þri. 27.3.2007
Borgaralýðræði eða borgarastríð?
Ég horfði á Kastljósið í gær þar sem Andri Snær og Rannveig Rist mættu og skiptust á skoðunum um fyrirhugaðar kosningar vegna framtíðar álversins í Straumsvík. Andri hafði tilhneigingu til að setja öll álver núverandi og "tilvonandi" undir sama hatt og það leit út frá hans bæjardyrum eins og kosið yrði um þau öll á einu bretti í Hafnarfirði. Meðan Rannveig benti m.a. á mikilvægi stækkunar fyrir vaxtamöguleika Alcan og samkeppnishæfi þess við önnur álver í heiminum. Kom líka fram í máli Andra Snæs að hann furðaði sig á því að stjórnvöld legðu það á borgarana með stóriðjustefnu sinni að borgararnir skuli "þurfa" að taka afstöðu í þessu máli. Bíddu aðeins við? Er ekki lýðræðislega kjörin stjórn í landinu? Er ekki lýðræðislega kjörin bæjarstjórn í Hafnarfirði? Er það ekki í verkahring lýðræðislega kjörinnar bæjarstjórnar að úthluta leyfum og öðru slíku fyrir atvinnustarfsemi í bænum? Sem hún og gerði. Í næstu andrá lætur þessi sama lýðræðislega kjörna bæjarstjórn kjósa um framtíð þessa sama gamalgróna fyrirtækis í bænum, sem vel að merkja hún sjálf er nýbúin að úthluta lóð og gefa samþykki fyrir stækkun? Á sama tíma og bæjarstjórnin gerir þetta neitar hún að láta uppi sína skoðun á málinu? Til hvers er verið að kjósa í bæjarstjórn? Ef bæjarstjórnin þorir ekki að taka af skarið af eða á en hleypir af stað borgarastríði í annars friðsælum firði? Lætur fólkið í bænum um að berjast um á banaspjótum í málefnum sem það er þegar búið að gefa bæjarstjórninni umboð til að skera úr um með því að kjósa hana yfir sig? Hvað næst? Andri Snær og samtökin Sól í Straumi ættu að líta sér nær og fjargviðrast út í Lúðvík Geirsson og hans kammerata fyrir að vera vanhæf til að stjórna í Hafnarfirði. Guð forði okkur frá slíkri og þvíumlíkri ríkisstjórn.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:17 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.