fim. 8.11.2007
Fínn dagur
Í dag er þessi líka fíni dagur í uppsiglingu. Kristján Andri er mættur á svæðið og verður með ömmu í dag. Síðan koma Geir Ægir og Viktor eftir hádegið en pabbi þeirra fer á sjóinn í dag eftir nokkra daga heima. Það er alltaf tregablandið þegar hann fer aftur á sjó eftir frí. Svona er nú lífið og það eru ekki bara sjómannsfjölskyldur sem búa við það að aðilar vinna fjarri heimilinu. Í "smækkandi" heimi búa æ fleiri við það að einhver í fjölskyldunni vinnur jafnvel í öðrum löndum og/eða ferðast mikið vegna vinnu sinnar. Flugmenn og flugfreyjur, afsakið flugþjónar, þeytast um loftin blá. Svo eru auðvitað allir hinir sem vinna frá morgni til kvölds og sjá varla fjölskylduna nema með stírurnar í augunum á harðahlaupum að morgni. Þá er gott að vera "amma í fullu starfi" og geta tekið á móti duglegum drengjum sem komast ekki af einhverjum ástæðum á leikskólann sinn. Sjómennirnir eru þó alltaf ofarlega í hugum okkar og það er inngreypt þjóðarsálina einhverskonar
sjómannarómantík. Hetjur hafsins sem dregið hafa björg í bú gegn um aldirnar. Þó það sé auðvitað að breytast eins og allt annað í okkar síbreytilega heimi.
Ég á samt einhvern veginn erfitt með að sjá aðra stétt taka við því hlutverki. Verslunarmennirnir? Hugbúnaðargeirinn? Verðbréfaheimurinn? Varla...
Líftækniiðnaðurinn? Lyfjarisarnir? Því síður....
Stjórnmálamennirnir? Aldrei...
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 11:29 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.