fös. 19.12.2008
Jól og kreppa
Það er ekki í fyrsta sinn sem Íslendingar horfa fram á erfiða tíma. Það er bara svo illalegt að horfa fram á þessa tíma eftir góðærið svokallaða.
Svo innilega illalegt að menn með fullu viti (að því maður hélt) hafi stefnt heilli þjóð í slíkan voðlegan hrunadans sem raun ber vitni.
Öll höfum við dansað með á einn eða annan hátt. Eftir höfðinu dansa limirnir.
Í minni barnæsku var sannarlega erfið lífsbarátta. Nýtni og útsjónarsemi foreldra minna sáu þó til þess að aldrei skorti neitt.
Við áttum alltaf nóg að borða og jólin blessuð voru haldin og það með glæsibrag.
Pabbi gekk yfir fjallið og sótti björgina og gjafirnar. Sem voru ekki af verri endanum.
Dúkkur og dýrindis leikföng, bækur og allt mögulegt. Á jólunum var þess sérstaklega gætt að allir fengju nóg að bíta og brenna og mamma stóð streitt við að undirbúa jólin með bakstri og tilheyrandi. 15-20 smákökusortir, lagtertur, rjómatertur, flatkökur og stundum laufabrauð þegar Halla á Dalabæ dreif okkur í það.
Borðin svignuðu undir kræsingunum.
Oft voru rjúpur á aðfangadag en ef þær fengust ekki var stundum lambahryggur og svo auðvitað hangikjöt á jóladag.
Pabbi gekk um húsið milli mála og trakteraði okkur á ávöxtum eða konfekti þar sem við vorum sitt í hverju horni að lesa jólabækurnar eða sýsla eitthvað annað.
Ekki get ég þó sagt að við höfum verið rík í efnislegu tilliti en alltaf höfðum við nóg af öllu og alltaf var lífið gott og gjöfult.
--
Það gat verið notalegt að kúra sig niður í bólið á kvöldin og sofna út frá mali mömmu og pabba um það hvernig þau ætluðu að láta enda ná saman.
Það fylgdi því viss öryggiskennd að heyra hvernig þau unnu í málum og maður treysti því fullkomlega að þau stæðu sína plikt.
Sofnaði sæll og glaður vitandi að morgundagurinn yrði góður því öryggi okkar var tryggt hjá mömmu og pabba.
--
Ó aðeins ef þau sem nú stjórna Íslandi hefðu brot af peningaviti forvera okkar sem virkilega hafa þurft að hafa fyrir hlutunum. Þá værum við kannski aðeins betur stödd.
Eitt er víst að við verðurm að sleppa öllum hroka og beita auðmýktinni, seiglunni og kærleikanum því annars er baráttan fyrirfram töpuð.
Og samhjálpinni!
Ég vona að við eigum öll gleðileg jól og munum að faðma hvert annað aðeins þéttar þessi jólin.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 23:08 | Facebook
Athugasemdir
Orð í tíma töluð
Hulda Margrét Traustadóttir, 20.12.2008 kl. 09:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.