Þvottadagur

Í dag er þvottadagur hjá mér.  Þannig hagar til að við búum í blokk þar sem er sameiginlegt þvottahús á 12. hæð með útsýni í allar áttir.

Yndislegt að setjast þar niður smá stund og bíða eftir að vélarnar klári og njóta útsýnisins á meðan.Heart 

Við reyndum  fyrsta árið að hafa þvottavél í íbúðinni en þegar einn soninn vantaði þvottavél gáfum við honum hana enda er svo þægilegt að bóka einn dag í viku og þvo.  Þvottavélin var bara fyrir okkur inni á baði þar sem hún stóð ónotuð.

Ég ólst upp við það á Sauðanesi að mamma hafði einn þvottadag í viku.  Hún var með þvottavél í kjallaranum sem hún setti þvottinn ofan í og svo varð hún að hræra með priki á meðan þvotturinn var í vélini.  Mamma var einnig með pott í þvottahúsinu sem hún gat kveikt undir og soðið ýmislegt í m.a. slátur í súr og svið í sultu o.s.frv. 

Ég man enn hvað ég var einmana þegar mamma var með þvottadagana.  Hún var einbeitt við þvottavélina allan daginn sauð þvott, skolaði og vatt. Síðan var allt hengt út á snúru ef viðraði.  Oftast reyndi hún að þvo þegar þurrkur var en stundum varð að hengja þvottinn upp inni.  Oft uppi á lofti í þá daga en síðar eftir að mamma fékk sjálfvirka Candy vél í fimmtugsafmælisgjöf var hengt upp niðri í kjallara þar sem þvottavélin vatt betur en gamla vindan hennar mömmu.

Hugsið ykkur mamma var fimmtug þegar hún fékk fyrst sjálfvirka þvottavél og þá fékk HÚN hana í afmælisgjöf.  Við sátum öll og horfðum furðu lostin á þvottinn veltast um í tromlunni.  Við hefðum ekki verið hamingjusamari þó við hefðum verið að horfa á sjónvarp sem sást ekki á þessum tíma á Sauðanesi þar sem skilyrði voru ekki fyrir hendi. W00t

Í þeim efnum fóru þó fljótlega í hönd svarthvít mismikil hríðarskjár þar sem það var happa og glappa hvort skilyrði voru til að horfa á Dallas eða Húsið á Sléttunni!Wink

Hvað um það, það hentar mér líka vel, eins og mömmu forðum, að hafa einn þvottadag í viku en barnabörnin koma bara með í þvottahúsið og hjálpa mér þar sem ekki er hætta á að slettist sjóðandi vatn á þau sem ég ímynda mér að hafi verið ástæða þess að okkur var haldið frá þvottastússi í þá daga.

Hver mínúta var dýrmæt þar sem allt þurfti að ganga upp.  Stórt heimili, bústofn og alltaf eitthvað að gera.  Mjólka, gefa dýrum, slóðadraga og raka af, heyja o.s.frv.  Sauðburður á vorin, rýjað í júní, sláturtíð á haustin svo eitthvað sé nefnt.

Svo áttu börn ekkert að vara að "þvælast fyrir" vinnandi fólki!

Við hjálpuðum líka heilmikið til krakkarnir og þvældumst lítið fyrir að því er ég best man!Cool 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hulda Margrét Traustadóttir

Ó, hvað ég  man ekki eftir þvottadögunum á Sauðanesi - En Vilborg, nú erum við á hraðri leið til fortíðar svo það er gott að þú minnist á þvottadaga. Hjá mér eru það laugardagarnir sem vélin fær að strita. En okkur konunum líður aldrei betur en þegar þvotturinn er komin tandurhreinn inní skáp. Ég er í þvottastuði í dag !

Hulda Margrét Traustadóttir, 17.1.2009 kl. 15:07

2 Smámynd: Hulda Margrét Traustadóttir

Ég man eftir átti það að vera.....

Hulda Margrét Traustadóttir, 17.1.2009 kl. 15:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband