lau. 17.4.2010
Smásálarháttur
Nú stendur íslenskt samfélag frammi fyrir því að stjórnmálamenn, hver af öðrum sjá sig knúna til að segja af sér og "taka sér leyfi" eða "fara í frí".
Skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis hefur haft þessi áhrif og er það vel. Það er raunar undarlegt að menn hafi kosið að bíða skýrslunnar með þessar ákvarðanir sínar. Það eitt og sér undirstrikar þörfina fyrir þá viðamiklu og vönduðu rannsókn sem fram fór.
Það sem vekur ugg minn og óróa er að rannsóknin tekur ekki til starfsemi íslensku bankanna nú. Afskriftir og endalausar eftirgjafir til þeirra aðila sem settu allt á hliðina hljóta að teljast varhugaverðar svo vægt sé til orða tekið.
Á sama tíma er gengið fram af fullri hörku gagnvart minni viðskiptavinum og þeim sem ekki voru, fyrir hrunið, í aðstöðu til að raka að sér fé úr sjóðum bankanna. Viðskiptavinum sem með "gamaldags" hugsunarhætti stóðu í skilum á meðan þeir lifandi gátu.
Yfirvöld láta snúa "litla gröfumanninn"niður með ægivaldi og rífa af honum bjargræðið sem hann reynir af framfleyta sér og sínum á. Gröfuna. Á meðan fá sjálfir bankaræningjarnir afskrifaðar þær skuldir sem steyptu okkur í glötun og óheftan aðgang að sjóðum ríkisbankanna.
Aftur og nýbúnir!
Hvar er réttlætið í þessum aðgerðum Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon? Þið sem höfðuð uppi stór orð um réttlætið ÁÐUR en þið komust til valda?
Þegar ég hugsa betur um það er "litli gröfumaðurinn" ekkert svo lítill í þess orðs dýpstu merkingu.
Hinir sem skríða í duftinu og kyssa vöndinn eru aftur á móti eins og litlir ormar sem engjast í eigin vanmætti. Vanmætti til að sýna þá djörfung að segja hingað og ekki lengra
Í þeim búa hinar eiginlegu smásálir.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:19 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.