Ég heyri raddir

Kjötfjallið hrundi í fyrradag. Ég var að koma úr sjúkraþjálfun á nýsóluðuðum skóm.  Ég er mjög sérvitur á skó.  Það er vegna þess að ég verð að vera það.  Ég dreg annann fótinn.  Þegar ég kom að bílnum mínum missti ég fæturna undan mér og hreinlega hrundi niður.  Ég náði aðeins að draga úr fallinu en engu að síður datt ég og skorðaðist undir bílnum upp við gangstéttarbrúnina.  Eftir að hafa stangað hana með enninu.  Það var vont.  Ég lá þarna kveinandi um stund.  Þá kom kona aðvífandi.  Ég bað um hjálp.  Konan taldi ekki ráðlegt að hún færi að reisa mig við.  Var ekki viss um að ég ætti yfir höfuð að standa upp.  Hún sótti hjálp inn í sjúkraþjálfunina.  Móttökustúlkan kom og sagðist ætla að sækja hjálp.  Því næst komu tveir fílefldir sjúkraþjálfarar.  Sá sem ég hafði verið hjá og annar til.  Þeir náðu mér undan bílnum og tókst með miklu harðfylgi að reisa mig við.  Ætlaði ég að setjast upp í bílinn og koma mér burt með það sama.  Þá spratt fram konan sem fyrst hafði komið á vettvang og hélt nú ekki.  "Þú ferð ekki að leika einhverja hetju núna sagði hún."  Hún þreif af mér veskið og strunsaði með það inn í sjúkraþjálfunina með þeim orðum að ég skyldi jafna mig áður en ég æki burt.  Ég sættist á að fara inn og fá kaldan bakstur á ennið.  Sem ég og gerði.  Það var gott að slaka aðeins á og linaði verkina að fá kalt á kúluna.  Takk ókunna kona!  Í gær fór ég svo með skóna til skóarans og sagði honum að þegar sólarnir væru svona (hrjúfir) þá gerðist þetta (og benti á kúluna). Hann hrökk dálítið við en ætlar að sóla skóna upp á nýtt.  Með sléttum botni takk.  Ég er ekki frá því að ég heyri raddir í dag og sjái sýnir.  Það er þó engin ástæða til að fara til læknis?  Þetta reddast!
Í dag fór ég í sjúkraþjálfun og bað sjúkraþjálfarann að þreyta mig ekki alveg svo mikið að ég hryndi undir bílinn!  Hann tók þetta á sig.  Að sjálfsögðu.  Það er svo aftur allt annað mál að ég er með MS sjúkdóminn.  Það er miklu þægilegra fyrir mig að kenna skósmiðnum og sjúkraþjálfaranum um.  Já og gangstéttinni sem var ójöfn.   Ég er í afneitun!  

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Herdís Sigurjónsdóttir

Ái ...ekki gott og sé ég þig nú svo sem alveg fyrir mér bölvandi og ragnandi, ekki alveg þinn stíll. Það er samt alveg satt hjá þér Frú Traustadóttir, fyrst hefur sjúkraþjálfarinn gert þig svo þreytta að þú hefur ekki náð að ganga á þessum hræðilega illa sóluðu skóm, svo ég tali nú ekki um gangstéttina ... 

Herdís Sigurjónsdóttir, 6.6.2007 kl. 20:51

2 Smámynd: G Antonia

æii  ég greip fyrir munninn þegar ég las þetta Vilborg mín, en þú ert hetja sem lætur ekkert koma þér úr jafnvægi.... enda mætt með skóna til skóarans næsta dag....  sjáumst á Maður Lifandi á morgun? Og í grillinu á laugardag?

G Antonia, 6.6.2007 kl. 22:09

3 identicon

Æi jæja, sé þig nú svolítið fyrir mér liggjandi þarna maður lítur alltaf í allar áttir þegar maður dettur..........En gott að skella bara skuldinni á gaurana og stéttina... Ekki dettur mér í hug að hugsa annað en að þú hafir svo hlegið að öllu saman ! Skemmtilega sagt frá þessum atburði

Magga systir (IP-tala skráð) 7.6.2007 kl. 14:06

4 Smámynd: Vilborg Traustadóttir

Þakka ykkur fyrir þetta stelpur. Þið eruð alltaf svo skemmtilegar. Ég er enn hálf vönkuð.  Heyri þó ekki eins háværar raddir í dag!

Vilborg Traustadóttir, 7.6.2007 kl. 17:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband