Er MS geðsjúkdómur?

Maðurinn minn færði mér DV í gær. Þar var viðtal við Margréti Ýr sem er með MS en hefur hætt töku lyfja við sjúkdóminum. Hún stundar og kennir rope joga. Telur sig hafa sigrast á sjúkdóminum með nýju hugarfari og breyttum lifsstíl. Gott og vel. Ég efast ekki um að hún er að gera góða hluti. Þó hríslaðist um mig smá kvíðahrollur. Ég mundi nefnilega þegar ég taldi mig vera lausa við MS. Ég skellti mér í eróbikk! Það reyndist mér ekki vel og ég losnaði ekki við MS þó ég segði það sjálf. Nú vil ég ekki draga úr tiltrú manna á því að hugarfarið skiptir máli. Það gerir það virkilega. Ég hef sannreynt það á sjálfri mér og lít ekki enn á mig sem sjúkling, Þó er ég ekkert viðkvæm fyrir því að vera kölluð MS sjúklingur. Ég set samt alltaf spurningarmerki við yfirlysingar af þessu tagi eins og Margrét Ýr setur þær fram, sérstaklega þegar viðkomandi starfar við það sem hann segir hafa "læknað" sig. Þá eru hagsmunir kannski farnir að lita árangurinn? Það sem mér fannst einkennilegt við umfjöllun DV var viðtal við formanninn Sigurbjörgu Ármannsdóttur. Er hún með viðtalinu að hvetja MS einstaklinga til að hætta að taka þau lyf sem læknar ávísa og rannsóknir sýna að skila gríðarlegum árangri í baráttu fyrir betri heilsu MS sjúklinga?  Hún telur upp þá þjónustu sem MS félagið býður upp á. Það eru námskeið fyrir MS sjúklinga og aðstandendur, sálfræðiaðstoð og svo geðlæknir! Sigurbjörg lét loka göngudeild félagsins, rak taugalæknana en ræður geðlækni til starfa. Kannski er það það eina rétta í stöðunni?  Ég vona bara að þessi geðlæknir setji Sigurbjörgu í viðeigandi meðferð.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halla Rut

Ef það er rétt sem þú segir: rak taugalæknana en ræður geðlækni til starfa. Þá er nokk greinilegt á hvað augum hún lítur sjúkdóminn. Auðvitað er jákvætt hugarfar gott í lífinu öllu og sér í lagi ef manneskja þarf að glíma við sjúkdóm eða fötlun. SM er þó klárlega líkamlegur sjúkdómur en ekki geðveiki.

Ég er sammála þér. Það er alltaf varhugavert þegar fólk fer að mæla með að fólk taki ekki lyf sem læknir hefur ávísað. Það er ansi mikil ábyrgð sem fólk tekur á hendur sér. 

Halla Rut , 13.1.2008 kl. 13:45

2 Smámynd: Hulda Margrét Traustadóttir

Já. sá bara fyrirsögnina þegar ég fór í búðina í gær og datt einmitt í hug þegar þú varst á góðu tímabili. Hún er líklega í afneitun og líður vel í dag en það er þá hennar mál í bili. Þó lyfin séu ekki alltaf það besta eru þau þó búin að hjálpa svo mörgum, hægja á köstum og létta fólki lífið. Þegar engin lyf voru til fóru margir illa.

Hef nú aldrei skilið hana Sigurbjörgu, og held að hún höndli ekki formennsku í MS félaginu og eins og þú segir eru geðlækanar góðir að vissu marki en geta ekki læknað verki, spasma eða aðra kvilla sem fylgja, því Ms er ekki geðsjúkdómur !

Var að senda þér coment á myndina  á emaili....til lukku með að hafa sigrast á henni

Hulda Margrét Traustadóttir, 13.1.2008 kl. 13:46

3 Smámynd: Vilborg Traustadóttir

Já það er einkennilegt hjá Sigurbjörgu formanni að koma fram með þessari grein sem hvetur til að sleppa lyfjum á sama tíma og MS sjúklingar eru að berjast fyrir að fá nýtt lyf.  Ekki beint það innlegg í baráttuna sem félagsmenn vænta af formanni MS félagsins.

Vilborg Traustadóttir, 13.1.2008 kl. 18:22

4 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Enginn af þeim MS sjúklingum sem ég þekki til hafa losna við sjúkdóminn í jákvæðis kasti, lyf eru nauðsyn og ég held að því miður sé þetta ekki huglægt.

Ásdís Sigurðardóttir, 13.1.2008 kl. 18:32

5 identicon

Já ég fór í Robe yoga í janúar í fyrra vegna viðtals við Margréti í vikunni eða séð og heyrt eða eitthvað.   Ég hætti á miðju námskeiði vegna rosalegra verkja í mjaðmaliðum og baki og var í nokkra mánuði á eftir að ná mér með sjúkraþjálfun.  Yogakennarinn ýjaði að því að ég væri bara ekki nógu jákvæð:)

Jákvæðni breytir mjög miklu og hjálpar okkur að takast á við veikindin en tekur þau vissulega ekki af okkur.  Og í þessu blessaða Robe Yoga er verið að agitera fyrir því að þetta sé svo gott fyrir MS fólk án þess að kanna líkamlegt ástand hvers og eins fyrirfram og meta hvort þetta henti viðkomandi.  Hættuleg auglýsingamennska.  En það er gott að þetta hafi hjálpað Margréti.

Hvað varðar geðlækni í MS heimilinu þá tel ég það hið besta mál þar sem þunglyndi getur verið aukaverkun bæði sjúkdómsins og lyfjameðferðarinnar en auðvitað á að vera fullmönnuð göngudeild þar líka með almennilegum taugasérfræðingum enda er hér um taugasjúkdóm að ræða.

Kveðja María P.

María Pétursdóttir (IP-tala skráð) 22.1.2008 kl. 05:28

6 Smámynd: Vilborg Traustadóttir

Já satt er það María, göngudeildin sem Sigurbjörg lagði niður ætti að vera í blóma hjá félaginu. Það furðulega er að hún er kosin aftur og aftur. Göngudeildarfólkið er búið að gefast upp á MS félaginu og mætir greinilega ekki á aðalfundi. Kannski velja þær úr fólk, ég er t.d. löngu hætt að fá gíró seðla og blaðið eða fundarboð.

Vilborg Traustadóttir, 22.1.2008 kl. 22:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband