Einangrun

Það rifjaðist upp fyrir mér áðan hvernig var að alast upp á afskekktum stað. Við vorum sjö manna fjölskylda sem fluttist frá Djúpuvík á Ströndum (sem var nafli alheimsins á síldarárunum) að Sauðanesi við Siglufjörð. Svo fór síldin og við á eftir.  Það var auðvitað farið með skipi því ekkert vegasamband var hvorki Djúpuvík né Sauðanes á þeim tíma.  Yngsti bróðir minn fæddist eftir að við komum á Sauðanes og var fluttur sjóleiðina með mömmu frá Siglufirði og borinn í þvottabala upp úr fjörunni og heim í hús. Við fluttum úr 30 fm húsi á Djúpuvík í stórt hús á þremur hæðum.  Fyrstu árin voru því flest herbergin í húsinu auð.  Smám saman fylltust þau þó af dóti og drasli sem fylgdi okkur.  Við vorum mjög samrýmd fjölskylda og allir voru saman í öllu.  Það var húslestur á kvöldin þar sem mamma las spennandi sögur m.a. Kapítólu.  Pabbi fór með okkur í leiki úti og man ég eftir einum sem var leikinn úti og í myrkri og við kölluðum "útilegumaður fundinn".  Þá faldi einn sig einhversstaðar í myrkrinu hinir töldu upp að hundrað og fóru svo allir að leita.  Sá sem fann "útilegumanninn" mátti vera hann næst.  Við fórum út í vita með pabba og ég man að þegar við fórum í myrkri og pabbi lýsti með vasaljósinu í kring sást oft glytta í augu í myrkrinu.  Það voru refir sem snigluðust í kring og í einstökum tilfellum villikettir.  Sérstaklega man ég eftir einum mjög stórum villiketti sem var lengi í kring um bæinn en gaf ekki færi á sér.  Við vorum hálf hrædd við hann.  Eina vetrarnóttina kom hann alveg heim á bæjarhól og pabbi skaut hann út um gluggann.  Hann beit sig svo fastann í freðinn svörðinn að erfitt var að losa hann þótt steindauður væri. Greyið.  Krakkarnir fóru að tínast í skóla, farskóla þar sem skipst var á að kenna nokkrar vikur í einu á þremur bæjum.  Sauðanesi, Siglunesi og Reyðará. Það var fjör þegar kennslan var á Sauðanesi en tómlegt þegar systur mínar fóru á hina bæina.  Elsti bróðir minn fór í skóla á Siglufirði.  Ég og yngri bræður mínir fórum í heimavistarskóla í Fljótunum.  Þegar ég byrjaði í skóla var vegurinn loksins kominn.  Þegar vegurinn kom breyttist allt.  Systur mínar fóru að djamma og fara á sveitaböll og við yngri systkinin fylgdum fast á eftir.  Upplausn komst í Sauðanesveldið sem tók smám saman að breytast.  Við gerðumst "villt í geiminu" ef svo má segja.  Kannski voru viðbrigðin of mikil fyri okkur heimóttlegu sveitakrakkana sem gengum um á gammósíum með slæðu um hálsinn (ég) daginn út og inn.  Hvað um það við uxum upp og eignuðumst fjölskyldur, eins og gengur.  Ég hef þó oft hugsað um hvernig það væri ef vegurinn hefði aldrei komið um Almenninga og ef Strákagöngin hefðu aldrei verið gerð?  Strákarnir hefðu vafalaust farið til sjós eða eitthvað álíka til að létta undir.  En værum við þá allar Sauðanessysturnar enn heimasætur á Sauðanesvita?  Róandi í spiki, mjólkandi beljur og pantandi varning með vitaskipinu, upp á krít?
 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilborg Traustadóttir

Já eflaut, en til stóð að gera göng úr Fljótum til Siglufjarðar og framhjá Sauðanesi þannig að þó framstig hefði orðið þá hefðum við setið eftir úti á nesi....en ef og hefði eru orð sem mætti spara verulega því það hefur svo litla þýðingu að segja ef og hefði........samt gaman að velta fyrir sér einhverju svona.

Vilborg Traustadóttir, 27.10.2007 kl. 00:59

2 identicon

Skemmtileg lesning um hvernig hlutirnir voru þegar þú varst ung vonda stjúpa. settu fleiri svona skemmtilegar frásagnir inn, þú ert svo góður penni.

kveðja

emil 

Emil ólafsson (IP-tala skráð) 27.10.2007 kl. 01:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband