Nýárið fullt af fyrirheitum

Nýtt ár byrjar jafnan fullt af fyrirheitum.  Við leggjum niður fyrir okkur hvað við viljum leggja áherslu á á árinu og hvernig við framkvæmum það.

Nýtt upphaf er á döfinni hjá okkar fjölskyldu eins og hjá svo mörgum öðrum.

Við hyggjumst verja meiri tíma í henni Djúpavík þar sem er gott að slaka á fjarri ys og þys borgarinnar.  Þar er nóg við að vera og gaman að skella sér á sjó á litlum bát í góðu veðri eða sigla á skútu.

Báturinn Sigurpáll bíður einnig yfirhalningar en Geir og Hörður drifu síg í það í morgun að byrja að taka upp vél sem í hann mun fara. Gott upphaf að nýju athafnaári.

Við hyggjumst styðja vel við fjölskylduna okkar á árinu, aðallega með samveru sem er gulls ígildi.  Vonandi tekst okkur að vera samvistum með börnum og barnabörnum í sumar og þá er freistandi að hugsa sér þá samveru að hluta til í Djúpavíkinni. 

Allir sonarsynir okkar gistu hér í nótt og var mjög gaman að hafa þá.  Annar sonur okkar var með sínum strákum.  Stofunni var breytt í svefnsal með flatsæng og einnig nýttum við sófana sem góða svefnaðstöðu fyrir tvo gutta.

Ég kveikti á saltlampanum mínum og skapaði notalega stemningu fyrir þá.

Margir huga að aukinni hreyfingu um áramót og er ég þar engin undantekning,.  Ég verð þó að sníða mér stakk eftir vexti í þeim efnum og helst hef ég hug á að  halda áfram í rope-yoga sem mér finnst eiga vel við mig.  Þó það sé talsvert erfitt fyrir mig finn ég að það skilar auknum styrk og betri líðan. 

Þá er bara að drífa sig af stað í það. 

Einnig verð ég að hefja nýtt ár á að berjast fyrir því að fá nýja lyfið við MS.  Það var samþykkt í apríl eða maí að ég fengi það og átti að hafa samband við mig í haust.  Það var ekki gert svo ég hringdi í Hauk Hjaltason sem sér um lyfjagjöfina f.h. Landspítala.  Hann sagði að ekki væri komið að mér en sennilega væri ég þó komin fram fyrir biðröðina?

Ef svo er þá spyr ég hver eru þeir staddir sem eru í biðröðinni?

Þetta er svona það sem flýgur í gegn um hugann núna en margt annað er á döfinni eins og hippaball á Ketilásnum annað árið í röð, heimsóknir til vina og vandamanna og vonandi svalamálun norður á Akureyri eða einhvers staðar annars staðar með Möggu systir.

Eigið góðan dag. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hulda Margrét Traustadóttir

Það er gott að hafa fyrirheit. Svalamálun, já takk, það er bókað og Ketilásballið. Og svo væri ekki amalegt að standa á holtinu í Djúpuvík með trönurnar !. Ekki fer maður til Portúgla næsta sumar...enda gott að vera á landinu sínu, Þrátt fyrir allt !

Hulda Margrét Traustadóttir, 1.1.2009 kl. 16:43

2 Smámynd: Hulda Margrét Traustadóttir

hm...Portugal...

Hulda Margrét Traustadóttir, 1.1.2009 kl. 16:43

3 Smámynd: Ólöf de Bont

Djúpavík, hljómar svo seiðandi.  Hefði ekkert á móti að dvelja þar á fallegum sumardegi og spjalla í fjörunni um allt milli himins og jarðar.  Auðmýkt, hún er gulls ígildi.  Æðruleysi er það lyf sem hentar best órólegum huga.  Ég dáist að styrk þínum að halda þinni ró og þínu æðruleysi í þeim ólgusjó krónísks sjúkdóms og getað lifað einn dag í einu.

Farsælt 2009.

Ólöf de Bont, 1.1.2009 kl. 17:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband