Landnám á liðinni öld

Landnám var stundað hér á landi á Landnámsöld.  Það lagðist af er menn höfðu numið sér land og sett sig niður .  Lá það niðri í þúsund ár eða allt þar til landnámsmaðurinn Ásbjörn Þorgilsson fór í víking að leita uppruna síns og gekk grenjandi um strendur á Ströndum norður í lok síðustu aldar.  Ásbjörn mun komin út af Manga gamla Hannibalssyni, sæfara og hákarlaveiðimanni sem fluttist á Strandir og tók sér kvonfang þar. Ásbjörn þessi er þéttur á velli, nokkuð breiðleitur með augu ránfuglsins sem hann blimmskakkar á menn þyki honum ástæða til.  Ásbjörn þykir nokkuð forn í skapi og hafa menn í flimtingum að í honum búi öfgar tvær, alvara og gaman.  Þessu tvennu þyrfti að jafna út en því sé ekki að leyna að þar fari öðlingur mikill sem öfgar þessar mætast.
---
Ásbjörn hélt við annann mann á Strandir til landvinninga á níunda áratug liðinnar aldar, sá nefnist Hálfdán Guðröðarson og á ættir að rekja til Kálfavíkur í Skötufirði.  Höfðust þeir við í ættaróðali mínu sem stóð í vík nokkurri er nefnist Djúpavík.  Vistir höfðu þeir engar en höfðu þó byssu meðferðis og lifðu þannig á landsins gagni og nauðsynjum.  Ættaróðalið fékk nokkra andlitsliftingu í tíð þeirra félaga og munaði þar mjög um hugvit og útsjónarsemi Hálfdáns.  Má þar nefna að sett var stór kyndiofn í kjallara sem óspart var kyntur einkum til húshitunar en hann reykti mikið og þar sem ekki hafði verið þétt í rifur ættaróðalsins sátu þeir gjarnan í reykmekki miklum og sáu vart rifa í augu hvor annars um veturinn innandyra.   Unnu þeir ötullega að því að hreinsa innan úr verksmiðjunni því þeir voru stórhuga mjög og hugðu á fiskeldi í henni.  Undu þeir við þessa iðju lengi vetrar og þegar voraði kom eiginkona Ásbjörns, Eva Sigurbjörnsdóttir að vitja þeirra.
---
Eva sem er valkyrja mikil eygði óðara möguleika á frekari atvinnuuppbyggingu staðarins og fór svo að þau festu kaup á Kvennabragganum frá síldarárunum.  Það er skemmst frá að segja að þar með var svo mikið að gera í uppbyggingu hótels og ferðaiðnaðar á staðnum að þeir félagar Ásbjörn og Hálfdán hurfu frá fyrri iðju, Hálfdán hvarf á braut að vitja nýrra ævintýra sem ekki verða rakin hér.   

Þau Eva og Ásbjörn hafa því af miklu harðfylgi numið land á Ströndum.  Þarf ekki að orðlengja um það frekar, árangurinn stendur á Djúpuvík og víst er um það að hefðu þau ekki “numið land” á réttu augnabliki væri Djúpavík og ferðamannaiðnaður á Ströndum sýnu fátækari ef einhver. 

Uppbygging á Djúpavík væri alltént ekki hin sama og hún er í dag ef Ásbjörn og Eva hefðu ekki kosið sér búsetu á þessum fagra en eyðilega stað. 

---

http://djupavik.com/

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Þór Jónsson

Heyr.  Lifi Djúpavík.

Magnús Þór Jónsson, 27.3.2007 kl. 09:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband