Tími samvinnustjórnmála er kominn

Eiríkur Tómasson og Gunnar Helgi Kristinsson komu inn á það í viðtali við Boga Ágústsson að stjórnmálin á Íslandi væru í eðli sínu átakastjórnmál.  Við værum ólík öðrum þjóðum hvað það varðaði og þeir vonuðust eftir því að tími samvinnustjórnmála væri að renna upp hér á landi.  Eða þannig skildi ég þá ágætu herramenn.

Ég er svo innilega sammála þessu og hef ásamt fleirum undrast mjög þann málflutning sem Alþingi Íslendinga hefur boðið okkur upp á allt síðan það syrti verulega í álinn haustið 2008. 

Landið er á vonarvöl og þingmennirnir okkar FYRIR OG EFTIR kosningar hafa ekki sýnt þann þroska að reyna í sameiningu að vinna okkur upp á núllið á ný.  Eina viðleitnin í þá veru var afgreiðsla frumvarpsins um Icesave á sumarmánuðum en eftir að Hollendingar og Bretar höfnuðu fyrirvörunum hefur hver höndin verið upp á móti annarri á Alþing Íslendinga.  Ekki er undarlegt að aðrar þjóðir horfi til þess hve ósamstíga við erum og reyni að koma sínum málum áfram í skjóli þess.

Nú ríður á að við kynnum málstað okkar svo ekki verði um villst og fáum til þess reynda aðila sem kunna til verka.

Nú ríður á að þjóð og þing sameinist í afstöðu sinni og komi fram með raunhæfa lausn sem sýnir svo ekki leiki nokkur vafi á að við ætlum okkur að standa við skuldbindingar okkar.

Nú ríður á að við komum fram sem ábyrg þjóð og tölum einu máli um þá erfiðleika sem við okkur blasa og sýnum vilja til samvinnu án þess þó að láta kúga okkur. 

Það hvernig Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon komu fram strax eftir synjun forseta var ekki í þeim anda að skapa samstöðu meðal þjóðarinnar eða samstöðu annarra þjóða með okkur.

Þau verða að breyta um brag og virkja þingið með sér í samvinnu að lausn málsins.  

Þar geta þau tekið Hönnu Birnu Kristjánsdóttur borgarstjóra sér til fyrirmyndar en það er alveg einstakt hve vel henni hefur tekist að koma á samvinnu í borgarstjórn Reykjavikur. 

Staðan er þessi og við verðum að sýna þá ábyrgð að leysa úr henni saman. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband