frá setningu þings til þingloka.
Kostnaður af stjórnlagaþingi greiðist úr ríkissjóði.
8. gr.
Lög þessi öðlast þegar gildi.
Greinargerð.
Frumvarp þetta er lagt fram samhliða frumvarpi til stjórnarskipunarlaga um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33 17. júní 1944, og vísast í greinargerð með því máli um almennar athugasemdir. Þar er mælt fyrir um heimild til stjórnlagaþings á árinu 1995 sem taki stjórnarskrána til endurskoðunar. Í þessu frumvarpi er kveðið nánar á um reglur um skipan og starfshætti þingsins.
Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.
Í greininni er kveðið á um að efnt skuli til stjórnlagaþings eigi síðar en 1. júní 1995. Gert er ráð fyrir að það hafi lokið störfum fyrir 15. september. Þykir það heppilegt svo að hægt verði að kjósa nýtt Alþingi áður en vetur gengur í garð, sbr. III. kafla greinargerðar með stjórnarskrárfrumvarpinu.
Um 2. gr.
Hér er mælt fyrir um hlutverk stjórnlagaþings en það er að endurskoða stjórnarskrána. Er þá átt við að stjórnarskráin verði endurskoðuð í heild sinni, núverandi ákvæði hennar verði athuguð og jafnframt hugað að nýjum ákvæðum.
Í greininni eru talin upp atriði sem stjórnlagaþing skal skoða sérstaklega og vísast um þau atriði í greinargerð með frumvarpi til stjórnarskipunarlaga sem lagt er fram samhliða máli þessu.
Um 3. gr.
Lagt er til að stjórnlagaþing verði skipað 41 þjóðkjörnum fulltrúa. Lagt er til að þeir verði kosnir persónukosningum. Með persónukosningu er átt við að þeir sem gefa kost á sér til setu á þinginu geri slíkt sem einstaklingar en séu ekki bornir fram sem fulltrúar tiltekinna samtaka. Slíkt fyrirkomulag gefur kjósendum tækifæri til að velja menn á þingið án tillits til hvaða flokki eða samtökum þeir tilheyra. Þannig getur kjósandi valið fulltrúa með mismunandi pólitískar skoðanir.
Þá þykir eðlilegt að gera kröfu um að frambjóðendur hafi tilskilinn fjölda meðmælenda, enda mikilvægt að til þingsins veljist einstaklingar er njóti góðs trausts samborgara sinna. Slík krafa er einnig í samræmi við 27. gr. laga um kosningar til Alþingis en þar er kveðið á um tiltekinn fjölda meðmælenda með hverjum framboðslista.
Gert er ráð fyrir að fulltrúar á stjórnlagaþingið verði kjörnir í núverandi kjördæmum landsins. Við skiptingu fulltrúa á kjördæmin hefur verulega verið tekið mið af fjölda íbúa í kjördæmum og þannig reynt að jafna vægi atkvæða mun meira en nú er. Þó er gert ráð fyrir að hvert kjördæmi kjósi eigi færri en þrjá fulltrúa á þingið.
Kjörgengir verði þeir sem eru kjörgengir til Alþingis, aðrir en alþingismenn. Ekki er telið heppilegt að alþingismenn sitji stjórnlagaþingið þar sem mörg veigamikil atriði, sem þingið þarf að taka ákvörðun um, varða alþingismenn beint.
Hvað framkvæmd kosninganna varðar er lagt til að frambjóðendum verði raðað eftir stafrófsröð á kjörseðil og kjósandi merki við jafnmarga fulltrúa og kjósa skal í kjördæminu, t.d. merki kjósandi í Reykjaneskjördæmi við sjö fulltrúa. Með hliðsjón af almennum reglum um kosningar og orðalagi 1. mgr. greinarinnar þykir óþarfi að kveða á um í frumvarpinu að þeir frambjóðendur hljóti kosningu sem hljóti flest atkvæði, svo og að þeir verði varafulltrúar sem næstir koma að atkvæðafjölda.
Um kosningarnar að öðru leyti fari eftir lögum um kosningar til Alþingis og má þar nefna ákvæði um kosningarrétt, fresti og frekari framkvæmd kosninga.
Um 4. gr.
Gert er ráð fyrir að stjórnlagaþing starfi í einni málstofu og að þingsköp Alþingis gildi sem fundarsköp eftir því sem við á. Þá er mælt fyrir um að forseti þingsins skuli leggja fram tillögu um nefndaskipan og aðra vinnutilhögun þess. Slík tillaga yrði lögð fram í byrjun þingsins þannig að hægt sé að skipa nefndir er fjalla um einstaka þætti stjórnarskrármálsins, en vinna þeirra yrði lögð til grundvallar því frumvarpi til stjórnarskipunarlaga sem þingið mundi síðan fjalla um. Mætti hugsa sér að nefndirnar tækju til starfa þegar eftir setningu þingsins og á meðan yrði gert hlé á þingstörfum. Eftir að nefndirnar hafa komið sér saman um tillögur verði þær lagðar fyrir forseta þingsins sem leggur þær fram, sbr. næstu grein.
Um 5. gr.
Lagt er til að frumkvæði að framlagningu frumvarps til stjórnarskipunarlaga verði hjá forseta þingsins. Skal frumvarpið rætt þrisvar sinnum. Verði það samþykkt skal bera það undir þjóðaratkvæði og sé frumvarpið einnig samþykkt þá skal það borið undir forseta lýðveldisins til staðfestingar en ákvæði um það er í stjórnarskrárfrumvarpinu. Um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslunnar fari eftir lögum um kosningar til Alþingis eftir því sem við á.
Um 6. gr.
Hér er kveðið á um að stjórnlagaþing skuli haldið í húsakynnum Alþingis. Ef þannig vildi til að Alþingi yrði kallað til starfa á þeim tíma sem stjórnlagaþingið starfaði mundu störf Alþingis ganga fyrir og störf stjórnlagaþingsins flutt í önnur húsakynni.
Um 7. gr.
Ekki þykir óeðlilegt að laun fulltrúa stjórnlagaþings miðist við þingfararkaup alþingismanna þar sem gert er ráð fyrir að seta á stjórnlagaþingi sé fullt starf.
Um 8. gr.
Greinin þarfnast ekki skýringa.
http://www.althingi.is/johanna/greinar/safn/000010.shtml
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:47 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.