Kuldastígvél....ný sýn....

Það er komin vetur. Loksins. Þegar það koma nokkrir dagar í röð þar sem snjó leysir ekki jafnóðum og hann fellur má með sanni segja það. Ég böðla mér í kuldastígvélin og hvíli mokkasíurnar. Stundum. Það er nefnilega tveggja til þriggja manna verk að koma mér í kuldastígvélin mín fínu með "geimbúningafóðrinu". Fóðrið er nefnilega svo stamt og vinstri fóturinn það máttlítill að þetta er bölvað stapp. Ég á góðan mann. Þolinmóðan mann. Hann er auk þess verkfræðingur þannig að það er stór plús í þessu tilfelli. Það tók okkur 15 mínútna stanslaust púl á miðvikudagskvöldið þegar ég fór út að koma mér í kuldastígvélin. Í kvöld vorum við sléttar fimm mínútur að koma mér í þau. Svo tók það aðrar fimm fyrir tærnar að "aðlagast nýjum heimkynnum" en þær beyglast til og frá í magnleysi sínu.
Ég hef þannig rekið mig á nýjar "víddir" í smám saman þverrandi getu minni til að gera einföldustu hluti. Svona rekur maður sig á þetta þegar aðstæður kalla fram ný verkefni. Verkefni eins og það að klæða sig sjálf í kuldastígvél sem þótti einfaldasti hlutur í heimi er orðið að stórfenglegu verkfræðiundi! Ég hugsa hvað næst? Hugga mig við það að ég get þó enn rifið kjaft.

Kannski ætti ég að fjárfesta í kuldaskóm sem ég kemst í af sjálfsdáðum?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband