fim. 31.5.2007
Bryggjurúntur
Við pabbi fórum bryggjurúnt á dögunum. Gott veður og gaman að sjá mannlífið í smábátahöfninni hjá Snarfara. Við fengum kaffisopa um borð í Ippu sem er seglskúta í eigu okkar hjóna (mannsins míns) en hann sér um siglingamálin í okkar sambandi. Pabba fannst mikið til um að sjá alla þessa stóru sportbáta liggja við bryggju. Þetta er í raun sumarbústaðabyggð á floti. Fólk duddar í bátunum sínum og siglir svo um sundin blá þess á milli. Með gps og allar græjur, auðvitað. Við sögðum nokkrar sjóferðasögur um borð í skútunni. Pabbi minntist þess þegar hann og fleiri tóku að sér að flytja Eirík á Dröngum með allt sitt hafurtask þaðan. Það var svartaþoka og ekkert að reiða sig á nema reynslan og hyggjuvitið. Þegar þeir höfðu siglt milli skerja eftir minni og voru komnir nokkuð nálægt Dröngum að þeir töldu, sagði pabbi, "nú leggjumst við bara við akkeri og bíðum, það er ekkert vit í að reyna að komast nær þar sem þokan er þetta svört." Í því þeir gera það birtist Eiríkur á árabátnum út úr þokunni. Þeir voru þá nákvæmlega á legunni við Dranga! Segiði svo að þessir kallar hafi ekki vitað viti sínu og verið kaldir.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.