Þokuloft

Það er þokuloft.  Eftir hitabylgju síðustu daga þó sólin hafi hopað seinni dagana bregður manni við. Það var oft þoka á Sauðanesi þar sem ég er alin upp.  Þá fór maður út í vita og kveikti á þokulúðrinum.  Til að vara skipin við. Til að þau sigldu ekki upp í fjöru.  Samt er einhvern vegin í minningunni eins og sólin hafi nánast alltaf verið á lofti.  Maður kom út á bæjarhlaðið með þennan fugl í hjartanu sem langaði að brjótast út og fljúga um allt.  Heimurinn var minn!  Þegar svo var rigning og kalt fannst mér yndislegt að laumast út úr háværum hópi systkyna (og foreldra).  Þá laumaðist ég upp á loft með bók eða blað og las.  Regnið buldi á þakinu og það var ótrúlega notalegt að kúra þar og lesa.  Heimurinn var minn!  Þar til einhver uppgötgvaði að mig vantaði.  Þá var kallað á mig og eftir mislanga stund annað hvort neyddist ég til að svara eða var staðin að verki.  Þá varð ég að fara og raka af eða taka upp hrúgur (þá hafði skít verið dreift á túnin, slóðadregið og við krakkarnir rökuðum svo af túninu með hrífum, tókum upp í hrúgur og ókum loks burt í hjólbörum), gefa hænsnunum, köttunum eða heimalingunum.  Sækja kýrnar, mjólka eða reka úr túninu.  Svo eitthvað sé nefnt.  Stundum flýtti ég mér með verkin og laumaði mér aftur í lestrarholuna.  Stundum bjó ég til heilu leikritin úr starfinu.  Þá gátu skítakögglarnir á túninu breyst í heila hjörð af villtum hestum sem ég safnaði saman og tamdi eins og ekkert væri.  Heimurinn varð aftur minn!Smile

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Herdís Sigurjónsdóttir

Kannast við þetta og þegar maður er yngstur og einn með stóru krökkunum og mömmu í sveitinni var eins gott að maður hafði gott ímyndunarafl og ég hef fengið ríkulega af því í vöggugjöf .

Herdís Sigurjónsdóttir, 10.7.2007 kl. 21:00

2 identicon

ég man eftir þokulúðrinum. það var yndislegt að sofna við hljóðið við undirspil brimsins. mér finnst asnalegt að það sé hætt að nota þokulúðrana, kannski útaf nostalgíunni, hver veit?, en kannski þarf ekkert að nota þá lengur í allri þeirri tækni sem skip hafa í dag...

Drífa Þöll (IP-tala skráð) 10.7.2007 kl. 21:21

3 Smámynd: Agný

Ég á líka svona minningar úr sveita-sælu-þrældómnum frá því að maður gat farið að vappa um.. Man eftir að ég var í því að semja ljóð ja eða eitthvað sem átti að vera það þegar maður þurfti að ná í kýrnar fram í fjall sem tók alveg 1 og hálfan tíma fyrir 7 ára krakka...

Sem betur fer fann ég upp góða tækni..ég baulaði þegar ég sá glitta í þær og þá labbaði forystukýrin af stað og flestar hinar eltu hana. En sumar voru nú samt ekki tilbúnar að lalla af stað og þá þurfti maður að fara og ná í þær vopnuð priki...

Ég ætti kanski að fara að skrifa endurminningar mínar...maður er kominn á þann aldur ekki síst vegna þess að ég man eftir hlutum og atburðum frá því innan við 2 ára...veit að það hljómar kanski ótrúlegt en það er nú samt rétt... þannig að það er vissar að segja ekki að börn séu svo ung þegar x þetta eða hitt skeður að þau muni ekki eftir því.. Allavega reikna ég með því að einhverjir fleiri en ég hafi svona minni....

Agný, 11.7.2007 kl. 17:29

4 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Yndisleg minning Vilborg. Gaman að lesa þetta hjá þér.

Marta B Helgadóttir, 12.7.2007 kl. 14:21

5 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Klukkuð!  Þú hefur verið klukkuð - kíktu á síðuna mína til að sjá nánar hvað það merkir. Kveðja, Marta

Marta B Helgadóttir, 12.7.2007 kl. 19:02

6 Smámynd: Jens Guð

  Maður fær nett nostagíu-kast við svona upprifjun.  Langar aftur til að verða krakki í sveitinni.

Jens Guð, 15.7.2007 kl. 22:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband