Færsluflokkur: Lífstíll

Hveragerði - tiltekt - aukakíló

Er að fara í Hveragerði um hádegið.  Á heilsuhælið.  Tók til í fataskápunum hjá mér í gær ásamt Sollu systir.  Hún kom til aðstoðar.  Það var bara gaman að dunda við þetta saman.  Sérstaklega þar sem meirihluti fatanna var orðinn of stór á mig.  Þegar upp var staðið fóru tveir pokar í Rauða Krossinn, einn til athugunar fyrir vini og vandamenn og það gleðilega var að fötin sem voru orðin of lítil en lágu einhversstaðar bakatil í skápnum passa núna.  W00t Flottar gallabuxur og buxur sem ég keypti mér (viljandi)  of litlar í Póllandi í janúar smellpassa t.d. í dag.  Það er stundum gott að vera framsýnn. Cool

 

Svo fóru nokkrar flíkur beint í ruslið þar sem þær eiga heima. Wizard

Þetta hvetur mig til dáða og segi ég hér með þeim aukakílóum sem eftir sitja á mér stríð á hendur.  Þau fá að fjúka.


Detox í Póllandi

Er að ganga frá ferð til Póllands þann 29. september n.k.  Ég fór þangað ásamt vinkonu minni í janúar á þessu ári og þvílík heilsulind!  Ég ákvað að fara þangað og halda upp á 50 ára afmælið þar.  Það væri besta afmælisgjöf sem ég gæti fengið.  Maðurinn minn var sammála og gaf mér ferðina.  Skömmu eftir að ég kom heim var tengdapabbi hjá augnlækni.  Hann sagði honum að það hefði verið erindi í útvarpi eða blöðum þar sem fram kom að það besta sem hægt væri að gefa fimmtugum í afmælisgjöf væri ristilspeglun.  Það þætti bara ekki nógu fínt að gefa það.  Hins vegar væri það oft um fimmtugt sem ristillinn færi að sýna einkenni sem fylgjast þyrfti með. 
Í Póllandi byggist meðferðin á föstu í tvær vikur.  Það eru eingöngu innbyrtar 600 hitaeiningar á dag og þar eru grænmeti og ávextir uppistaðan. Daglegt nudd,  teygjuæfingar úti í skógi, gönguferðir, sund og sundleikfimi, leikfimi í sal og tækjum, slökun, gufuböð o.s.frv. í tvær vikur.  Lestur góðra bóka, sjónvarpsgláp að ógleymdum trúnó samtölum, sérstaklega í gufunni.  Það er eins og gufan opni fyrir allar gáttir í þeim efnum og lokar fyrir áframhaldandi kjaftagang um leið og maður fer úr henni.Wink Svo er boðið upp á snyrtingu á stofu og fór ég í hand og fótsnyrtingu ásamt andlitssnyrtingu.  Þetta var algert dekur og heilsan tekin föstum tökum um leið.  Ég hlakka til að láta heisuna hafa forgang aftur í tvær vikur og mun halda mér við efnið áfram eins og ég hef gert að miklu leyti síðan ég fór síðast.Pólland 034
Hér er mynd af mér og hinum "illræmda" Boris sem sá um stólpípumeðferðir á heilsuhótelinu.  Þegar maður er kominn á staðinn og búin að fræðast um málin er ekki spurning um að taka allann pakkann og Boris með!  Það er gífurlegur léttir að losna við alla "vasana" og aukalegar harðar kúlur sem veltast um í ristlinum og líkaminn hefur ekki bolmagn til að losa sig við án utanaðkomandi aðstoðar.  Maður var hreinlega "full of shit" ....Smile

Góður og hollur

Þar höfum við það.  Harðfiskurinn enn hollari en við héldum. Harðfisk með í fríið, ekki spurning!  Hann er án aukaefna og heilsusamlegur kostur.  Hann er líka svo góður. Mér finnst siginn fiskur líka alveg afbragðsgóður með selspiki, hnoðmör, smjöri og kartöflum.  Fæ vatn í munninn við tilhugsunina.

mbl.is Harðfiskur er enn heilsusamlegri en talið var
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svalaskoðun

Kambsbræður eru einhverjir þeir skemmtilegustu menn sem ég hef þekkt.  Og mamma þeirra hún Tóta.  Hún reddaði mér þegar ég var 10 ára á spítalanum á Sigló að láta taka botnlangann.
Tóta var þar og hélt í mér lífinu með skemmtilegheitum, glensi og gríni.  Sjálf var hún bundin hjólastól og hafði verið lengi.  Yndisleg kona.  Haft var eftir Ragga á Kambi af vinnufélögum í Ríkisverksmiðjunum eitt vorið. " Það er orðið svo fínt í skápunum hjá henni Soffíu minni að maður Svalaskoðun 004gæti bara dáðið af því að horfa inn í þá".  Þá hafði Soffía kona hans verið að þrífa eldhússkápana.  
Í gær þreif ég svalirnar hátt og lágt.  Hringdi svo í Geir og sagði "það er orðið svo fínt á svölunum hjá henni Soffíu minni að"....þá botnaði Geir.... "maður gæti bara dáið af því að horfa á það."  Ég hef af þessu tilefni ákveðið að hafa skipulagðar "svalaskoðunarferðir" hingað á svalirnar mínar.  Þetta er alveg brilljant viðskiptahugmynd.  Útsýnið af svölunum
er aukin heldur ekkert slor. Breiðholtið, Kópavogurinn og allt vestur á Snæfellsjökul. Ef ég kæmi fyrir öflugum sjónauka mætti örugglega stunda hvalaskoðun í leiðinni.  Ég er byrjuð að bóka ferðir og mun fyrsti hópurinn mæta á föstudagskvöldið.  Svo er bara að sjá hvernig þetta nýmæli í ferðaþjónustu þróast. Svalaskoðun 003 Hér kemur smá sýnishorn!
Svalaskoðun 011

Hveragerðisblómin komin

Var að setja afrakstur Hveragerðisferðar í potta og körfur á svölunum.  Kettirnir fylgdust forvitnir með milli þess sem þær mældu út fjarlægðina niður á jörð.  Við búum á 9. hæð.  Þegar Mímí var komin hálf undir handriðið og teygði sig langt fram af rak ég hana inn og hún hlýddi með semingi.  Nú er bara að vökva og hreiðra um sig í góða veðrinu.  Fyrst ætla ég að þrífa vel glugga, húsgögn og flísar. Nenni því ekki fyrr en á morgun eða hinn.  Það er gaman að hafa hugguleg blóm í kring um sig meðan maður situr úti og lætur fara vel um sig.  Dreypir á vatni eða einhverju hollu.  Ég er nefnilega komin niður um eitt buxnanúmer svo nú ætla ég EKKI að freistast í óhollustu meir.  Best að taka einn detox dag fljótlega.  Það er alveg svakalega gott fyrir mig að gera það og líðanin verður svo góð.  Gangið öll á guðs vegum.

Ég heyri raddir

Kjötfjallið hrundi í fyrradag. Ég var að koma úr sjúkraþjálfun á nýsóluðuðum skóm.  Ég er mjög sérvitur á skó.  Það er vegna þess að ég verð að vera það.  Ég dreg annann fótinn.  Þegar ég kom að bílnum mínum missti ég fæturna undan mér og hreinlega hrundi niður.  Ég náði aðeins að draga úr fallinu en engu að síður datt ég og skorðaðist undir bílnum upp við gangstéttarbrúnina.  Eftir að hafa stangað hana með enninu.  Það var vont.  Ég lá þarna kveinandi um stund.  Þá kom kona aðvífandi.  Ég bað um hjálp.  Konan taldi ekki ráðlegt að hún færi að reisa mig við.  Var ekki viss um að ég ætti yfir höfuð að standa upp.  Hún sótti hjálp inn í sjúkraþjálfunina.  Móttökustúlkan kom og sagðist ætla að sækja hjálp.  Því næst komu tveir fílefldir sjúkraþjálfarar.  Sá sem ég hafði verið hjá og annar til.  Þeir náðu mér undan bílnum og tókst með miklu harðfylgi að reisa mig við.  Ætlaði ég að setjast upp í bílinn og koma mér burt með það sama.  Þá spratt fram konan sem fyrst hafði komið á vettvang og hélt nú ekki.  "Þú ferð ekki að leika einhverja hetju núna sagði hún."  Hún þreif af mér veskið og strunsaði með það inn í sjúkraþjálfunina með þeim orðum að ég skyldi jafna mig áður en ég æki burt.  Ég sættist á að fara inn og fá kaldan bakstur á ennið.  Sem ég og gerði.  Það var gott að slaka aðeins á og linaði verkina að fá kalt á kúluna.  Takk ókunna kona!  Í gær fór ég svo með skóna til skóarans og sagði honum að þegar sólarnir væru svona (hrjúfir) þá gerðist þetta (og benti á kúluna). Hann hrökk dálítið við en ætlar að sóla skóna upp á nýtt.  Með sléttum botni takk.  Ég er ekki frá því að ég heyri raddir í dag og sjái sýnir.  Það er þó engin ástæða til að fara til læknis?  Þetta reddast!
Í dag fór ég í sjúkraþjálfun og bað sjúkraþjálfarann að þreyta mig ekki alveg svo mikið að ég hryndi undir bílinn!  Hann tók þetta á sig.  Að sjálfsögðu.  Það er svo aftur allt annað mál að ég er með MS sjúkdóminn.  Það er miklu þægilegra fyrir mig að kenna skósmiðnum og sjúkraþjálfaranum um.  Já og gangstéttinni sem var ójöfn.   Ég er í afneitun!  

Nú skil ég hvað Gunnar á við...........

Frasinn "það er gott að búa í Kópavogi" öðlast nýja merkingu við lestur á þessari frétt.
mbl.is Ísafold úthýst úr verslunum Kaupáss
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Reykingabann

Reykingabann innan dyra á skemmtistöðum hefur tekið gildi.  Í rauninni ætti að banna alfarið reykingar.  Sérstaklega utandyra.  Það er óþolandi að ganga upp að stofnunum þar sem sígarettureykur liðast um mann og maður veður upp að hnjám í sígarettustubbum þar sem maður þarf að ganga erinda sinna.  Ég skil ekki allt þetta umburðarlyndi gagnvart reykingum.  Þær drepa!

Bryggjurúntur

Við pabbi fórum bryggjurúnt á dögunum.  Gott veður og gaman að sjá mannlífið í smábátahöfninni hjá Snarfara.  Við fengum kaffisopa um borð í Ippu sem er seglskúta í eigu okkar hjóna (mannsins míns) en hann sér um siglingamálin í okkar sambandi.  Pabba fannst mikið til um að sjá alla þessa stóru sportbáta liggja við bryggju.  Þetta er í raun sumarbústaðabyggð á floti.  Fólk duddar í bátunum sínum og siglir svo um sundin blá þess á milli.  Með gps og allar græjur, auðvitað.  Við sögðum nokkrar sjóferðasögur um borð í skútunni.  Pabbi minntist þess þegar hann og fleiri tóku að sér að flytja Eirík á Dröngum með allt sitt hafurtask þaðan.  Það var svartaþoka og ekkert að reiða sig á nema  reynslan og hyggjuvitið.  Þegar þeir höfðu siglt milli skerja eftir minni og voru komnir nokkuð nálægt Dröngum að þeir töldu, sagði pabbi, "nú leggjumst við bara við akkeri og bíðum, það er ekkert vit í að reyna að komast nær þar sem þokan er þetta svört."  Í því þeir gera það birtist Eiríkur á árabátnum út úr þokunni.  Þeir voru þá nákvæmlega á legunni við Dranga!  Segiði svo að þessir kallar hafi ekki vitað viti sínu og verið kaldir. 

Skilin milli feigs og ófeigs

Þau liggja víða þessi skil milli feigs og ófeigs.  Ég ætla ekki að dæma hvað er veitingarekstrinum fyrir bestu.  Ég veit hins vegar að ein ástæða þess að ég og fleiri sækjum ekki kaffihús eru reykingarnar.  Það má líka velta því fyrir sér hver eru hin raunverulegu skil milli feigs og ófeigs í þessu sambandi. 
mbl.is Reykingabann á skemmtistöðum gæti skilið milli feigs og ófeigs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband