fim. 7.6.2007
Brunnlokið
Ég mættu konu á bíl í gær. Sem er í sjálfu sér ekki í frásögu færandi nema hvað hún hafði krækt sér í brunnlok neðan á vinstra framhjólið. Ég hafði lagt fyrir utan hjá mömmu og pabba. Ég var að sækja mömmu og Sollu systir. Það var verið að vinna í götunni fyrir ofan þau. Konan hafði því smeygt sér liðlega á jepplingnum upp á gangstéttarhornið og ók þar yfir þar sem allt var lokað í kring. Sem var auðvitað snjallræði hjá henni. Nema hvað hún krækti í brunnlokið í leiðinni. Vinnumennirnir höfðu tyllt því þar. Ég flautaði á konuna sem ók áfram og ég gaf henni stöðvunarmerki með höndunum. Hún kom út úr bílnum. Sagðist einmitt hafa verið að velta fyrir sér hvaðan þetta hljóð kæmi. Bíllinn rann svo ljúflega áfram líkt og á skautum. Í því komu mamma og Solla. Pabbi fylgdi þeim úr hlaði. Það varð nokkur rekistefna þarna. Ekki kannski það sem konan óskaði sér á þessari stundu. Strætó kom og þurfti að bíða. Ég ráðlagði konunni að bakka upp úr brunnlokinu. Við Solla hlupum í var ef það myndi spýtast burt og á okkur. Konan ráðlagði mér að færa bílinn minn til að hann skemmdist þá ekki. Pabbi kom og fór að spyrja. Mamma líka. Þá settist ég inn í bíl og beið. Flautaði á þau að halda sig frá áhættusvæðinu. Bauð konunni að draga bílinn upp úr lokinu. Hún taldi það ekki skila árangri. Hún bakkaði svo varlega og komst upp úr brunnlokinu sem rann mjúklega einn til tvo metra. Pabbi fór að benda konunni hvernig hún ætti að beygja aftur inn á götuna. Alveg í essinu sínu að fá þetta hlutverk. Allt komst í skorður á ný og við sinntum erindum okkar. Ég fékk svo hláturskast í gærkvöldi að hugsa um þetta. Vægast sagt mjög kómískt. Konur og bílar! Hitt er það að það voru karlarnir sem gengu eins og slugsar frá brunnlokinu og það ætti að herða reglur verktaka með merkingar og annað tengt gatnagerð. Þær eru afskaplega lélegar svo ekki sé meira sagt.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.