sun. 1.4.2007
Tinna
Tinna heitir truntan mín
töfra beitir geði.
Hana skreyta fótmál fín
fjörug, veitir gleði.
Er þinn gæða taktur telst
töltsins klæði rífa.
Þú ert æði, einna helst
eins og skæðadrífa.
Höf: Vilborg Traustadóttir
Ég átti þessa "vinkonu" og hryssu sem ég orti um hér. Tinna var mjög sérstök, viðkvæm, viljug og falleg. Hún var af Kolkuóskyni, dóttir Hrafns (591). Við áttum góðar stundir saman við Tinna, tvær í útreiðatúr eða í félagi við aðra. Aðallega Jonna bróðir og Íru hans en stundum Jörp og Hermanns-Rauðku líka. Í þá gömlu góðu daga.........Tinna datt skyndilega dauð niður í haganum vel við aldur og er heygð á Dalabæ.
Athugasemdir
Dýrin tengjast manni svo sterkum böndum, fallegt ljóð.
Ester Sveinbjarnardóttir, 2.4.2007 kl. 00:07
Já fallegt ljóð...ég man nú eftir dásamlegri mynd af okkur Jonna á hestbaki sem ég á og tekin var úti á Sauðanesi í þá gömlu góðu daga. Kannski var það bara Tinna heitin
Herdís Sigurjónsdóttir, 2.4.2007 kl. 09:21
Kannski en þá hef ég haldið í Tinnu. Hún var nefnilega enginn barnahestur (litla mín). Hermanns-Rauðka frá Syðri-Brekkum í Skagafirði var "uppalandi" okkar í hestamennsku. Hermanns-Rauðka hét eftir Hermanni Jónassyni föður Steingríms Hermannssonar, sem var ættaður þaðan. Einstaklega falleg, geðgóð og skemmtileg hryssa og mikill karakter.
Vilborg Traustadóttir, 2.4.2007 kl. 20:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.