Ég var að bóka herbergi í Póllandi í haust. Ég ætla í aðra detox meðferð á heilsuhótelinu U Zbója þar í landi. Ég ákvað að skella mér með vinkonu minni í janúar á þessu ári. Við förum báðar aftur í haust.
--
Áður en ég fór til Póllands í janúar ræddi ég við John Benedikz sem er minn taugalæknur. Ég er nefnilega með MS og hef þurft að taka lyf við einkennum tengdum þeim sjúkdóm í lengri eða skemmri tíma. Ég hafði haft spasmalyfið Baclofen í nokkur ár og einnig tók ég geðlyfið Zoloft sem stundum hefur verið kallað eitt af þessum víðfrægu gleðipillum sem tröllriðið hafa hinum vestræna heimi undanfarna áratugi. Einnig sprauta ég mig þrisvar í viku með Interferon Beta-Rebif sem er lyf sem rannsóknir staðfesta að fækki MS köstum og mildi þau sem koma og hægir þannig á framgangi sjúkdómsis. John ráðlagði mér að taka algera lyfjahvíld frá Rebif meðan á detox meðferðinni stæði. Ég varð mjög undrandi en fór að hans ráðum.
--
Úti ræddi ég við pólsku læknana sem ráðlögðu mér að halda mig við hin lyfin mín en ef ég vildi hætta með þau skyldi ég trappa mig varlega niður af þeim. Þær sögðu að ég ætti að geta losnað fljótlega við Baclofenið en Zoloftið tæki lengri tíma og vildi Dr. Dabrowska ekki hvetja mig að hætta með það. Til að gera langa sögu stutta hætti ég með Baclofen á meðan á dvölinni ytra stóð en ég tók eina pillu af því á dag og eftir að ég kom heim hef ég smám saman minnkað skammtinn af Zoloft sem var þó bara ein pilla á dag líka. Í dag er ég laus við þessi lyf.
--
Ég nota þó áfram Rebif sem ég hef tröllatrú á að haldi MS sjúkdómnum í skefjum. Mér finnst mjög gott að hafa fengið þetta tækifæri til að endurskoða líf mitt og taka sjálf ákvörðun um lyfjaát mitt. Ég tek það þó skýrt fram að John hefur aldrei lagt að mér að taka þessi lyf. Heldur hef ég í vanlíðan og með aukin einkenni MS leitað til hans. Stundum fengið lyf og stundum ekki. Það er þó augljóslega mjög auðvelt að gerast lyfjaæta á miðjum aldri og því auðveldara því fleiri lækna sem maður hefur. Mín gæfa er kannski sú að ég hef treyst John öðrum fremur í þessum efnum og því ekki rásað á milli ólíkra lækna í leit að lausnum.
--
Það er svo sem ekkert óhemjulyfjaát að taka eina Backofen 20 mg og eina Zoloft 50 mg á dag. Samt fannst mér það íþyngjandi. Ég hef alla tíð verið mjög meðvituð og gagnrýnin á þau lyf sem ég þarf að fá þó ég geti alveg örugglega þakkað þeim líf mitt sumum hverjum. Það er bara vandi fyrir okkur leikmennina að velja og hafna. Til þess þurfum við að staldra við og fræðast. Í mörgum tilvikum er hægt að losna við lyf sem maður telur að maður þurfi til að lifa. Í mörgum tilfellum er líka ekki hægt að losna við lyf sem maður þarf til að lifa. Það er ekkert auðvelt eða einfalt að hætta að nota lyf eins og Zoloft. Ég fann meðan ég var að taka það út hve gífurleg áhrif það hefur haft á mig án þess að ég tæki mikið eftir því meðan ég tók það. Ég var tilfinningalega flöt (hver kallar þetta gleðipillur)? Þetta þarf að gerast hægt og í samráði við lækna. Ég er farin að yrkja aftur og m.a.s. mála myndir. Það fletur greinilega út sköpunargáfuna eins og annað að taka inn geðlyf.
--
Fræðslan í Póllandi er mjög góð og maður verður meðvitaðri um hvaða matarræði hentar manni best á einstaklingsgrundvelli. Ég hlakka mikið til að fara aftur í haust og rifja upp, fá fræðslu, gott matarræði og annað sem í boði er. Leikfimi, nudd og gufuböð svo eitthvað sé nefnt.
--
Ef þú hefur ekki tíma fyrir heilsuna í dag þá hefur þú ekki heilsu fyrir tímann á morgun.
--
Vegna óska um það í athugasemdum set ég hér inn linka með upplýsingum http://detox.is og heilsuhótelið sem við vorum á í Póllandi er http://uzboja.pl en þau eru fleiri.
Athugasemdir
Góða ferð.
Ragnar Bjarnason, 4.4.2007 kl. 21:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.