Að sigla beitivind

Það er í þeim aðstæðum sem nú eru uppi í þjóðfélaginu sem við leitum til baka í þjóðareinkennin.  Gamlir siðir, matarvenjur og orðtæki veita okkur ómælt öryggi.

Við förum í öll gömlu gildin okkar.  Við borðum þjóðlegan mat.  Eldum kjötsúpu, saltkjör og baunir, svið og við tökum slátur. 

Við sjóðum ýsu (jafnvel þverskorna), búum til fiskibollur og bökum brauð. 

Ekki endilega vegna þess  að þessi matur sé svo ódýr heldur miklu frekar vegna þess að hann veitir okkur öryggi.

Við tökum fram prjónana og prjónum peysur, við saumum og við búum til hluti sem við keyptum áður. Það veitir hugarró að vera virkur í því að "búa í haginn" fyrir sig og sína. 

Við tókum eftir því að stjórnmálamenn notuðu óspart líkingamál þegar hið alvarlega efnahagsástand var kynnt fyrir þjóðinni, og gera enn.

Við erum "í miðjum brimskaflinu" við erum vön því að "gefi á bátinn" við "stöndum af okkur storminn" við verðum að "stíga ölduna" í þessum mikla "mótbyr" og "rifa seglin", sem sagt "halda sjó". 

Mitt uppáhaldsorðtæki er að "sigla beitivind".  Það er að "í mótbyr" eða þegar á móti blæs þá er seglunum beitt þannig upp í vindinn að skútan siglir ótrauð áfram. Þótt hún fari kannski ekki eins hratt og ef um "beggja skauta byr" væri að ræða þá heldur hún siglingunni áfram.  Oft er hægt að ná býsna góðri siglingu með því að "sigla beitivind".

Það er nauðsynlegt í þessari "holskeflu" sem nú hellist yfirr okkur að sjá "sóknarfæri" og þá er skynsamlegt að "beita seglum eftir vindi". 

Sigling júní 2007 039

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurveig Eysteins

 Mín uppáhalds setning  þessa dagana er: þeir moka skítnum endalaust undir teppið og ryðjast síðan stjórnlaust áfram án þess að líta til hliðar.

Sigurveig Eysteins, 4.11.2008 kl. 09:40

2 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Já og hafa aldrei migið í saltan sjó!

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 4.11.2008 kl. 12:00

3 Smámynd: Hulda Margrét Traustadóttir

Brimskaflarnir eru vinsælir í dag.

Já það er rétt hjá þér þjóðarsálin er eitthvað öruggari með sig (vevvv) í þjóðarréttunum í dag. Ég var til dæmis með salkjötfars bollur í kálbögglum í gær - hef ekki eldað þetta árum saman og um helgina vorum við með saltkjöt og baunir sem við eldum reyndar oftar. Afar gott allt saman og ekki skemmdi fyrir að eiga "beint frá bónda" úrvals gulrætur, sætar og góðar sem einn vinur okkar færði okkur um helgina !

Hulda Margrét Traustadóttir, 4.11.2008 kl. 13:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband