mán. 2.7.2007
Hornbjargsviti
Ég og vinkona mín Kristín, gerðumst eitt sinn aðstoarvitaverðir á Hornbjargsvita. Hjá Jóhanni Péturssyni. Við vorum atvinnulausar en það var stopp í Sigló Síld þar sem við unnum. Pabbi var eitt kvöldið að tala við Jóa í talstöðina. Ég vissi að hann var ekki með aðstoðarmann þá en frænka hans sem hafði aðstoðað hann var nýfarin suður. Ég bað pabba að spyrja Jóa hvort hann vantaði ekki aðstoðarvitaverði, við myndum skipta laununum. Jói sagði já. Við fórum með varðskipinu Óðni frá Reykjavík um mánaðamótin sept-okt sennilega 1977 eða '78. Vorum einn og hálfan mánuð. Varðskipsmenn tóku okkur vel og voru mjög herralegir við okkur. Eitt sinn um miðbik tímans komu þeir með kost að Hornbjargsvita. Þeir lögðu skipinu inni á Hornvík og gengu yfir bjargið til okkar um klst gang. Við tókum þeim með kostum og kynjum og m.a.spiluðum við vist við þá alla nóttina uppi í hjónarúminu sem Jói hafði úthlutað okkur vinkonum. Þegar þeir svo fóru orti ég ljóð sem fer hér á eftir. Ljóðið lét ég þá hafa þegar þeir svo sóttu okkur um miðjan desember. Þá gengum við einnig yfir í Hornvík þar sem það var ekki lendandi við Hornbjargsvita. Það er önnur saga en hér kemur ljóðið.
---
Þið hurfuð í húminu
burt
úr hlýju rúminu
hvurt?
Finnst ykkur þetta freklega
spurt?
---
Við blikkuðum báðum
augunum.
Með tárum það tjáðum
draugunum
Nú titrum við allar
á taugunum.
---
Í sakleysi okkar spiluðum við ykkur
vist
og rökkursins skyldunum skiluðum ykkur
af list.
Nú hafið þið drengir á Hornbjargi
gist.
---
Þið hurfuð í húminu
burt.
Úr hlýju rúminu
hvurt?
Finnst ykkur þetta freklega
spurt?
Meginflokkur: Ljóð | Aukaflokkur: Bloggar | Breytt 3.7.2007 kl. 20:16 | Facebook
Athugasemdir
Frábær saga og ljóðið líkabráðfyndið . Þú hefur vonandi haldið þér í æfingu með ljóðagerðina.
Marta B Helgadóttir, 3.7.2007 kl. 01:30
Skemmtileg saga og flott ljóð ég er sko alveg klár á því að það hefur opnast fyrir geymda listamannshæfileika þína þarna í detox hreinsunar dæminu
Agný, 3.7.2007 kl. 10:45
Gaman að svona bloggi. Falleg frásögn og fallegt ljóð.
Jens Guð, 3.7.2007 kl. 20:40
Takk fyrir.
Vilborg Traustadóttir, 3.7.2007 kl. 21:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.